Aumleg réttlæting á ranglæti DV

Einn er sá stjórnmálaflokkur hér á landi sem löngum hefur viljað láta kenna sig við frelsi – og þarf vart að taka fram að hér er átt við Sjálfstæðisflokkinn. En getur verið að frelsisboðskapur Flokksins sé á villigötum?
Það var svosem auðvitað að ritstjórar DV mættu í Kastljósið á miðvikudaginn óskaplega sorrý yfir atburðarrásinni sem fór af stað í kjölfar forsíðufréttar þeirra af meintum glæpamanni daginn áður. En þeir voru þó ekki sorrý af þeim ástæðum sem manni hefði þótt eðlilegt; -nei, þeir virtust ekkert sjá eftir því að hafa gengið langt út fyrir öll velsæmismörk í sínum málflutningi með þeim skelfilegu afleiðingum sem raun bar vitni. Þvert á móti voru þeir sorrý yfir því að fólk skyldi vera að æsa sig yfir því að það, sem þeir kalla “sannleika”, hafi fengið að koma fram í fjölmiðlum. Jónas Kristjánsson talaði um þetta sem tímabundinn múgæsing þar sem fólk væri almennt að bregðast því fólki sem ætti hvað mest sárt að binda, sem væru þeir einstaklingar sem kærðu hinn látna. Það voru þeir einstaklingar sem DV var að hans mati málsvari fyrir. En þar skjátlast honum hrapalega.

Réttlæti DV bjarnargreiði
Ég og hinir tugþúsundir manna sem höfum skrifað undir áskorun þess efnis, að blaðamenn og ritstjórar DV að endurskoði ritstjórnarstefnu sína og sýni ábyrgð og virðingu í umfjöllun um menn og viðkvæm málefni, gerum það einmitt ekki síður með hagsmuni kærendanna og aðstandenda þeirra að leiðarljósi. Það sér það hver maður með snefil af réttlætiskennd að þeim er enginn greiði gerður með því að sá kærði sé dreginn fyrir dóm almennings og framið á honum mannorðsmorð framan á siðlausasta blaði landsins án dóms og laga. Á þann hátt fær mál hinna meintu fórnarlamba einmitt ekki sanngjarna og réttláta meðferð, enda blasir nú við að sannleikurinn mun ekki verða leiddur í ljós fyrir dómsstólum héðan af.

Sannir unnendur sannleikans skjóta ekki fyrst og spyrja svo
Það dásamlega við þær framfarir sem orðið hafa í mannréttindamálum frá miðöldum er einmitt ekki síst sú staðreynd að við búum við réttarríki, þar sem það telst almennt til sjálfssagðra mannréttinda að menn teljist saklausir uns sekt þeirra telst sönnuð, og að friðhelgi einkalífsins sé virt. Maður á einfaldlega ekki að skjóta fyrst og spyrja svo að leikslokum og nornaveiðar hljóta að eiga að vera löngu liðin tíð. En því miður er það ekki svo í augum DV manna. Í þeirra augum er ekkert til sem heitir siðferði, almennt velsæmi og virðing fyrir leikreglum réttarríkisins nema ef vera skyldi sem samheiti við forræðishyggju og skerðingu á tjáningarfrelsinu, sem þeir virðast telja útilokað að geti þrifist í takt við virðingu fyrir fólki og þeirra réttindum.

Mikilsverður málstaður misnotaður í málsvörn DV
Dómskerfið hefur oft verið gagnrýnt fyrir seinvirkni og brotalamir þess, ekki síst í kynferðisafbrotamálum. Að sjálfssögðu á sú gagnrýni í mínum augum rétt á sér, og það má við því að fólk sé stöðugt vakandi yfir því sem betur mætti fara í þeim málum. Því miður notfærir DV sér þó þann málstað til þess að réttlæta sína aðferðafræði og saka hvern þann, sem andmælir því að menn skulu dæmdir af DV án aðkomu dómskerfisins, um að vilja þegja þau mál í hel. Sá málflutningur er ekkert nema skaðlegur þeim málstað og hefur ekkert með réttlæti að gera.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið