Öruggt húsnæði er stærsta velferðarmálið

Leiðari Jöfn og frjáls, vor 2018.

Á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins þann 1. maí endurfluttu Ungir jafnaðarmenn lengstu ræðu sem flutt hefur verið í sögu Alþingis. Jóhanna Sigurðardóttir flutti ræðuna upphaflega árið 1998, en þá talaði hún í rúmar 10 klukkustundir til varnar verkamannabústaðakerfinu sem jafnaðarmenn byggðu upp á sínum tíma. Jóhanna tapaði slagnum og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tókst ætlunarverk sitt, að leggja niður félagslegt húsnæðiskerfi á Íslandi

Okur á leigumarkaði

Spólum áfram til dagsins í dag. Húsnæðisskortur hefur keyrt upp leiguverð á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin ár og það er sár vöntun á félagslegu húsnæði. Ungt og tekjulágt fólk hírist á ónýtum leigumarkaði og þarf að þola óvissu um framtíðina. Formaður VR benti nýlega á dæmi þar sem leiguverð hjá einkareknu leigufélagi hækkaði um 50–70% á tveimur árum. Þetta óöryggi veldur því að fjölskyldur lenda á hrakhólum og sumar hafa jafnvel neyðst til að flytja til annarra landshluta í leit að öruggu húsnæði.

Ástandið sem við sjáum á húsnæðismarkaði í dag er afleiðing af því að við búum ekki við almennilegt félagslegt húsnæðiskerfi. Húsnæði er ekki eins og hver önnur neysluvara sem á að lúta lögmálum markaðarins. Húsnæði er mannréttindi og aðgengi að öruggu húsnæði er forsenda þess að hægt sé að byggja upp velferðarsamfélag þar sem allir njóta jafnra tækifæra.

Endurreisn félagslega húsnæðiskerfisins hafin

Á þessu kjörtímabili hefur Reykjavíkurborg stigið fyrstu skrefin í átt að endurreisn hins félagslega húsnæðiskerfis. Í samvinnu við félög sem starfa án hagnaðarsjónarmiða hefur borgin farið af stað í viðamikla uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum um alla borg. Þetta eru félög á borð við Félag eldri borgara, Félagsstofnun stúdenta og verkalýðshreyfinguna, en auk þess hyggst borgin fjölga félagslegum íbúðum á sínum vegum um 600 á næstu fimm árum. Stærsta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar er hafið.

Aðgerðir Reykjavíkurborgar eru mikilvægt skref í rétta átt en þau duga ekki til. Önnur sveitarfélög þurfa að axla ábyrgð og taka þátt í uppbyggingunni. Hingað til hafa nágrannasveitarfélög Reykjavíkur nánast skilað auðu í uppbyggingu félagslegra íbúða og velt ábyrgðinni alfarið yfir á borgina. Í Reykjavík eru 20 félagslegar íbúðir á hverja 1000 íbúa en þær eru aðeins 12 á hverja 1000 íbúa í Kópavogi, 8,5 í Hafnarfirði, 3,6 á Seltjarnarnesi og 2,3 í Garðabæ. Þess vegna leggur Samfylkingin áherslu á fjölgun félagslegra íbúða og uppbyggingu öruggs leigumarkaðar í sveitarfélögum um allt land.

Ríkisstjórnin þarf einnig að bretta upp ermar. Koma verður böndum á einkareknu leigurisana og hefja samstarf við sveitarfélög og verkalýðshreyfingu um uppbyggingu almennra leiguíbúða. Staðreyndin er sú að ef verkamannabústaðakerfið hefði ekki verið afnumið á sínum tíma má ætla að um 12 þúsund íbúðir væru innan þess kerfis í dag — íbúðir sem hið opinbera gæti leigt tekjulágu fólki án hagnaðarsjónarmiða. Nú er lag að snúa bökum saman og byggja aftur upp öruggt félagslegt húsnæðiskerfi á Íslandi.

Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, ritstjóri Jöfn og frjáls 2018.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand