Nýi flugvöllur keisarans

Þegar ég hugsa um stefnu stjórnvalda í málefnum Reykjavíkurflugvallar kemur alltaf upp í hugann ævintýrið Nýju fötin keisarans eftir H.C. Andersen. Flugvöllurinn er eins stórt gapandi sár í hjarta borgarinnar en yfirvöld láta eins og það sé ekkert vandamál, það sé bara fullkomlega eðlilegt að í miðborg höfuðborgarinnar sé stórt ljótt gat fyrir flugbrautir, girðingar og flugskýli. Þegar ég hugsa um stefnu stjórnvalda í málefnum Reykjavíkurflugvallar kemur alltaf upp í hugann ævintýrið Nýju fötin keisarans eftir H.C. Andersen. Flugvöllurinn er eins stórt gapandi sár í hjarta borgarinnar en yfirvöld láta eins og það sé ekkert vandamál, það sé bara fullkomlega eðlilegt að í miðborg höfuðborgarinnar sé stórt ljótt gat fyrir flugbrautir, girðingar og flugskýli.

Sá misskilningur hefur lengi verið í gangi, að í þeirri skoðun að landsvæðið þar sem Reykjavíkurflugvöll er nú sé betur nýtt á annan hátt, feli í sér aðför að landsbyggðinni. Svo er hins vegar alls ekki og ekki ætlun neins að knésetja byggðir utan höfuðborgarsvæðisins. Flutningur innanlandsflugs til Keflavíkur gæti nefnilega komið byggðum landsins vel, ekki síður en höfuðborgarsvæðinu. Mikill fjöldi ferðamanna kemur til landsins ár hvert í gegnum Keflavíkurflugvöll og sýna rannsóknir að flestir þeirra koma til þess að skoða landið, ekki til þess að kynnast lífinu í borginni. Ef innanlandsflugið væri frá Keflavík væri hægt að selja ferðamönnum pakkaferðir hvert á land sem er og þyrfti þá ekki að selflytja þá alla til Reykjavíkur til þess þeir kæmust út á land. Vel er hægt að hugsa sér pakkaferðir og ferðamenn gætu farið beint af Keflavíkurflugvelli til þeirra staða sem þeir komu til að skoða. Einnig er hægt að hugsa sér pakkaferðir fyrir fólk af landsbyggðinni sem gæti flogið beint á Keflavíkurflugvöll þegar það fer útlanda í stað þess að þurfa að fljúga til Reykjavíkur og gista þar eða keyra á Keflavíkurflugvöll þegar það fer til útlanda.

Þetta fyrirkomulag myndi hafa í för með sér stóraukin atvinnutækifæri á Suðurnesjunum svo sem hótelrekstur og ýmsa ferðaþjónustu auk þeirra starfa sem myndu skapast beint með flutningi starfa til Keflavíkurflugvallar. Þessi atvinnustarfsemi kæmi sér vel þar sem það er einungis tímaspursmál hvenær Bandaríski herinn ákveður að leggja herstöðina í Keflavík niður. Íslendingar þyrftu þá að taka við rekstri Keflavíkurflugvallar og væri mikið hagræði í að hafa innanlandsflugið í Keflavík því erfitt er að sjá að stjórnvöld geti haldið uppi tveimur flugvöllum á svona litlu svæði. Tvöföldun Reykjanessbrautar auðveldar líka samgöngur milli flugvallarins og Keflavíkur.

Á meðan flugvöllurinn verður í Vatnsmýrinni heldur höfuðborgarsvæðið áfram að þenjast út og er orðin svo strjálbýlt að almenningssamgöngur eru ekki raunverulegur valkostur við einkabílinn þar sem það er svo dýrt að reka þær og tímafrekt að fara á milli staða á þann máta. Þetta hefur í för með sér gífurlegt álag á vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu og sífellt háværari raddir eru uppi um að nauðsynlegt sé að byggja upp stofnbrautir, koma upp mislægum gatnamótum, fjölga akreinum o.s.frv. svo fólk komist ferða sinna. Borgarbúar eyða sífellt meiri tíma í bílunum sínum vegna þess að vegalengdirnar lengjast sífellt. Á sama tíma liggur dýrmætasta byggingarland höfuðborgarsvæðisins vannýtt.

Vel væri hægt að koma fyrir 20.000 manna byggð ásamt ýmissi atvinnustarfsemi á flugvallarsvæðinu. Þessi tala er miðuð að húsin yrðu almennt ekki hærri en þriggja til sex hæða og gert er ráð fyrir vegakerfi, grænum svæðum o.s.frv. Uppbygging á þessu svæði myndi þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu verulega sem aftur myndi hafa í för með sér minni umferð og mengun auk þess sem kostnaður við uppbyggingu og viðhald umferðarmannvirkja myndi stórlækka. Fólk gæti svo nýtt tímann sem nú fer í að komast á milli staða á annan og uppbyggilegri hátt og nýtt þann pening sem nú fer í rekstur og viðhald tveggja til þriggja bíla á heimili á skynsamlegri hátt. Sá tímasparnaður sem þetta myndi hafa í för með sér er margfalt meiri en sá tími sem skapast við að hafa flugvöllinn í Reykjavík ef við gefum okkur að allir þeir sem lenda á Reykjavíkurflugvelli eigi erindi niður í miðborg.

Á meðan stjórnvöld móta sér ekki heildarstefnu í því hvað eigi að gera við þetta landsvæði stefnir í óefni. Á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir því að flugvöllurinn verði fluttur en á sama tíma liggja engar tillögur fyrir hvernig svæðið á að líta út í heild sinni heldur klípa smám saman smábita og setja undir innanhúss fótboltavelli, samgöngumiðstöðvar, háskólasvæði o.s.frv. Það er brýnt að skipuleggja allt svæðið sem fyrst til þess að það nýtist á sem hagkvæmastan hátt.

Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna ekki er hægt að færa starfsemi Reykjavíkurflugvallar annað fyrr en eftir áratugi. Á skipulagi Keflavíkurflugvallar er gert ráð fyrir innanlandsflugi og það tæki ekki langan tíma að ganga frá svæðinu þannig að hægt væri að færa flugið þangað. Það er löngu orðið tímabært að stjórnvöld horfist í augu við hið óumflýjanlega og taki á málunum. Því fyrr sem það er gert þeim mun betur er hægt að standa að málunum. Það þýðir ekkert að þykjast lengur, það sjá allir að konungurinn er ekki í neinu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand