,,Geir hleypir brúnum enda eru peningar mikilvægir og betra að hafa á hreinu hvar þeir voru og hvenær. Hann finnur útskýringu að kvöldi og upplýsir að morgni. En það er eins og stjórnarliðar heyri ekki né sjái fréttirnar af ofbeldinu og misneytingunni sem fór fram gagnvart ungum konum sem sóttust þarna eftir hjálp og settu allt sitt traust á þá sem hana veittu. Í boði ríkisins.” Segir Margrét Sigurðardóttir í grein dagsins á Pólitík.is.
Ég beið og ég bíð enn. Dagar og vikur líða og ekkert virðist bóla á viðbrögðum. Rannsóknum, ákærum. Afsökunarbeiðnum, loforðum um bætur…..
Fjármálaóreiðan var strax tekin til gagngerrar endurskoðunar, tugir manna vinna að því að finna hvar helstu brotalamirnar voru og hvað það var sem gerðist eiginlega. Geir hleypir brúnum enda eru peningar mikilvægir og betra að hafa á hreinu hvar þeir voru og hvenær. Hann finnur útskýringu að kvöldi og upplýsir að morgni. En það er eins og stjórnarliðar heyri ekki né sjái fréttirnar af ofbeldinu og misneytingunni sem fór fram gagnvart ungum konum sem sóttust þarna eftir hjálp og settu allt sitt traust á þá sem hana veittu. Í boði ríkisins.
Ríkið ber ábyrgðina. Ábyrgðina á því að hafa sett sjúklinga í hendurnar á vanhæfu fólki. Ábyrgðina á því að hafa aldrei gert kröfur um fagmennsku. Ábyrgðina á því að hafa aldrei staðið vörð um velferð þeirra sem þangað sóttu meðferð.
En enginn stjórnarliðanna eða fulltrúar þeirra sem stóðu í brúnni öll þau ár sem misnotkunin hefur átt sér stað virðist sjá hjá sér nokkra sök. Eins og nakinn karlmaður sem eiginmaðurinn finnur í svefnherbergisskápnum hrópar hver þeirra á eftir öðrum: “It wasn´t me!”
Einmitt.
Einar Oddur varaformaður fjárlaganefndar ber ábyrgð ásamt fleirum á eftirlitslausum fjárútlátum til stofnunarinnar reyndi að útskýra í útvarpinu. Hann sagði að ‘það væri bara svo erfitt þegar þetta fólk kæmi og bæði um pening, og flytti hvílíkar hörmungarfrásagnir úr heimi sem þeir nefndarmenn hefðu sem betur fer aldrei þurft að kynnast sjálfir, að þeir flýðu bara í eymd sinni undir borð’.
En virðast þó hafa teygt fram undan borðbrúninni skjálfandi hendur með aurum. Milljónum reyndar. Hundruðum. Og lokað svo augunum og reynt að hugsa um eitthvað annað. Næsta ríkisstjórnarfund þar sem yrði boðið upp á snittur og kannski hvítvín líka af því að ritari Geirs á afmæli. Þetta er óþægilegt fólk úr óþægilegum heimi og best að vita sem minnst.
Ég ætla að bíða aðeins lengur, og vona.