Hvað er að frétta af…

,,Hins vegar hefur lítið sem ekkert heyrst um þetta frumvarp sem lagt var fram snemma í haust en mjög stutt er til þingloka“. Segir Sölmundur Karl Pálsson ritstjóri politik.is í grein dagsins.

Í byrjun haustþings lagði þingflokksformaður Samfylkingarinnar frumvarp um breytingu á lögum um dómstóla nr. 15/1998, en aðal breytingin á lögunum samkvæmt frumvarpinu yrðu þær að forseti skipi dómara ótímabundið samkvæmt tilnefningu forsætisráðherra að fengnu samþykki 2/3 þingmanna. Hins vegar hefur lítið sem ekkert heyrst um þetta frumvarp sem lagt var fram snemma í haust en mjög stutt er til þingloka. En af hverju hefur þetta frumvarp Lúðvíks Bergvinssonar og fleiri þingmanna ekki fengið neina alvöru umræðu? Gæti verið að Sjálfsstæðisflokkurinn sé það mótfallinn þessu frumvarpi að þeir vilji ekki ræða þessi mál og telur Sjálfstæðisflokkurinn kannski að hvalveiðar séu mikilvægari en skipun dómara og sjálfstæði þeirra?

Það muna flestir eftir þeim látum sem urðu þegar Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, skipaði Þorstein Davíðsson í stöðu dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystri. Flestir fordæmdu svörin sem Árni Mathiesen gaf umboðsmanni Alþingis er hann vildi fá rökstuðning Árna fyrir skipuninni. Ungir jafnaðarmenn voru með þeim fyrstu til að fordæma viðbrögð Árna. En þrátt fyrir að almenningi hafi ofboðið framferði fjármálaráðherra , og fljótlega var lagt fram frumvarp um skipun dómara hefur umræðan farið mjög hljótt.

Sjálfstæðismenn hafa reynt eins og hægt er að þagga niður í umræðunni, þar sem þeir hafa jú skipað þrjá dómara með fremur umdeildan hátt svo vægt sé til orða tekið. Því er það líklegt að Sjálfsstæðismenn séu í raun ánægðir með þau vinnubrögð sem hafa verið við lýði við skipun dómara. En þessi vinnubrögð eiga ekkert skylt við nútímann og í raun ættu þau að stangast á við skoðanir Sjálfsstæðismanna þar sem þau koma í veg fyrir að hæfir einstaklingar komist að. Flokkurinn sem vill kenna sig við einstaklingsfrelsi -og frelsi markaðarins þegir þunnu hljóði þegar þeirra fólk gerist sekt um spillingu.

Tími til að bæta dómskerfið enn frekar

Lög nr. 15/1998 um dómstóla er í raun úrelt að mínu mati þar sem þau koma í veg fyrir að hæfustu einstaklingarnir fái dómaraembætti, og bjóða hættunni heim að aðeins þeir sem þekkja rétta fólkið komist að. Það hefur lengi verið skoðun mín sem og annarra Ungra jafnaðarmanna að framkvæmdarvaldið eigi ekki að skipa dómara þar sem slíkt skarast á við sjálfsstæði dómsvaldsins.

Ungir jafnaðarmenn hafa bent á þá lausn að Alþingi þurfi að samþykkja skipun dómara með 2/3 atkvæða. Þannig er líklegt að betri ákvarðanir verði teknar við skipun dómara og geðþótti ráðherra skipti ekki lengur máli. Dómaraembætti er gríðarlega mikilvægt í lýðræðisþjóðfélagi, og öll viljum við fá sanngjarna meðferð mála okkar, sama hver við erum.

Annað sem þarf hugsanlega að skoða er kafli dómsvaldsins í stjórnaskrá Íslands. Kaflinn er mjög þunnur, aðeins þrjár greinar og lítið talað um sjálfsstæði dómsstólanna gagnvart framkvæmdavaldinu.

Þriðja atriðið sem Alþingi þarf að skoða er hvort það gæti aukið skilvirkni dómstóla landsins með því að stofna millidómstig. Ég hef áður ritað um þau málefni hér á politik.is, og ég tel mikilvægt að löggjafinn skoði þennan kost vandlega. En lögfróðari einstaklingar en undirritaður eru þó betur til þess fallnir að meta hvort millidómsstig gæti aukið skilvirkni dómstóla.

Skiptir menntun máli?

Sjálfur hef ég trúað því að menn geti orðið allt sem þeir vilja á Íslandi, ef þeir leggja sig fram. Svo virðist sem það líti ekki allir svo á. Í huga sumra er ekki nóg að fá góða menntun heldur þarf að þekkja rétta fólkið. En helsti hvatinn við að leggja á sig þá mikla vinnu til þess að fá góða menntun og vera í háskóla 3 til 7 ár og jafnvel lengur er sá að komast í góða vinnu sem framfleytir fjölskyldunni.

Þegar Þorsteinn Davíðsson var skipaður héraðsdómari velti ég því fyrir mér hvort menntunin skipti á endanum einhverju máli? Eru einhver raunhæfur möguleika á að fá gott starf? Það voru þrír umsækjendur um starf dómara við Héraðsdóm Norðurlands Eystra hæfari heldur en Þorsteinn. Þeir höfðu gengið -menntaveginn lengur en hann og höfðu meiri starfsreynslu. En aukin menntun skilaði þeim engu. Mig dreymir um að á Íslandi komist ávallt þeir hæfustu í bestu störfin óháð hverra manna þeir eru.

Það tíðkast allt of oft að fólk komist áfram einungis vegna hverra manna það er, þó svo að þeir séu ekki jafn hæfir. Ég vil breyta þessu, ég vil gefa ungum námsmönnum þau skilaboð að ef þau leggja sig fram við að mennta sig, hvort sem við iðnnámi eða bóknámi, þá eiga þau skilið að fá góð störf. Það er spurning hvort að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn í þetta samfélag? Eða vill hann kannski bara einbeita sér að gömlum hugsunarhætti og hvalveiðum sem fyrir löngu eru úreltar?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið