Ógnarstjórnin í Myanmar

YANGON, Myanmar Það var undarlegt andrúmsloftið á flugvellinum í Yangon (Rangoon) þegar ég var á leið aftur til Bangkok eftir nokkurra daga dvöl í alræðisríkinu Myanmar (Búrma). Vegabréfið var tekið og ég var látinn bíða í um þrjátíu mínútur meðan það var ljósritað í bak og fyrir. Á svölum brottfararsalsins mundaði leyniþjónustumaður myndavél, en stakk henni snögglega inn á sig þegar ég leit upp til hans. Það er ekki laust við það að ég var orðinn nokkuð hræddur. Stuttu seinna var vegabréfinu skilað og ég var dreginn inn í bakherbergi þar sem að töskurnar mínar voru tæmdar og á mér leitað – hátt og lágt. YANGON, Myanmar Það var undarlegt andrúmsloftið á flugvellinum í Yangon (Rangoon) þegar ég var á leið aftur til Bangkok eftir nokkurra daga dvöl í alræðisríkinu Myanmar (Búrma). Vegabréfið var tekið og ég var látinn bíða í um þrjátíu mínútur meðan það var ljósritað í bak og fyrir. Á svölum brottfararsalsins mundaði leyniþjónustumaður myndavél, en stakk henni snögglega inn á sig þegar ég leit upp til hans. Það er ekki laust við það að ég var orðinn nokkuð hræddur. Stuttu seinna var vegabréfinu skilað og ég var dreginn inn í bakherbergi þar sem að töskurnar mínar voru tæmdar og á mér leitað – hátt og lágt.

„Þar sem þú hefur gerst brotlegur við lög Myanmar neyðumst við til þess að gera allar filmurnar þínar upptækar. Þú ert ekki velkominn aftur til landsins,“ sagði stjörnum skreyttur herforinginn og ég var leiddur út í rútu sem færði mig að flugvél Thai-flugfélagsins á leið til Tælands. Atburðarrásin sem leiddi að þessum endalokum ferðalags míns til Myanmar um jólin 2000 fer hér á eftir.

Ólært, svangt og hrætt
„Harðstjórarnir vita að á meðan við fáum ekki að læra, lítið að borða og erum hrædd leggjum við ekki í byltingu,” segir maður sem kýs að kalla sig Toni af ótta við hvað muni henda hann komist einhver að því að hann hafi talað við blaðamann.

„Þeir halda skólunum opnum í nokkrar vikur í senn og verða síðan hræddir við það að eitthvað muni gerast og loka þeim því snögglega. Ekki alls fyrir löngu voru menntaskólanemar farnir að mótmæla hörmulegu ástandi landsins í skólunum og þeir voru einfaldlega barðnir til hlýðni. Þeir sem ekki hlýddu voru drepnir,” bætir Toni við hryggur.

Breskt nýlenduveldi
Ein grimmasta harðstjórn veraldar ræður ríkjum í SA-Asíu ríkinu Myanmar. Fram til 1948 var landið undir nýlendustjórn Breta og á þeim tíma var það mesti hrísgrjónaútflytjandi heimsins, en Myanmar var og er einnig ríkt af ýmsum náttúruauðlindum s.s. olíu, rúbínum og öðrum dýrum steinum.

Í kjölfar Seinni heimstyrjaldarinnar fékk landið sjálfstæði og var undir stjórn forsetans U Nu sem reyndi að koma á laggirnar stjórnkerfi sem hann kallaði „sósíalískan búddisma”. Árið 1962 hrifsaði vinstrisinnaði hershöfðinginn Ne Win völdin af Nu og lokaði hann inni í fangelsi í fjögur ár á meðan hann reyndi að fara „búrmísku leiðina að sósíalisma”. Win þjóðnýtti allt sem fyrir varð og lamaði hinn ágæta efnahag landsins.

Það var árið 1988 að íbúar Myanmar höfðu fengið nóg af harðstjórn Win og hrörnun landsins og þustu út á götur borganna og kröfðust afsagnar hans. Þegar að yfir 3000 íbúar landsins höfðu látist í átökum við herinn lét Win sér segjast og vék frá völdum. Hvorki Win né flokkur hans – National Unity Party (NUP) – var hins vegar tilbúinn til þess að leggja alveg upp laupana og fengu þeir því herinn til þess að ræna völdum á meðan þeir reyndu að koma á ró í landinu. Herstjórnin, með hershöfðingjan Saw Maung í fararbroddi, lofaði íbúum landsins að boðað yrði til þingkosninga í september næsta árs (1990) og ætluðu fyrrum ráðamenn landsins að nýta tímann fram að kosningum til þess að betrumbæta útlit og innra skipulag samfélagsins til þess að tryggja sér löglega kosningu. Stjórnarandstaðan lét hins vegar ekki blekkjast og sameinuðust nokkrir flokkar undir einum hatti sem stjórnmálaaflið National League for Democracy (NLD). Haldnir voru baráttufundir víða um sveitir og borgir landsins og varaformaður flokksins og baráttukonan Aung San Suu Kyi heillaði íbúa landsins – og heimsbyggðina – upp úr skónum með tilfinningarríkum ræðum sínum. Þegar loks kom að því að kjósa sér nýja ríkisstjórn vann NLD yfir 85 prósent atkvæða – þrátt fyrir margítrekaðar breytingar herstjórnarinnar á kosningarlögum landsins fram á síðustu klukkustund kjördagsins. Þegar herstjórninn sá hvernig var í pottinn búið var ákveðið að koma í veg fyrir að réttkjörnir fulltrúar fólksins fengju að taka sæti sín í búrmanska þinginu og handtók megnið að yfirstjórn NLD.

Sá leiðtogi stjórnarandstöðunnar sem hefur þótt vera hvað mest áberandi er áðurnefnd Aung San Suu Kyi – handhafi friðarverðlauna Nóbels frá árinu 1991 – sem hefur verið lokuð í stofufangelsi á heimili sínu mánuðum saman á árum áður og hefur nú verið lokuð inni frá því í september. Í lok desember 2000 fór undirritaður til Myanmar og ræddi við bæði meðlimi stjórnarandstöðunnar, harðstjórnarinnar og skelkað en vinarlegt fólkið úti á götu.

Njósnarar fylgjast með
Höfuðstöðvar NLD eru ekki íburðarmiklar. Lítill tveggja hæða kofi sem stendur við fjölfarna götu hýsir flokkinn sem mikill meirihluti landsmanna Myanmar vill að stjórni landinu. Hinu meginn við götuna er tjald fullt af leyniþjónustumönnum vopnuðum M-16 vélbyssum og myndavélum sem er beint að öllum sem inn í höfuðstöðvarnar halda og þaðan fara.

„Ég trúi því staðfastlega að lýðræði verður komið á fót í Myanmar á næstu fimm árum,” sagði U Lwin, ritari NLD og einn af helstu frammámönnum flokksins þegar við höfðum setist niður við skrifborð í efri hæð kofans. Lwin lítur þreytulega út en hann dvaldi í „gestahúsi” harðstjórnarinnar frá miðjum september fram til 1. desember 2000. Fyrir aftan hann prýða myndir af Aung San Suu Kyi vegginn þar sem hún heldur á hljóðnema og er að ávarpa stuðningsmenn.

„Það sem þarf að gerast er að koma þarf á stað samræðum á milli stjórnarandstöðunnar og stjórnarinnar. Það er það eina sem við hjá NLD höfum farið fram á – við viljum ekki ofbeldi og við viljum ekki hefnd að neinu tagi – það eina sem við viljum eru samræður á milli fylkinganna,” bætir Lwin við.

En hvað þarf að gerast til þess að hægt sé að koma samræðum af stað?

„Við hjá NLD höfum óbilandi trú á fólki Myanmar og því sem hægt er að gera ef að viljinn er til staðar. Nú þegar fulltrúar Evrópulandanna hittu fulltrúa SA-Asíulandanna á EU-ASEAN [European Union – Association of South-East Asian Nations] fundinum í Laos gengu fulltrúar EU hart eftir því að fá að hitta bæði Aung Sang Suu Kyi og aðra leiðtoga stjórnarandstöðinnar sem nú eru í annað hvort stofufangelsi eða fangelsi. Þessir fulltrúar koma til Yangon nú í janúar og við væntum þess fyllilega að í framhaldi af því muni verða hægt að brjóta ísinn.”

Eltur
Hvort af tilslökunum verður eður ei er ómögulegt að segja. Þegar fulltrúar EU spurðu út í hvenær yfirvöld í Yangon hyggðust sleppa frammámönnum í stjórnarandstöðunni úr varðhaldi voru svör stutt og gátu þýtt hvað sem er – „á viðeigandi tíma,” var það eina sem fulltrúi harðstjónarinnar var tilbúinn til þess að lofa fundarmönnum.

Eftir að samtali mínu lauk við Lwin var haldið aftur heim á hótel. Fyrir utan höfuðstöðvar NLD biðu leyniþjónustumenn með myndavélarnar sínar og smelltu af. Eftir að komið var inn í leigubíl eltu tveir lögreglumenn með alvæpni bíl undirritaðs á mótorhjóli. Þeim eftirleik lauk aldrei á meðan dvölinni í Myanmar stóð.

Að komast að húsi Aung San Suu Kyi er vonlaust. Hún býr við University Avenue Road 54 og hús hennar er girt af og vaktað af vopnuðum hermönnum. Þegar fulltrúar stjórnarinnar eru spurðir af því hvers vegna í ósköpunum þetta er gert segja þeir einfaldlega að þetta þurfi til þess að „tryggja öryggi hennar”. Sama öryggi er ekki hægt að bjóða blaðamönnum sem eru að snuða í kringum húsið hennar. Ég var handtekinn fyrir að vera að væflast á stað sem þykir „ótryggður”, hent inn í bíl og tilkynnt það undir vélbyssukjafti að „öryggi mínu væri stefnt í hættu” dveldist ég lengur í Myanmar.

Vesturlöndin skilja ekkert
„Vesturlandabúar skilja ekki nokkurn skapaðan hlut þegar það kemur að menningu SA-Asíulanda,” sagði Kay Thi Soe talskona utanríkisráðuneytisins Myanmar.

„Okkar menning er yfir 10 þúsund ára gömul og svona gerum við einfaldlega hlutina,” bætti Soe við þegar ég spurði hana barnalega af hverju í ósköpunum harðstjórarnir í Yangon hefðu ákveðið að hunsa vilja fólksins.

„Það er alls ekki ólíklegt að það verði komið á lýðræði á næstu fimm árum,” sagði Soe ósannfærandi. „Það sem þarf að gerast er að við þurfum að fá að koma landinu aftur á réttan kjöl og undirbúa rétt yfirvöld undir það að stjórna landinu – hver þessi yfirvöld verða veit ég ekki.”

Hvað réttlætti valdtöku hersins í Myanmar?
„Árið 1988 var landið okkar á barmi borgarastyrjaldar og Saw Maung hershöfðingi ákvað að bjarga landinu frá gjöreyðingu. Hann hefur nú fallið frá og við eru teknir aðrir hershöfðingjar – Than Shwe og Maung Aye. Þegar náðst hefur ró í landinu munu þeir væntanlega boða til nýrra kosninga og fara frá völdum.”

Samkvæmt því sem Lwin, áðurnefndur ritari NLD-flokksins segir, er löngu kominn tími á það að þessi harðstjórn fari frá völdum:

„Við – fólkið í Myanmar – erum skynsamt fólk. Við vitum hvað það er sem við viljum. Það þarf enginn að segja okkur hvernig lýðræði á að virka – lýðræði er þegar vilji fólksins nær fram að ganga. Eftir að nýlendustjórn Breta lauk þá vorum við frjáls þjóð í 14 ár. Það var kannski ekki fyrirmyndarlýðræði, en þó lýðræði. Þegar NLD tekur við völdunum munum við ekki reyna að hefna okkar á hershöfðingjunum eða hegna þeim. Það besta sem við getum gert er að veita þeim sakaruppgjöf. Það besta sem við getum gert er að reyna að sætta landið. Það er lýðræði. Það er það sem þjóðin vill.”

Ferðin til Myanmar var stytt um tvo daga vegna áreitis stjórnvalda. Á leiðinni út á flugvöll fylgdu kunnugleg leyniþjónustuandlit leigubílnum mínum eftir á vélhjóli. Ekkert illt má segja eða prenta um harðstjórana sem halda ofsahræddum íbúum Myanmar með kverkataki. Ekkert má bera út af meðan verið er að „koma á ró“ í landinu.

#-

Greinin birtist áður í DV.

Aung San Suu Kyi var sleppt úr stofufangelsi í maí í fyrra. Um tíma leit út fyrir að herforingjastjórnin myndi setjast að samningaborðinu með NLD, en nú er allt útlit fyrir að svo muni ekki verða á næstunni. Í viðtali við BBC í síðustu viku sagði Kyi enn vera bjartsýn um pólitíska framtíð landsins.

Morð, pyntingar og nauðganir eru daglegt brauð hjá herforingjunum í Myanmar og enn hefur alþjóðasamfélagið ekki brugðist við með viðeigandi hætti. Myanmar á ekki gjöreyðingarvopn né olíulindir sem skipta sama alþjóðasamfélagið máli – til eða frá.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand