Öll él birtir upp um síðir

,,Nú verðum við öll að taka saman höndum og komast í gegnum þennan blindbyl því að lokum mun birta aftur til”. Segir Sölmundur Karl Pálsson ritstjóri politik.is í grein dagsins.
Fátt virðist ganga upp í efnahagslífi íslendinga, í raun gengur ekkert í hinum alþjóðlega fjármálaheimi. Bankar hafa ýmist farið í þrot eða sameinast öðrum bönkum. Seðlabankar víðast hvar í heiminum keppast við að laga lausafjárstöðu bankanna með því að veita þeim gjaldeyrislán og gera gjaldeyrisskiptasamninga við aðra seðlabanka.

Menn eru ekki sammála um hvort að Seðlabanki Íslands hafi tekið góðar ákvarðanir. Einnig eru margir ósammála um hvort að ríkisstjórnin hafi farið rétt að eða ekki. Var rétt af Seðlabanka að kaupa 75% hlut í Glitni? Af hverju hefur Seðlabanki Íslands ekki notað lánheimildir sínar til að auka gjaldeyrisvarasjóðinn? Á bankinn ekki frekar að einbeita sér að hjálpa bönkunum okkar að komast í erlendan gjaldeyri?

Allt eru þetta réttmætar spurningar sem Seðlabanki íslands þarf að svara. Aftur á móti þegar ástandið er svona verða þeir sem stjórna landinu að vera sterkir og mega alls ekki láta bugast og fara á taugum.

Ekki leita af blóraböggli

Við þekkjum það flest öll af reynslunni að þegar illa gengur er ávallt reynt að finna blóraböggul. Stjórnmál eru þar engin undantekning, því miður. Í dag kennir stjórnarandstæðan ríkisstjórn Íslands um hvernig sé komið fyrir íslensku efnahagslífi. Telur stjórnarandstaðan að með aðhaldsleysi og aðgerðarleysi hafi ríkisstjórnin ýtt undir þennan mikla samdrátt. Aftur á móti erum við sem styðjum meirihlutann fljót að svara fyrir okkur. Við bendum á að fyrri ríkisstjórn hafi ekki haft nægt aðhald á ríkisfjármálunum á síðustu kjörtímabilum. Einnig teljum við að síðasta ríkisstjórn hefði átt að nota afgang síðustu ára til að efla gjaldeyrisvarasjóð Seðlabanka Íslands, og í raun getum við nefnt mörg hagstjórnarmistök sem gerð voru í tíð síðustu ríkisstjórnar. En breytir það ástandinu ef við finnum einhvern blóraböggul? Græðir stjórnarandstaðan eitthvað á því að kenna núverandi ríkisstjórn um hvernig ástandið er orðið? Sumir stjórnmálamenn virðast vera of uppteknir að því að kenna öðrum um ófarir íslenska efnahagslífsins í stað þess að reyna að finna lausnir til að koma efnahagslífinu á rétt ról.

Nýtum kraftana saman

Efnahagsástandið í dag er ekki einvörðungu heimatilbúið. Því miður er þessi lausafjárkreppa alþjóðleg, erlendir bankar eiga í miklum erfiðleikum með að fá aðgang að lausafé. Á meðan eru Íslendingar á þessari litlu eyju einungis peð í straumi alþjóðamarkaðarins og getum einungis fylgt straumnum. Því er það sorglegt ef stjórnmálamenn geta ekki unnið saman á þessum tímum til að hjálpa almenningi. Stjórnmálamenn mega nefnilega ekki gleyma því að það er almenningur sem fer hve verst út úr þessari lausafjárkreppu. Þar sem stór hluti samdrættarins kemur til vegna aðstæðna erlendis verðum við að vera virkari í alþjóðlegri samvinnu og þar kemur Seðlabankinn til skjalanna. Seðlabanki Íslands verður að fara að einbeita sér að því að gera gjaldeyrisskiptasamninga við fleiri Seðlabanka til að tryggja bönkunum lausafé. Ráðamenn þjóðarinnar, stjórnarflokkar sem og stjórnarandstæðingar verða að taka höndum saman og finna lausnir sem hjálpa almenningi mest. Á þessum tímum verða ráðherrar okkar að hafa sterk bein og mega ekki bugast. Þó svo að margir kalli eftir aðgerðum þá verða þeir að taka ákvarðanir að vel ígrunduðu máli og alls ekki fara á taugum. Þó að útlitið sé dökkt mega ráðherrar okkar aldrei missa móðinn, þeir verða að blása trú í þjóðinna og stappa stálinu í þjóðina þó svo að það sé erfitt. Nú verðum við öll að taka saman höndum og komast í gegnum þennan blindbyl því að lokum mun birta aftur til.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand