Nú er nóg komið!

Þegar rýnt er í grunninn af því sem þesi ríkisstjórn er að gera þá er sem gríman falli, með stefnu sem snýst um að auka stöðugt álögur á þá sem minnst hafa á sama tíma og nýjar skattalækkanir eru hannaðar handa þeim sem mest eiga. Fyrir þá er þessi ríkisstjórn að sýna sitt rétta andlit. Auðvitað verður grímunum tjaslað saman aftur rétt fyrir kosningar, Halldór leigir bros og fer í göngutúr upp í Öskjuhlíð. Geir setur upp föðurlandssvipinn og lofar áframhaldandi góðæri. Og það er þá sem reynir á að muna tengingu orsakar og afleiðinga, og sýna þeim að ekki sé stöðugt hægt að vinna gegn gildismati íslensku þjóðarinnar. Ég ætlaði mér að skrifa léttan pistil um efnahagsmál sem á léttum nótum myndi gera grín að ríkisstjórninni og hvernig hún hegðar sér. Pistlaskrifin reyndust mér erfið vegna þess að ég fann ekkert fyndið að segja um málið. Það eina sem blasir við manni er óhuggulegur veruleiki.

Það er staðreynd að þessi ríkisstjórn hefur það að stefnumörkum að aflétta sköttum. Og að mörgu leyti er það vel. En eins og skoðanabróðir Sjálfstæðismanna í vestri þá hafa þessar skattalækkanir aðallega komið þeim ríkustu best. (Gaman væri að sjá einhvern fjölmiðil reikna þetta út og rannsaka). Eignaskattur, hátekjuskattur, lækkun fyrirtækjaskatta, lágir fjármagnstekjuskattar og loks hin rómaða prósentulækkun á tekjuskattinum. Allt skattar sem koma þeim betur sem peninga hafa, og því meiri peninga því betra.

Besta dæmið liggur líklega í því að flatur niðurskurður á sér stað hjá hverju ráðuneyti fyrir sig. Er þar verið að „spara“ upp í skattalækkarnirnar. Ég efast um að öryrkjanum sem nú missir bensínpeningana sína, finnist mikið til þess koma að maðurinn í Porche-jeppanum sem hann sér nú út um strætógluggann hafi auknar ráðstöfunartekjur.

Þetta er spurning um gildismat. Finnst landsmönnum allt í lagi að hverri skattalækkun sem aðallega gengur til þeirra sem mest hafa skuli svarað með niðurskurði í velferðarþjónustu, hækkandi þjónustugjöldum (sem auðvitað bitna mest á þeim sem minnst fengu í vasann við skattalækkanirnar) og sé að mestu afmörkuð við ríkari meðlimi samfélagsins?

Hversu langt á að seilast í vasa þeirra fátækustu meðal vor til þess að borga fyrir aukna velsæld þeirra ríku?

Það er hverjum manni augljóst sem fylgst hefur með umræðunni undanfarin ár hvernig velferðarumræðan hefur mátt láta undan umræðu um hagfræði og efnahagsmál. Og það hentar valdhöfum vel því að með „efnahagsumræðu“ er hægt að taka hluti úr samhengi og „selja“ aðgerðir sem koma hópi þeirra valdaminnstu í samfélaginu verst.

Orðið hagvöxtur er gott dæmi. Góður hagvöxtur þykir til dæmis hið besta mál. En orðið hagvöxtur tekur ekki tillit til þess hvernig hagvöxturinn er tilkominn. Til dæmis hafa stríð afskaplega góð áhrif á hagvöxt, sérstaklega framleiði maður vopn. Og því ætti í hagvaxtarumræðunni stríð að vera af hinu góða. Það sem hag- og efnahagsumræðan gerir er að skilja á milli orsakar og afleiðinga. Og þegar búið er að skilja milli orsakar og afleiðingar í hinni opinberu umræðu þá er auðvelt að koma fram með meiri hagræðingu.

Til dæmis myndi það stuðla að góðum hagvexti að leggja niður almannatryggingakerfið. Þetta dettur náttúrulega ekki nokkrum manni í hug að leggja til vegna þess að þá stæði upp stór hluti samfélgasins og myndi mótmæla harkalega. En hver er munurinn á því að gera það í einu skrefi eða smátt og smátt? Hugsunin sem stendur að baki er sú sama. Munurinn liggur bara í því hversu mikið þeir komast upp með að gera hverju sinni.

Það kom fram á nýlegum samanburðarlista að tekjumunur á Íslandi hafi stóraukist undanfarin ár. Er þetta hluti af hagvextinum? Er það svona sem við viljum hafa landið okkar?

Ég fyrir mitt leyti er búinn að fá nóg. Ég vil ekki búa í samfélagi þar sem misskipting er grunnhugmyndafræði ríkisstjórnar. Og ég held að fólkið í landinu sé sammála. Það eina sem vantar er það að fólkið taki sér tíma og skoði tenginguna milli orsakar og afleiðingar.

Þegar rýnt er í grunninn af því sem þesi ríkisstjórn er að gera þá er sem gríman falli, með stefnu sem snýst um að auka stöðugt álögur á þá sem minnst hafa á sama tíma og nýjar skattalækkanir eru hannaðar handa þeim sem mest eiga. Fyrir þá er þessi ríkisstjórn að sýna sitt rétta andlit.

Auðvitað verður grímunum tjaslað saman aftur rétt fyrir kosningar, Halldór leigir bros og fer í göngutúr upp í Öskjuhlíð. Geir setur upp föðurlandssvipinn og lofar áframhaldandi góðæri. Og það er þá sem reynir á að muna tengingu orsakar og afleiðinga, og sýna þeim að ekki sé stöðugt hægt að vinna gegn gildismati íslensku þjóðarinnar.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand