Öflugt heilbrigðiskerfi eða hátæknisjúkrahús?

Áhyggjuefni er hve fáir öryrkjar ná bata og komast aftur á atvinnumarkaðinn. Eins og Öryrkjabandalag Íslands hefur bent á sýna rannsóknir að flestir þeirra sem geta unnið vilja vinna. Því þarf að sjá til þess að örykjum bjóðist öflug og fjölbreytt endurhæfing sem gerir þeim kleift að komast aftur á vinnumarkaðinn og njóta betri lífsgæða. Nokkur umræða hefur verið síðustu vikur um staðsetningu nýs hátæknisjúkrahúss sem Alfreð Þorsteinssyni hefur verið falið að verkstýra. Áform eru uppi um að það muni rísa í nágrenni Landsspítala-Háskólasjúkrahúss við Hringbraut. Við erum ekki að tala um neina smásmíði. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja um 18 milljörðum króna til að byggja upp nýtt hátæknisjúkrahús á árunum 2008 til 2012. Þess má geta að hluti af söluandvirði Símans stendur undir þessari miklu fjárfestingu sem farið er í. Ríkisstjórnin telur mikilvægt að hluti af söluandvirði símans verði notað til að bæta þjónustuna í heilbrigðiskerfi landsmanna og því er þessi ákvörðun tekin.

Við skulum nú hafa í huga að Íslendingar erum ekki nema þrjú hundruð þúsund og ríkisstjórnin hefur ekki getað rekið öflugt heilbrigðiskerfi fyrir íslensku þjóðina hingað til. Ætla þeir að nota peninga sem fengust úr símasölunni til þess að stækka Landspítalann og gera hann stærri og flottari, en ætli hann verði betri? Við skulum hafa í huga að Landspítalinn hefur þurft að herða sultarólina síðustu misseri þar sem ríkisstjórnin hefur verið að svelta hann fjárhagslega. Þurft hefur að segja upp fólki og loka deildum vegna þess. En þá dettur ríkisstjórninni í hug að reisa annan spítala fyrir framan hinn gamla, hvað græðum við á því? Hvernig væri að efla þá spítala sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur geta greinilega ekki rekið með sómasamlegum hætti.

Einnig finnst mér staðsetning fyrirhugaðs hátæknissjúkrahúss varhugaverð. Ástæðurnar tel ég þær að gatnakerfið ráði ekki við þá aukningu fólksfjölda sem þessi bygging mun hafa í för með sér. Við verðum að hafa í huga að með nýjum spítala fylgir nýtt starfsfólk, sjúklingar og aðstandendur og að beina öllum þessum fjölda niður í miðbæ er að mínu mati fráleit hugmynd. Flestir sem sækja vinnu eða þjónustu niður í miðbæ þekkja þann umferðarþunga sem getur myndast og ekki myndi hann skána með fyrirhuguðum byggingum. Það er ný búið að „bæta“ gatnakerfið í miðbænum og það virðist samt sem áður ekki ráða við þá umferð sem fer í gegnum miðsvæði Reykjavíkur. Þá skal hafa í huga hvernig aðkoma sjúkrabíla yrði í miðbænum og þeirri hringavitleysu sem þar getur myndast.

Nálægð við flugvöllinn hefur verið nefnd sem mikilvæg ástæða þess að reisa skuli hátæknisjúkrahúsið á lóð Landsspítalans við Hringbraut. Í þessu sambandi er rétt að benda á að mikil óvissa er um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri. Einnig mun hinn nýji spítali skyggja á þá fallegu byggð sem er í Þingholtunum og breyta ásýnd hins gamla og fallega miðbæjar. Einnig mun aðalsmerki Landsspítalans sem er gamla byggingin hverfa á bak við nýju byggingarnar. Einnig tel ég að Landsspítalinn eigi að þjóna allri þjóðinni en ekki einungis miðbænum því fleiri staðir koma til greina. Með því að byggja spítalann á lóð Landsspítalans þá heftum við jafnframt stækkunarmöguleika hans því ekki væri hægt með góðu móti að stækka hann frekar í framtíðinni.

Ég tel hins vegar að rökin með því að byggja sjúkrahúsið á öðrum stað innan höfuðborgarsvæðisins vegi jafn þungt ef ekki þyngra. Þrátt fyrir að um sé að ræða háskólasjúkrahús á það eitt og sér ekki að ráða staðsetningu þess. Vissulega er hefðin rík og núverandi staðsetning alls ekki slæm en hefðarrök ættu að víkja fyrir hagkvæmnisrökum í þessu máli. Ef við ætlum hins vegar að byggja nýtt hátæknisjúkrahús þá koma að mínu mati fleiri staði til greina, svo sem Vífilsstaðir í Garðabæ eða Landsspítalinn í Fossvogi en þar er nóg landsvæði undir nýbyggingu sem mundi jafnframt vera hentugri staðsetning, að mínu mati. Hann væri meira miðsvæðis og ekki yrði eins dýrt að gera endurbætur á þeim samgöngum sem þyrfti. Einnig myndi það jafnvel létta á umferðinni niður í miðbæ Reykjavíkur.

Almenningur og stjórnmálamenn þurfa að líta fram á veginn og vera opnir fyrir nýjum hugmyndum og því skora ég á Alferð að huga að þeim möguleika að breyta staðsetningu nýja sjúkrahússins.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand