Nýtt örorkumatskerfi á Íslandi?

,,Auðvitað verður það svo að fyrst til að byrja með verða þessar nýju áherslur mun fjárfrekari en núverandi kerfi. Tilgangurinn hlýtur þó að helga meðalið hvað þetta varðar, enda er það mun betri kostur fyrir alla að fleira fólk geti nýtt krafta sína á vinnumarkaði. Má þá alls ekki gleyma félagslega þættinum sem af hlýst, minni félagsleg einangrun og vonandi léttari lund allra.” Segir Fanney Dóra Sigurjónsdóttir félagsráðgjafarnemi í grein dagsins.

Umræðan um stöðu öryrkja hérlendis kemur upp á yfirborðið reglulega. Algengar klisjur í þeim umræðum eru t.d. að öryrkjar eru fólk sem nennir ekki að vinna, fólk sem getur unnið, vinnur ,,svarta vinnu” og spilar þannig á kerfið, fólk sem getur unnið smávegis en nennir því ekki og fer því á örorku og þar fram eftir götunum. Sjaldan lítur fólk til þeirra sem virkilega vilja vinna, en geta það ekki sökum örorku. Sé starfsgeta til staðar og vilji til að vinna, borgar það sig varla að stunda vinnu því örorkubæturnar skerðast gríðarlega við smá tekjuöflun. Þetta vita flestir. Kerfið okkar er vinnuletjandi.


Á Íslandi eru 7,5% vinnuafls örorkulífeyrisþegar eða 13.227 einstaklingar í lok árs 2006. Þeir einstaklingar sem fá endurhæfingarlífeyri eru aftur á móti 855 í lok árs 2006. Þróunin síðustu ár hefur verið á svipuðum slóðum og á Norðurlöndunum en meðalaldur örorkuþega hérlendis hefur lækkað gríðarlega. Ungt fólk á örorku voru 136% fleiri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Sú vitneskja ætti að hreyfa við mörgum, enda ótækt að þónokkur hluti unga fólksins okkar sé óvinnufært. Í skýrslunni kemur fram að ein þeirra skýringa á fjölgun öryrkja sé það fyrirkomulag og aðferð sem notuð sé við örorkumatið, fjárhagslegar aðstæður þeirra sem sækja um örorkumat og takmörkuð endurhæfingarúrræði. Get ég tekið undir þessa klausu heilshugar. Nefndin kemst jafnframt að þeirri niðurstöðu að kerfið sem við búum við sé vinnuletjandi. Eru það ekki upplýsingar sem við vissum svosem og höfum vitað í allnokkur ár? Hafa öryrkjar sem vilja vinna ekki einmitt talað um þetta, hve mikið bæturnar þeirra skerðast vilji þeir komast í návist við fólk og vinnumarkað? Hlustaði ríkisstjórnin á? Nei, hún hlustar ekki á fólkið á akrinum heldur strunsar áfram þar til fagfólki er nóg boðið og það rís upp á afturlappirnar.


Fyrir mánuði síðan birti forsætisráðuneytið skýrslu nefndar um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar, og er þessi grein byggð á henni. Í nefndinni sátu fulltrúar stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, Landssamtaka lífeyrissjóða og Öryrkjabandalags Íslands. Allir aðilar sem í nefndinni sátu voru karlmenn, eða samtals 10 stykki. Tvær konur störfuðu með nefndinni sem sérfræðingar forsætisráðuneytis en voru ekki skipaðar í nefndina. Þessi staðreynd ein og sér er efni í heila grein út af fyrir sig.


Verkefnum nefndarinnar má skipta í tvennt: annars vegar að koma með tillögur um samræmingu á viðmiðum til örorkumats, bæði í almannatryggingakerfinu sem og í lífeyrissjóðakerfinu og hins vegar tillögur um leiðir til eflingu starfsendurhæfingar. Var nefndinni gert að leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjónustu í öllum sínum tillögum þar sem líta átti til starfshæfni einstaklinganna. Þessi viðmið eru í takt við áherslur OECD frá því árið 2003. Í skýrslu OECD kemur fram að það að vera ófær til vinnu eigi ekki að jafngilda örorku og beri að líta á örorkustig einstaklings óháð aðstæðum hans til tekjuöflunar og atvinnuþátttöku. Vill OECD líta á örorku sem uppbót við vinnutap, þ.e. sé einstaklingur metinn til 80% vinnu hafi hann þá þau 20% sem uppá vantar í fulla virkni sem örorkubætur. Áhersla er lögð á að virkja einstaklinginn og að örorkubætur séu háðar skilyrðum um atvinnuleit og einstaklingsbundna endurhæfingu. Ég fagna þessum niðurstöðum OECD sem komu fram fyrir 4 árum. Nefnd Forsætisráðuneytisins virðist hafa tekið sér dágóðan tíma í að melta þetta og kemst að eftirfarandi niðurstöðum:

  • Mat á heilsufari verði tvíþætt; Annars vegar verði gert færnimat eftir heilsutjón. Þetta færnimat á svo að meta þörf fyrir ýmis konar stoðþjónustu, s.s. liðveislu, greiðslur, hjálpartæki ofl., bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Hins vegar verði gert mat á getu einstaklings til tekjuöflunar. Er það í takt við niðurstöður OECD sem komið var inná hér að ofan. Þetta mat myndi segja til um starfsgetu í prósentustigum og það sem vantar uppí 100% starfsgetu verður örorkumatið.
  • Bæta þarf skipulag endurhæfingar: innan þessarar tillögu kemur margt til. Einna helst ber að nefna að nefndin vill koma á einstaklingsmiðaðri þjónustu og að hver notandi hafi sinn tengilið við TR, lífeyrissjóði, Vinnumálastofnun, endurhæfingaraðila, lækna ofl. Segir í skýrslunni að möguleiki sé á að þessir leiðbeinendur komi úr röðum notenda sjálfra, þ.e. örorkulífeyrisþega. Finnst mér það gott og stórt skref fram á við að loksins sé farið að hlusta á notendur þjónustunnar og taka þá með í að byggja upp þjónustuna. Verða aðrar tillögur nefndarinnar ekki reifaðar hér en ég hvet lesendur til þess að lesa skýrsluna í heild sinni og kynna sér þessa nýbreytni í bótamálum.


Auðvitað verður það svo að fyrst til að byrja með verða þessar nýju áherslur mun fjárfrekari en núverandi kerfi. Tilgangurinn hlýtur þó að helga meðalið hvað þetta varðar, enda er það mun betri kostur fyrir alla að fleira fólk geti nýtt krafta sína á vinnumarkaði. Má þá alls ekki gleyma félagslega þættinum sem af hlýst, minni félagsleg einangrun og vonandi léttari lund allra.

________
Skýrsluna er hægt að lesa hér.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand