Ráðherraveikin og ráðuneytin fjórtán

Það er hægt að gera ansi róttækar breytingar á fyrirkomulaginu eins og það er í dag. Þetta yrði ekki einungis til hagræðingar í daglegu starfi ráðuneytanna heldur myndi þetta líka spara útgjöld ríkisins stórlega og þannig væri fengið fjármagn til þess að reka mannsæmandi heilbrigðiskerfi eða bjóða jafnvel áfram upp á menntun á háskólastigi fyrir alla, en svo virðist sem ríkiskassinn sé ekki nægilega djúpur fyrir slíkar útópíuhugmyndir.
Sú umræða hefur verið uppi í þónokkurn tíma að fækka beri ráðuneytum á Íslandi og verður sú góða vísa varla of oft kveðin. Í dag eru ráðuneytin fjórtán talsins, en sumir ráðherrar hafa þann heiður að vera ráðherrar tveggja ráðuneyta. Þannig er til dæmis Davíð Oddson forsætisráðherra og ráðherra Hagstofunnar. Miðað við stærð og umsvif íslenska ríkisins telja margir að fjöldi ráðuneyta sé of mikill.

Af hverju að fækka ráðuneytunum?
En til hvers ættum við að reyna að fækka ráðuneytunum? Er það ekki þannig að með auknum fjölda ráðuneyta fáist aukin sérhæfing á þeim sviðum sem þau snúa að? Svarið er afdráttarlaust nei! Með auknum fjölda ráðuneyta fáum við síður en svo aukna sérhæfingu. Eftir því sem ráðuneytin eru fleiri, þeim mun færri starfa í hverju ráðuneyti fyrir sig og þannig eru þau verr í stakk búin til að takast á við stór og viðamikil verkefni. Í rauninni er eina ástæðan fyrir þessum mikla fjölda ráðuneyta hin svokallaða ráðherraveiki sem herjað hefur á þingmenn stjórnarflokkanna svo lengi sem elstu menn muna. Til dæmis eru engin rök fyrir því að hafa Hagstofuna sem ráðuneyti – eða muna menn kannski ekki lengur eftir því þegar Júlíus Sólnes bráðvantaði ráðherratitil og gegndi um hríð engu öðru embætti í ríkisstjórninni en embætti Hagstofuráðherra?

Það er hægt að gera ansi róttækar breytingar á fyrirkomulaginu eins og það er í dag. Þetta yrði ekki einungis til hagræðingar í daglegu starfi ráðuneytanna heldur myndi þetta líka spara útgjöld ríkisins stórlega og þannig væri fengið fjármagn til þess að reka mannsæmandi heilbrigðiskerfi eða bjóða jafnvel áfram upp á menntun á háskólastigi fyrir alla, en svo virðist sem ríkiskassinn sé ekki nægilega djúpur fyrir slíkar útópíuhugmyndir.

Hvar er hægt að taka til hendinni?
Fyrsta mál á dagskrá yrði að afnema Hagstofuna sem sérstakt ráðuneyti. Næst væri svo hægt að sameina landbúnaðar-, sjávarútvegs-, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin í eitt atvinnumálaráðuneyti. Að lokum yrði full ástæða til að sameina samgöngu- og umhverfisráðuneyti. Þar með yrðu ráðuneytin passlega mörg eða níu talsins. Skilvirkni myndi aukast í starfi ráðuneytanna og jafnvel væri hægt að hugsa sér ráðuneyti sem öll byggðu á skýrum starfsramma regluveldispýramída í anda Webers.

Hvað gerist í haust?
Í haust er ljóst að ýmsar breytingar verða á ráðherrastólum og ríkir viss ringulreið á meðal ráðherra og þá sérstaklega í herbúðum framsóknarmanna þar sem þeir munu missa einn ráðherra á meðan að Sjálfstæðisflokkurinn hefur litlar áhyggjur þar sem þeirra ráðherrastólum mun fjölga um einn og nóg er til af þingmönnum Sjálfstæðisflokks sem hafa áhuga á ráðherrastörfum. Það er því í mínum huga líklegra að ráðuneytum muni fjölga ef eitthvað er til þess eins að friða uppgjafaráðherra. Hægt væri að hugsa sér sérstakt samskiptaráðuneyti, menningarmálaráðuneyti, íþróttaráðuneyti, að ráðherra Hagstofunnar yrði aftur að sérembætti og að kirkjumálaráðuneytið yrði klofið frá dómsmálaráðuneytinu. Þetta má þó ekki gerast, enda megum við allra síst við enn einu ráðuneytinu með illa skilgreindu starfssviði. Það er þó aldrei að vita hvað gerist þegar formaður Framsóknarflokksins fer að finna smjörþefinn af forsætisráðherrastólnum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand