Hvað er Garðabæjarlistinn?

Þorbjörg Þorvaldsdóttir er 28 ára Garðbæingur og ungur jafnaðarmaður. Hún skipar 7. sæti á Garðabæjarlistanum, nýjum sameinuðum framboðslista minnihlutans í Garðabæ. Við ræddum við Þorbjörgu og spurðum hana um áherslur þessa nýja lista.

Hvernig kviknaði hugmyndin að Garðabæjarlistanum?

Svo það sé sagt þá kom ég ekki inn í starfið fyrr en eftir að ákveðið hafði verið að bjóða fram saman en mér skilst að þessi hugmynd sé nokkurra ára gömul. Forsvarsmenn flokkanna hafa reynt áður að stofna framboð í þessum dúr, þ.e. framboð sem sameinar að einhverju leyti minnihlutann í Garðabæ, en það hefur ekki tekist þótt oft hafi litlu munað. Í ár gekk þetta síðan svona vel upp og úr varð alveg ótrúlega öflugur listi. Garðabæjarlistinn spannar auðvitað ansi stóran hluta hins pólitíska litrófs, frá Viðreisn til Vinstri grænna, en við erum alveg virkilega góður hópur og vinnum vel saman.

Af hverju viljið þið vinna saman í stað þess að bjóða fram í sitt hvoru lagi?

Við viljum gefa Garðbæingum skýran valkost og teljum að með því að sameina krafta okkar getum við náð til fleira fólks og almennt háð öflugri baráttu en flokkarnir gætu gert í sitt hvoru lagi. Svo má ekki gleyma því að á Garðabæjarlistanum er mikið af óháðum einstaklingum, sem fá þarna vettvang til þess að taka þátt í bæjarpólitík án þess að skrá sig í einhvern einn stjórnmálaflokk. Við erum sem sagt mjög fjölbreyttur hópur fólks og mér finnst í raun og veru alveg magnað hvað við erum sammála um hvað þarf að bæta í Garðabæ.

Hvernig komst þú inn á listann?

Ég var fyrst spurð hvort það mætti benda á mig og stuttu seinna var hringt í mig og ég beðin um að taka sæti á Garðabæjarlistanum fyrir hönd Samfylkingarinnar.

Hverjar eru áherslur Garðabæjarlistans?

Slagorðið okkar er virkjum lýðræðið. Í því felst auðvitað hvatning til kjósenda um að kynna sér eitthvað annað en þennan eina flokk sem hefur haft hálfgerða áskrift að völdum í Garðabæ í áratugi. Í slagorðinu felst svo líka að viljum við sjá miklu virkara samráð við bæjarbúa þegar kemur að stórum ákvörðunum meðal annars með íbúakosningu um mjög umdeild mál. Það er rosalega mikilvægt að tryggja það að allar boðleiðir séu skýrar og að það sé gagnsæi í stjórnsýslunni.

Síðan er okkar helsta áhersla að Garðabær eigi að vera fyrir alla. Þar er af mörgu að taka, en við viljum að ungt fólk og ungar barnafjölskyldur hafi einhverja alvöru búsetuvalkosti í Garðabæ, við viljum efla stuðning við það fólk sem þarf á aðstoð bæjarins að halda, fjölga félagslegum íbúðum og tryggja að öll börn hafi kost á því að stunda íþróttir. Svo viljum við stuðla að því að Garðabær verði lifandi bær með því að skapa tækifæri fyrir öflugt atvinnulíf, hlúa að miðbænum og koma upp sköpunarmiðstöð ungs fólks svo eitthvað sé nefnt.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand