En lengi getur vont versnað. Nú á að svíkja öryrkja aftur og nú um seinni áfangann sem heilbrigðisráðherra hafði lofað að kæmi í ár. Forystumenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa nýlega útilokað frekari greiðslur til öryrkja þrátt fyrir orð heilbrigðisráðherra og fyrirliggjandi samkomulag. Ríkisstjórninni ber hins vegar að standa við sín orð en þessari ríkisstjórn er einfaldlega ekki viðbjargandi. Svo einfalt er það. Það er með ólíkindum hvernig ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kemur fram við öryrkja þessa lands. Þjóðin verður reglulega að vera vitni að opinberum átökum milli öryrkja og ríkisstjórnarflokkanna.
Í síðastliðinni kosningabaráttu hreyktu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur sér af samkomulagi sem var gert við Öryrkjabandalagið um að rétta hlut yngstu öryrkja. Að kosningum loknum kom svo í ljós að samkomulagið var svikið, ekki bara einu sinni heldur tvisvar.
Skilningur allra nema ríkisstjórnarflokkanna
Þann 25. mars 2003 kynnti heilbrigðisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar samkomulag við Öryrkjabandalagið um hækkun grunnlífeyris öryrkja. Frásagnir allra fjölmiðla af samkomulaginu sem var kynnt á sameiginlegum blaðamannafundi heilbrigðisráðherrans og Öryrkjabandalagsins voru allar á einn veg. Sama dag og blaðamannafundurinn var haldinn lýstu fjölmiðlar nákvæmlega útfærslu samkomulagsins sem miðaði við að grunnlífeyrinn myndi hækka um rúmar 400 krónur fyrir hvert aldursár.
En ef litið er til þess hvers konar hækkun ríkisstjórnin svo samþykkti fyrir síðastliðin jól kemur í ljós að aldurstengda örorkuuppbót hækkar talsvert minna en um rúmar 400 kr. fyrir hvert aldursár.
Samkvæmt samkomulaginu og þeirri útfærslu sem fjölmiðlarnir lýstu hefði 44 ára gamall öryrki átt að fá aldurstengda örorkuuppbót að upphæð 9.684 kr í hverjum mánuði. Samkvæmt lögunum sem ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu um jólin fékk viðkomandi hins vegar 1.032 kr. Öryrki sem er 56 ára gamall átti að fá rúmar 4.000 kr. ef samkomulaginu hefði verið fylgt eftir en fékk aðeins 516 kr. samkvæmt lögunum. Ljóst er að hækkunin er mun lægri en samkomulagið gerði ráð fyrir og á einstaklingsgrunni munar vitaskuld töluverðu. Í heild vantaði heilar 500 milljónir til að staðið yrði við samkomulagið.
Heilbrigðisráðherra staðfestir svikin
Skilningi Morgunblaðsins, Ríkisútvarpsins og Stöðvar 2 á samkomulaginu sem heilbrigðisráðherra og formaður Öryrkjabandalagsins kynntu sameiginlega var ekki mótmælt af hálfu ráðherra eða ríkisstjórnarflokkanna. Enda var samkomulagið um tiltekna hækkun á hvert aldursár en ekki um niðurneglda heildarupphæð. Staðreyndin er því sú að ríkisstjórnarflokkarnir stóðu ekki við umsamda hækkun.
Heilbrigðisráðherra hefur meira að segja staðfest í fjölmiðlum að loforðið við öryrkja hafi ekki verið efnt að fullu. Síðastliðið haust talaði ráðherrann um að ,,greiða þyrfti hækkanirnar sem um var samið í áföngum, 66% koma til greiðslu um næstu áramót [2003-2004] og afgangurinn ári síðar.“
Sömuleiðis sagði heilbrigðisráðherrann að ,,miðað við þær heimildir sem ég [ráðherrann] hef þarf hins vegar að áfangaskipta þessu samkomulagi. En það stendur ekki til annað en að standa við það eins og það stendur.“
Ríkisstjórninni ekki viðbjargandi
Í samkomulaginu var hins vegar hvergi gert ráð fyrir áfangaskiptingu. Í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu kom fram um að samkomulagið ætti að koma allt til framkvæmda síðastliðinn janúar. Með þessu var því búið að svíkja öryrkja einu sinni.
En lengi getur vont versnað. Nú á að svíkja öryrkja aftur og nú um seinni áfangann sem heilbrigðisráðherra hafði lofað að kæmi í ár. Forystumenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa nýlega útilokað frekari greiðslur til öryrkja þrátt fyrir orð heilbrigðisráðherra og fyrirliggjandi samkomulag. Ríkisstjórninni ber hins vegar að standa við sín orð en þessari ríkisstjórn er einfaldlega ekki viðbjargandi. Svo einfalt er það.