Sameining sveitarfélaga

Sameining sveitarfélaga var mikið í umræðunni í síðustu viku. Tillögur um sameiningu voru kolfelldar í fimmtán sameiningarkosningum en í einum voru tillögur um sameiningu samþykktar. Sameina átti 45 sveitarfélög á einu bretti, þar af t.d. níu í einum pakka á Eyjafjarðarsvæðinu. Hver er ástæðan fyrir að svo fór? Hver er lausnin? Ég ætla að reyna að setja fram mínar skoðanir um þetta í þessari grein, ásamt almennum pælingum um þetta efni. Sameining sveitarfélaga var mikið í umræðunni í síðustu viku. Tillögur um sameiningu voru kolfelldar í fimmtán sameiningarkosningum en í einum voru tillögur um sameiningu samþykktar. Sameina átti 45 sveitarfélög á einu bretti, þar af t.d. níu í einum pakka á Eyjafjarðarsvæðinu. Hver er ástæðan fyrir að svo fór? Hver er lausnin? Ég ætla að reyna að setja fram mínar skoðanir um þetta í þessari grein, ásamt almennum pælingum um þetta efni.

Sameiningin sem gekk eftir
Eins og áður segir var aðeins í einum sameiningarkosningum þann 8. október síðastliðinn samþykkt sameining þeirra sveitarfélaga sem í hlut áttu. Tel ég þetta orsakast af eðlilegri þróun, en sveitarfélögin sem sameinuð voru eru (íbúafjöldi innan sviga): Fáskrúðsfjarðarhreppur (51), Mjóafjarðarhreppur (38), Austurbyggð (sameinað sveitarfélag, áður Búðahreppur og Stöðvarhreppur, 873) og Fjarðarbyggð (sameinað sveitarfélag þéttbýlisstaðanna Reyðarfjarðar, Eskifjarðar og Neskaupstaðar, 3175). Eins og sést eru hin tvö stærri sveitarfélög í þessari upptalningu þegar sameinuð úr öðrum og hefur sameining reynst vel. Vonandi verður reyndin sú að allir aðilar hagnist af þessari sameiningu. Þarna hefur síðasta áratuginn verið unnið að sameiningu og þær sameiningar sem þegar hafa um garð gengið gefist vel. Þegar sýnt hefur verið að sameiningar sem þessar hafi gefist vel er ekkert annað í stöðunni en að þróa áfram það sem vel hefur tekist. Stærri rekstrareiningar hafa reynst betur en minni. Fer þetta saman við umræðu á öðrum norðurlöndum í sama málaflokki. Kjörstærð sveitarfélaga hefur komið hér til tals og verður að telja að sveitarfélög í nútíma íslensku samfélagi, eins og Mjóafjarðarhreppur fái vart staðið undir þeirri þjónustu sem ætla verður af sveitarfélagi sem slíku. Það þýðir þó ekki að knýja verði á um sameiningu með lögum, heldur að íbúar þessara sveitarfélaga fái kost á því að kjósa um sín mál á lýðræðislegan hátt.

Þær sameiningar sem orðið hafa á Mið-Austurlandi hafa gefist einkar vel. Að auki við ofangreinda sameiningu hefur annað stórt sveitarfélag orðið til á svæðinu, Fljótsdalshérað, sem hefur verið að stækka smám saman með því að minni sveitarfélög hafa sameinast. Þetta hefur tekið nokkur ár í framkvæmd. Þess vegna get ég ekki skilið af hverju í ósköpunum kosið var til sameiningar í níu sveitarfélögum í einum kosningum á Eyjafjarðarsvæðinu. Ég get vel skilið að minni sveitarfélögin hafi ekki kjark í sér til að sameinast stærsta landsbyggðarþéttbýlinu í fyrsta skrefi. Hefði mér þótt tilvalið t.a.m. að Siglufjörður og Ólafsfjörður hefðu sameinast til að byrja með, jafnvel Dalvík um leið. Sjálfsagt væri svo ekkert því til fyrirstöðu að minni sveitarfélögin á svæðinu sameinuðust innbyrðis. Þarna eru að auki við áðurnefnda bæi fimm sveitarfélög með færri en 1000 íbúa. Hefði mér þótt eðlilegt að skoða forsendur fyrir innbyrðis sameiningu þessara litlu sveitarfélaga, áður en Akureyri yrði tekin með í dæmið. Þannig hefðu sveitarfélögin kynnst því hvernig framkvæmdin væri í raun á þessu, þau hefðu styrkst gagnvart þéttbýlinu. Það hefði svo getað orðið til þess að forsendur til sameiningar við Akureyri yrðu breyttar og íbúar sameinaðs sveitarfélags mun frekar til í að skoða þau sjónarmið sem þarna eru að baki, heldur en ef hella á öllu saman út í einn gráabrúnan graut og vona að hann verði „ætur“.

Lýðræði verði í hávegum haft
Frá sjónarhóli lýðræðis verður að telja að sameining sveitarfélaga með lögum sé valdníðsla af hálfu hinna háu valdherra stjórnarráðsins. Þetta er atriði þar sem fólkið í sveitarfélaginu hverju sinni verður að fá að ráða. Það er jú einu sinni þannig að fólkið sem nýtur þjónustu sveitarfélagsins er það fólk sem hvað mestra hagsmuna hefur að gæta í þessu máli. Því væri það synd gegn lýðræðinu að ætla að segja fólki að nú tilheyri það ekki lengur sínu gamla sveitarfélagi, heldur einhverju öðru. Heldur þætti mér eðlilegra að ráðamenn legðu sig alla fram við að framkvæma áætlanir um sameiningar sveitarfélaga þannig að íbúar sveitarfélaganna fái sem mest að segja í þessum umræðum, stjórnsýsla sveitarfélaganna hjálpi fólki við að taka upplýsta ákvörðun og er það, að ég tel, orsök þess að svo fáir höfðu áhuga á því að láta skoðun sína í ljós með því að mæta á kjörstað. Með því að hundsa kosningarnar hafi fólk verið að segja að það hefði ekki verið nógu upplýst til að taka þá ákvörðun sem fyrir lá að taka.

Sameiningar og samgöngur
Eitt er það sem ég tel hafa lagt grunn að sameiningu Austurbyggðar og Fjarðabyggðar auk þeirrar þróunar sem verið hefur í sameiningarmálum á þessu svæði. Verður að telja að tilkoma Fáskrúðsfjarðargangnanna sé þarna stór póstur í samþykki tillögunnar. Vegna álversframkvæmda hafa verið miklar framkvæmdir og mikill uppgangur á Austurlandi, ekki síst í Fjarðabyggð, en Austurbyggð hefur ekki heldur farið varhluta af þessum framkvæmdum. Með tilkomu Fáskrúðsfjarðargangna hefur lyftistöng orðið til fyrir bæjarfélög Austurbyggðar (einkum Búðir, sem er þéttbýlið í botni Fáskrúðsfjarðar) og hefur uppgangur í Fjarðarbyggð teygt anga sína þangað. Vonir sem vöknuðu við upphaf gerðar Fáskrúðsfjarðargangnanna hafa kallað unga Fáskrúðsfirðinga á heimaslóðir á ný og virðist sem þetta sé einnig ein meginástæða og grundvöllur fyrir því að sameining var samþykkt, enda er maður nú aðeins korter milli þéttbýla Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Samgöngur innan sama sveitarfélags hljóta að verða að vera sem best verður á kosið. Til þess að skilvirk þjónusta til fólks innan sveitarfélagsins skili sér verði fólk að geta sótt þjónustu sína þegar það þarf þess. Að þessu sögðu verð ég að telja að meðal forsendna sameiningar Siglufjarðar og Ólafsfjarðar séu bættar samgöngur og tel ég að umræða um sameiningu þessara staða kalli um leið á það að ákvörðun verði tekin um að bora Héðinsfjarðargöng sem allra fyrst. Þannig getum við stuðlað að stærra atvinnusvæði, þar sem gott mótvægi getur skapast gagnvart höfuðborgarsvæðinu, stuðlað að bættum samgöngum og að auki stuðlað að því að markmiðum um fækkun og sameiningu sveitarfélaga verði náð.

Mitt sveitarfélag og afstaða gagnvart sameiningu
Að lokum langar mig að fjalla um mitt sveitarfélag í sambandi við allt þetta sameiningartal, en það virðast ekki vera uppi áætlanir um að sameina það öðrum sveitarfélögum á næstunni. Sveitarfélagið er Seyðisfjarðarkaupsstaður og þar búa færri en 700 manna. Þetta er minnsti kaupstaður landsins, en hann hefur gríðarmikla sögu, hefur verið kaupstaður í 110 ár og er einn fallegasti bær landsins. Hann má þó sögulega muna fífil sinn fegurri, en það kemur ekki til umræðu hér, en kannski í annarri grein. En þannig er aðstaðan á Seyðisfirði að eina leiðin út úr bænum er upp á heiði sem liggur 600 m. yfir sjávarmáli og eins og víða á íslenskum heiðum í þeirri hæð eru oft veður válynd yfir háveturinn. Þykir mér vel koma til greina að sameina sveitarfélagið, annað hvort Fljótsdalshéraði, sem er styst frá miðað frá þjóðveginum, eða nýsameinað sveitarfélag Fjarðarbyggðar, Austurbyggðar, Fáskrúðsfjarðarhrepps og Mjóafjarðarhrepps, sem er styst frá miðað við beina loftlínu. Í slíkum kosningum, þótt ég sé hrifinn af hugmyndum um stærri og færri sveitarfélög, yrði ég því miður að segja nei, þar sem samgöngur eru ekki uppá sitt besta út frá bænum. Þarna þarf að verða bætt úr, eigi að koma til sameiningar.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand