Þegar þetta er skrifað eru nákvæmlega tvö ár síðan innrás Bandaríkjamanna í Írak hófst. Innrás sem gerð var á fölskum forsemdum, innrás sem kostaði mannslíf í gámavís, innrás sem engu hefur skilað. Innrás sem einhverjir amerískir diplómatar göbbuðu auðtrúa íslenska ríkisstjórn til halda að væri nauðsynlegt þjóðþrifaverk í þágu heimsfriðar.
Þegar þetta er skrifað eru nákvæmlega tvö ár síðan innrás Bandaríkjamanna í Írak hófst. Innrás sem gerð var á fölskum forsemdum, innrás sem kostaði mannslíf í gámavís, innrás sem engu hefur skilað. Innrás sem einhverjir amerískir diplómatar göbbuðu auðtrúa íslenska ríkisstjórn til halda að væri nauðsynlegt þjóðþrifaverk í þágu heimsfriðar.
Annars ætla ég ekki að fjalla um falskar ástæður stríðsins eða rekja það nánar í smáatriðum. Nógu mikið hefur verið skrifað um það. Hins vegar ætla ég að ausa úr skálum reiði minnar yfir tvöföldu siðgæði íslenskra stjórnvalda (hey, er það ekki það sem þessi vefur gengur útá, annars?)
Draugar fortíðar
Ég er að læra sagnfræði og það er krónískt vandamál og nánast atvinnusjúkdómur sagnfræðinga að geta ekki tekið á neinu málefni án þess að fara að róta í fortíðinni og hætta ekki fyrr en búið er að finna fullkomna samsvörun og orsakatengsl milli nútíðar og fortíðar. Ég er þar engin undantekning. Fyrir tveimur árum, þegar stríðið í Írak hófst átti ég alltaf óskaplega erfitt með að sætta mig við að vér Íslendingar skyldum hafa álpast inná lista hinna viljugu þjóða. Hvað átti herlaus, fámenn þjóð sem hefur hvorki unnið Ólympíugull né Júróvisjón, með að styðja blóðugt stríð í fjarlægum heimshluta. Og þó, Nató gerði loftárásir á Serbíu 1997, við skrifuðum undir það, Í flóabardaga fyrri tóku Bandaríkjamenn að sér að leiða stríðið í nafni SÞ, við skrifuðum undir það, stríð Frakka við Víetnam, Nató sendir frá sér stuðningsyfirlýsingu, við skrifuðum undir þar. Þegar Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði 1944 var lögð mikil áhersla á að hið nýja ríki yrði ætíð án hers og myndi aldrei lýsa yfir stríði á hendur annarri þjóð. Þetta var sýnt í verki með að neita að taka þátt í stofnun SÞ, því skilyrði stofnríkja var að lýsa yfir stríði á hendur Þýskalandi. Síðar meir hrökkluðumst við inní Nató og þá var farið að kasta stuðningsyfirlýsingum hingað og þangað í nafni Nató sem óhjákvæmilega bendlaði litla varnarlausa Ísland við þann hildarleik sem stríð eru. Rósin í hnappagatinu var svo þegar Dóri og Dabbi komu endanlega úr skápnum og lýstu yfir stuðningi við innrásina í Írak sjálfir og sér, í nafni þjóðarinnar, án allrar Nató íhlutunar. Þegar þetta rann upp fyrir mér fylltist ég heilagri reiði, tók mér spjald í hönd og fór niður á Ingólfstorg til að mótmæla.
Að vera eða að vera ekki – hermaður
Af ofantöldu má ráða að hlutleysinu sem ákveðið var 1944 hefur verið fórnað á fjóshauginn. Ekki bara að hlutleysið sé fyrir bí, heldur erum við á mörkunum að geta talist herlaus líka. Ekki nóg með að mannvitsbrekkan Björn Bjarna hafi endrum og eins verið að viðra hugmyndir um íslenskan her, heldur virðist sem að íslenskur her sé nú þegar kominn í gagnið. Að vísu eru þeir dulbúnir sem friðargæsluliðar, en þau skýru mörk sem áður voru sett á milli firðargæsluliða og hermanns eru óðum að hverfa. Stríðsaðilar bæði í Írak og Afganistan hafa verið svo duglegir að virkja Friðargæsluliða og Rauða krossinn í sína þágu að þessi samtök eru hér um bil að glata hlutleysi sínu og verða málsvarar Bandaríkjanna og þeirra stríðreksturs. Íslendingar eru stoltir þátttakendur í þessari þróun.
Og hvað svo..?
Sem betur fer hafa ætíð verið uppi friðarhreyfingar sem hafna hvers kyns stríðsbrölti og vopnaskaki undir hvaða formerkjum sem er. Þessar hreyfingar voru hvað virkastar á tímum kalda stríðsins og eru þar af leiðandi mjög eyrnamerktar hippunum og 68´kynslóðinni. Eftir að kalda stríðinu lauk héldu margir að starfsgrundvöllur friðarhreyfinga væri óþarfur og botninn datt úr starfsemi þeirra. Friðarhreyfingar á 10. áratugnum voru álitnar hallærislegar samkundur afdankaðra hippa í fortíðarfíling eða hugarfóstur samsærismanna. Nú er svo komið að þarft er að blása nýju lífi í friðarhreyfingar, þvo endanlega af þeim 68´stimpilinn og hefja friðarumræðuna á ný.
Að þessu tilefni ættum við Íslendingar að hætta að standa eins og húsbóndahollur hundur á bak við þau ríki sem hafa þau völd og peninga sem þarf til að geta níðst á minni máttar óáreittir. Við getum kannski ekki komið í veg fyrir stríð, en við skulum reyna að hafa vit á því að styðja þau ekki.