Hvers virði er stjórnarskráin?

Fjölmiðlafrumvarpið og hasarinn í kring um það er löngu orðið að einni lengstu langavitleysu sem rekið hefur á fjörur Alþingis. Einn af ljósu punktunum í öllu ferlinu var þegar forseti lýðveldisins, herra Ólafur Ragnar Grímsson, ákvað að skrifa ekki undir lögin og skjóta þeim til þjóðaratkvæðis. Þrátt fyrir að lögin hafi engu að síður tekið gildi mun þjóðin þó fá að gefa álit sitt á þessu frumvarpsræksni og að öllum líkindum ógilda lögin í haust. Fjölmiðlafrumvarpið og hasarinn í kring um það er löngu orðið að einni lengstu langavitleysu sem rekið hefur á fjörur Alþingis. Einn af ljósu punktunum í öllu ferlinu var þegar forseti lýðveldisins, herra Ólafur Ragnar Grímsson, ákvað að skrifa ekki undir lögin og skjóta þeim til þjóðaratkvæðis. Þrátt fyrir að lögin hafi engu að síður tekið gildi mun þjóðin þó fá að gefa álit sitt á þessu frumvarpsræksni og að öllum líkindum ógilda lögin í haust.

Valdhafar óttaslegnir
Það virðast þó ekki allir jafn ánægðir með þessa ákvörðun forsetans. Í örvæntingu sinni hafa hinir svokölluðu fulltrúar kjósenda í Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum gripið til þess örþrifaráðs að véfengja gildi og innihald stjórnarskrárinnar. Þegar hlýtt er á málflutning ríkisstjórnarliða mætti ætla að þeir viti vart hvers virði stjórnarskráin er, hvað þá að þeir hafi lesið innihald hennar. Í stað þess að kynna sér málið almennilega apa þeir hverja vitleysuna á fætur annarri upp eftir hvor öðrum. Málið er ósköp einfalt. Í 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands stendur orðrétt: ,,Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.” Það ætti því að vera deginum ljósara að forsetinn hefur vald til að synja undirskrift laga sem sett eru á Alþingi og skjóta þeim þannig til þjóðaratkvæðagreiðslu óháð framúrstefnulegum túlkunum ríkisstjórnarflokkanna og fótgönguliðum þeirra á ákvæðum í stjórnarskrá.

Af hverju erum við með stjórnarskrá?
Stjórnarskráin er eitt það allra dýrmætasta sem Íslendinga eiga. Einn af stærstu áföngunum í sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendinga var þegar við fengum eigin stjórnarskrá árið 1874. Öll þau vestrænu lýðræðisríki sem ég þekki til hafa einhverskonar útgáfu af stjórnarskrá hvort sem hún er rituð eða ekki (en Bretar styðjast til dæmis við óskráða stjórnarskrá sem byggð er að miklu leiti á hefðum og venjum). Frakkar og Bandaríkjamenn tóku upp stjórnarskrá til þess að vernda hagsmuni almennings gegn valdhöfum. Þannig er stjórnarskráin viðurkennd sem listi grundvallarreglna í lýðræðisþjóðfélagi sem ekki má brjóta. Því má segja að stjórnarskrá Íslendinga sé ætlað að tryggja grundvallarhagsmuni Íslendinga og að koma í veg fyrir að yfirvöld geti beitt valdi sínu gegn þegnum þjóðfélagsins.

Látum ekki plata okkur
Það er því aðför að grundvallarréttindum Íslendinga þegar valdherrar þessa lands leyfa sér að véfengja einstaka ákvæði stjórnarskrárinnar. Vissulega þarf að gera breytingar á stjórnarskránni til að aðlaga hana að breyttum tímum og í tímans rás hafa ýmis ákvæði bæst við, eins og til dæmis ákvæði um jafnrétti. Stjórnarskráin þarfnast vissulega andlitslyftingar, en slíkt þarf að framkvæma af mikilli vandvirkni en ekki keyra í gegn líkt og reynt var með fjölmiðlafrumvarpið. Þangað til það gerist verða handhafar framkvæmdavaldsins að fara eftir leikreglunum eins og allir aðrir, hvort sem það hentar þeim eður ei.

Hvað gerist í haust?
Ef svo fer að lögin verða ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu í haust má segja að sú stoð sem ríkisstjórnarsamstarfið byggir á, umboð kjósenda, sé hrunin. Á sama tíma og R-listinn fagnar gagnrýnni umræðu um valdþreytu í borgarstjórn bregðast ríkisstjórnarflokkarnir ókvæða við svipaðri gagnrýni á langþreytt valdabandalag Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og liggja eins og ormar á gullinu í stjórnarráðinu. Við skulum svo bara vona að þjóðin gefi ríkisstjórninni afdráttarlaust rauða spjaldið í næstu kosningum og leyfi þeim sem hafa virkilegan áhuga á því að vinna að hagsmunum almennings á Íslandi tækifæri til að spreyta sig á landsstjórninni.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand