Hin makráða stjórn

Allt frá sokkabandsárunum í sveitinni heima hefur mér sýnst að íslenskir bændur vinni góð og gagnleg störf. En nú er af sem áður var að þeir skipi flest sæti á Alþingi. Hvernig má þá vera að ár hvert liggja þingfundir niðri í hartnær fimm mánuði svo að hinir þjóðkjörnu fulltrúar fari nú ábyggilega ekki á mis við sauðburð að vori og göngur að hausti? Í ár er ekki brugðið út af vananum og þingslitin 11. maí með endemum snubbótt. Um 30 frumvörp bíða fyrstu umræðu, þar af voru fimm lögð fram fyrir áramót. 126 þingsályktunartillögur eru óafgreiddar. Hvað á svona vinnulag að þýða? Þinglok 2005
Allt frá sokkabandsárunum í sveitinni heima hefur mér sýnst að íslenskir bændur vinni góð og gagnleg störf. En nú er af sem áður var að þeir skipi flest sæti á Alþingi. Hvernig má þá vera að ár hvert liggja þingfundir niðri í hartnær fimm mánuði svo að hinir þjóðkjörnu fulltrúar fari nú ábyggilega ekki á mis við sauðburð að vori og göngur að hausti?

Í ár er ekki brugðið út af vananum og þingslitin 11. maí með endemum snubbótt. Um 30 frumvörp bíða fyrstu umræðu, þar af voru fimm lögð fram fyrir áramót. 126 þingsályktunartillögur eru óafgreiddar.

Hvað á svona vinnulag að þýða?

Skýringar
Því er borið við að alþingismenn þurfi næði til að hitta kjósendur í sínu kjördæmi en nú – á dögum Netsins – ætti að vera hægur vandi að hafa samband við þingmenn. Væri ekki affarasælla að þinghald stæði lengur og væri þá ekki eins stíft? Þá gætu þingmenn komið að máli við kjósendur meðan frumvörpin væru til meðferðar fremur en eftir að örlög þeirra væru ráðin.

Stuttur starfstími stuðlar ekki að vönduðum vinnubrögðum á Alþingi enda lenska að leggja fram afleit og umdeild stjórnarfrumvörp seint og um síðir svo að minna tóm gefist til að gagnrýna þau. Aðeins ótti við málalengingar stjórnarandstæðinga og styttra þinghlé virðist geta komið í veg fyrir að slík frumvörp séu keyrð í gegn. Um leið er hinn skammi þingtími og tilheyrandi tímahrak kjörin átylla fyrir stjórnvöld til að láta ýmis frumvörp daga uppi í nefnd. Einkanlega getur það komið sér vel ef þau frumvörp horfa til framfara og stjórnarandstæðingar eru einir um að flytja þau. Annars þyrftu stjórnarliðar jú að fella þau í atkvæðagreiðslu fyrir opnum tjöldum og bíða álitshnekki eða að öðrum kosti veita þeim brautargengi og eiga á hættu að þau yrðu stjórnarandstæðingum til framdráttar í næstu kosningum.

Getur verið að flokkarígur sé helsta ástæðan fyrir tregðunni – að þinghaldið má ekki ganga í takt við atvinnulífið?

Virðing Alþingis
Í vetur sem leið fluttu þrír þingmenn Samfylkingarinnar frumvarp um að þing skyldi standa til 15. júní og koma aftur saman 15. september. Geta menn ímyndað sér hvernig fór fyrir því frumvarpi? Jú, það var látið lognast út af í allsherjarnefnd. Hvað annað?!

Gallup-kannanir undanfarin ár benda til að traust almennings til Alþingis sé lítið og fari þverrandi. Skyldu slæleg vinnubrögð vera ein ástæðan fyrir því?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand