[Ræða] Góð ræða Sigurjóns í eldhúsdagsumræðunum

Sigurjón Þórðarson þingmaður Frjálslynda flokksins var fyrsti ræðumaður flokks síns í eldhúsdagsumræðum á þriðjudagskvöldið. Að mati Junior Chamber á Íslandi stóð Sigurjón sig næstbest í eldhúsdagsumræðunum. Ræðumaður kvöldsins var valinn Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar. Sigurjón varð neðstur í fyrra og sat í kjölfarið námskeið í ræðumennsku fyrr á þessu ári og segir JCI að hann hafi sýnt miklar framfarir síðan. Ræða Sigurjóns var beitt og hann skóf ekki utan af hlutunum. Enda engin ástæða til þess þar sem umfjöllunarefnið var spilling ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega Framsóknarflokksins. Ritstjórn þykir ræða Sigurjóns eiga erindi til sem flestra og ákvað að birta hana hér á vefriti allra landsmanna – Pólitík.is. Sigurjón Þórðarson þingmaður Frjálslynda flokksins var fyrsti ræðumaður flokks síns í eldhúsdagsumræðum á þriðjudagskvöldið. Að mati Junior Chamber á Íslandi stóð Sigurjón sig næstbest í eldhúsdagsumræðunum. Ræðumaður kvöldsins var valinn Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar. Sigurjón varð neðstur í fyrra og sat í kjölfarið námskeið í ræðumennsku fyrr á þessu ári og segir JCI að hann hafi sýnt miklar framfarir síðan. Ræða Sigurjóns var beitt og hann skóf ekki utan af hlutunum. Enda engin ástæða til þess þar sem umfjöllunarefnið var spilling ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega Framsóknarflokksins. Ritstjórn þykir ræða Sigurjóns eiga erindi til sem flestra og ákvað að birta hana hér á vefriti allra landsmanna – Pólitík.is.

__________________________________________________

Góðir landsmenn.
Ríkisstjórnin sem nú situr að völdum hefur setið í 10 ár og ekki kom á óvart að hún hélt veislu sjálfri sér til dýrðar.

Á síðastliðnum 10 árum hefur margt breyst, sumt til batnaðar og annað til hins verra. Það hefur verið siður ríkisstjórnarinnar að þakka sér allar framfarir í þjóðfélaginu síðastliðinn áratug en kenna utanaðkomandi um allt sem miður fer og gengur það svo langt að ýmsir stjórnarliðar kenna Seðlabankanum um gengisþróun og fjölmiðlum um slæmar fréttir.

Þessi einfaldi og barnalegi veruleiki sem ríkisstjórnin hefur dregið upp stenst ekki nánari skoðun. Margt af því sem hefur áunnist er vegna tæknibreytinga og alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist, s.s. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem hefur haft víðtæk áhrif um allt samfélagið.

Öll merki eru um að ríkisstjórnin sé mikill dragbítur á framförum í landinu og þá sérstaklega lýðræðislegri gagnrýninni umræðu. Þetta sást berlega í fjölmiðlamálinu, ráðningu á fréttastjóra Ríkisútvarpsins og frumvarpi um Ríkisútvarpið. Ríkisstjórnarflokkarnir voru gerðir afturreka með öll þessi mál enda gerðu þeir sig seka að hafa bein áhrif á umfjöllun fjölmiðla.

Eitt meginviðfangsefni allra stjórnmálaflokka sem kenna sig við lýðræði væri að opna bókhald sitt en það tíðkast í öllum þroskuðum lýðræðisríkjum. Bókhald okkar í Frjálslynda flokknum hefur frá upphafi verið opið og höfum við haldið uppi harðri gagnrýni á það hvernig þrír stærstu stjórnmálaflokkar landsins hafa pukrast með fjármál sín. Framsóknarflokkurinn hefur reynt að drepa þessari umræðu á dreif með því að láta í það skína að málið snúist um persónuleg fjármál þingmanna en það er af og frá. Umræðan snýst um það hver greiddi rándýra kosningabaráttu Framsóknarflokksins sem hlaut m.a. markaðsverðlaun.

Var það S-hópur Framsóknarflokksins sem tengist og forsætisráðherra með beinum hætti? Vel að merkja, umræddur S-hópur fékk að kaupa Búnaðarbankann með ársgreiðslufresti og milljóna dollara afslætti. Það eru margar fleiri ráðstafanir einkavæðingarnefndar sem nauðsynlegt er að rannsaka og mun Frjálslyndi flokkurinn láta verða sitt fyrsta verk þegar hann kemst til áhrifa að rannsaka til hlítar störf nefndarinnar.

Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur virðast eiga harma að hefna gagnvart Samkeppnisstofnun en til stendur að leggja stofnunina niður. Svo virðist sem hún hafi höggvið of nærri stjórnarflokkunum þegar hún hóf rannsókn á olíusamráðssvindli olíufélaganna en alkunna er að Shell hefur verið nátengt Sjálfstæðisflokknum og Olíufélagið Framsóknarflokknum. Að vísu verður búin til ný stofnun með veikari samkeppnislög og sérstaka pólitískt skipaða stjórn. Að öllum líkindum er tilgangurinn að koma í veg fyrir að rannsakað verði of nálægt hreiðrum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins.

Frjálslyndi flokkurinn hefur ítrekað ganrýnt aukinn ójöfnuð í þjóðfélaginu á sama tíma og hið opinbera blæs út.

Fjármálaráðuneytið hefur staðfest að hlutur hins opinbera af þjóðarkökunni hafi vaxið stöðugt og fer nú helmingur hennar í hið opinbera. Þetta er athyglisverð staðreynd í ljósi þess að ójöfnuður í samfélaginu hefur vaxið og sömuleiðis hefur skattbyrðin vaxið á kostnað lægri launa. Sjálfstæðisflokkurinn hefur með útgjaldafíkn sinni þanið út báknið á kostnað þeirra sem hafa lægri laun og létt af þeim efnameiri sem eru ofan á í samfélaginu.

Framsóknar- og sjálfstæðismenn reyna ætíð að halda því fram að það sé verið að lækka skatta, og það er rétt svo langt sem það nær, þ.e. eignarskatt. Tekjuskattur er svo lækkaður mest hjá þeim sem hafa hærri launin, en það segir sig sjálft að til þess að standa undir auknum útgjöldum flokkanna þá þarf að afla tekna. Hjá ríkissjóði eru sömu lögmál og hjá heimilunum – ef meiru er eytt þá þarf að afla meiri tekna en þegar ríkissjóður gerir það þá heitir það skattar.

Vill ríkisstjórnin leyna því að hún er jafnt og þétt að auka ójöfnuð?

Á dögunum beindi ég fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins um hvernig ójöfnuðurinn í þjóðfélaginnu myndi aukast þegar skattstefna ríkisstjórnarinnar yrði að fullu komin til framkvæmda. Ætla mætti að reiknimaskínur ráðuneytisins réðu við dæmið en þær reikna hagvöxt mörg ár inn í framtíðina. Nei, skyndilega stöðvuðust allar reiknimaskínur ráðuneytisins.

Allir landsmenn ættu að sjá að víða er breytinga þörf. Það þarf að breyta starfsháttum hér á Alþingi. Þinginu verður að öllu líkindum slitið á morgun og kemur ekki saman aftur fyrr en eftir tæpa fimm mánuði, eða 1. október næstkomandi. Allir ættu að sjá að það er ekkert vit í þessum vinnubrögðum enda er verið að setja hér lög og reglur fyrir þjóðfélagið á handahlaupum. Þingmaður stjórnarliðsins hefur látið hafa eftir sér að hann hafi verið á sífelldum hlaupum í nefndarstarfi þingsins þar sem hann hafi verið á mörgum fundum samtímis.

Þinginu hefur verið oft á tíðum verið stjórnað af miklu offorsi eins og alþjóð veit. Virðulegur forseti hefur meinað þeim sem hér stendur í ræðustól að spyrja stjórnvöld óþægilegra spurninga, spurninga sem varða málefni sem fólkið í landinu fýsir mjög að fá upplýsingar um, s.s. um það hve margir flokksgæðingar hafa verið bundnir á sendiherrabásinn í hesthúsi utanríkisþjónustunnar sem fer sístækkandi, og jafnframt undir hvaða flokka gæðingarnir heyra.

Auðvitað er gríðarlegur vöxtur utanríkisþjónustunnar feimnismál fyrir stjórnvöld enda hafa fjárframlög til utanríkisþjónustunnar vaxið verulega. Nú er varið til hennar tvöþúsund og þrjúhundruð milljónum meira árlega á föstu verðlagi en á árinu 1998 og sendiherrum hefur fjölgað um tugi. Nú í vor þóttist forsætisráðherra ætla að taka á því siðleysi að fyrrum ráðherrar gömlu stjórnmálaflokkanna þiggi eftirlaun þrátt fyrir að vera á afar góðum launum sem sendiherrar. Þetta siðleysi viðgengst enn og mun eflaust verða þar til núverandi forsætisráðherra fer frá. Þessi gæska við gæðinga ríkisstjórnarinnar er sérstaklega áhugaverð fyrir þær stéttir sem hafa verið sakaðar um að setja þjóðfélagið á annan endann, s.s. kennara landsins, ef farið yrði að kröfum þeirra.

Starfsháttum Alþingis verður ekki breytt af núverandi stjórnarflokkum, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki, og þess vegna þarf m.a. að koma þessum flokkum frá völdum. Einhverjir hafa eflaust bundið vonir við hina ungu þingmenn stjórnarflokkanna en þeir hafa sannað með verkum sínum að löng og ströng tamning hefur gert þá að viljalausum burðarklárum.

Það þarf að breyta viðhorfum stjórnvalda til umhverfismála.

Fyrstu ræðu mína á þessu þingi hóf ég á því að óska nýjum umhverfisráðherra velfarnaðar og lýsa yfir í einlægni að ég vænti þess að hann skilaði góðu starfi. Ég hef því miður orðið fyrir miklum vonbrigðum með störf hans. Það er eins og umhverfisráðherrann telji það miklu fremur hlutverk sitt að draga taum málefna annarra ráðherra en umhverfisins. Þetta kom berlega í ljós þegar ráðherra lýsti því yfir að honum litist vel á að dísilolía, sem er umhverfisvænni en bensín, yrði dýrari en bensín og taldi það samt sem áður mikla hvatningu fyrir bíleigendur að skipta yfir á dísilbíl.

Í fyrradag hélt ráðherrann áfram á sömu braut og skammaði eina af stofnunum sínum fyrir að standa vörð um umhverfið og gefa faglega umsögn um arfavitlaust frumvarp til vatnalaga.

Eitt helsta baráttumál Frjálslynda flokksins er og verður breytt fiskveiðistjórn. Það er ekki eingöngu vegna þess að við höfun áhuga á útveginum. Nei, miklu frekar vegna þess að um er að ræða stærsta byggðamálið og það er að auki réttlætismál.

Það er staðreynd að við í Frjálslynda flokknum munum án nokkurs efa stjórna útveginum mun betur en gert er nú, enda er þorskaflinn nú, eftir 20 ára veiðar í kvóta, helmingi minni en fyrir daga kvótakerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið ferðinni í sjávarútvegsráðuneytinu nú á annan áratuginn og það er ömurlegur vitnisburður um stjórn flokksins að þorskafli við Íslandsmið hafi aldrei verið jafn lítill á jafn löngu tímabili, allt frá því að landið öðlaðist fullveldi, og þá eru meðtalin þau ár þegar fiskimiðin voru friðuð af þýskum kafbátum á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Að lokum vil ég þakka hinum stjórnarandstöðuflokkunum, Samfylkingunni og Vinstri grænum, fyrir gott samstarf og vonast ég til að áframhald megi verða á en eingöngu með þeim hætti losnum við við gamaldags kvótaflokka, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk, úr landstjórninni.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand