Nokkur orð um Reykjavíkurlistann

En þá komum við að kjarna málsins. Hvað er best fyrir Samfylkinguna? Mín skoðun er sú að Samfylkingin eigi að bjóða sig fram undir sínum eigin merkjum í borginni. Öllum er það ljóst að Samfylkingin ber höfuð og herðar yfir samstarfsflokka sína í Reykjavíkurlistanum og hefur því alla burði til þess að sigra borgina í eigin nafni. Allar hugmyndir um að bjóða Samfylkinguna fram eina og sér en undir merkjum Reykjavíkurlistans þykja mér ansi undarlegar svo ekki sé meira sagt. Einhver sagði að með því hefðu menn ekki trú á sínu eigin vörumerki og verð ég að taka undir slíka gagnrýni. Bjóðum því fram undir eigin merki í komandi borgarstjórnarkosningum, því þannig eigum við sætan sigur í vændum. Þær hafa sjálfsagt ekki farið framhjá neinum undanfarið umræðurnar sem hafa skapast um Reykjavíkurlistann og framtíð hans. Andstæðingar listans segja að í honum ríki mikil sundrung og að það eina það sem drífi hann áfram sé þrjóskan, þrjóskan til þess að halda Sjálfstæðismönnum frá völdum í borginni. Mörgum myndi nú ef til vill finnast þetta ansi mikil einföldun. En þurfum við samstarf Reykjavíkurlistans til þess að vinna borgina?

Upphafið
Í nóvembermánuði árið 1993 var gerð skoðanakönnun á vegum DV. Í henni kom augljóslega fram að ef þáverandi minnihlutaflokkarnir fjórir í Reykjavík kæmust að samkomulagi um eitt framboð myndu þeir bera sigur úr býtum í komandi borgarstjórnarkosningum. Ef þeir byðu fram hver í sínu lagi myndi Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar halda velli. Í kjölfarið voru gerðar svipaðar skoðanakannanir sem sýndu svipaða niðurstöðu.

Forystumenn flokkanna fjögurra hófu því viðræður um sameiginlegt framboð og 14. febrúar 1994 var tilkynnnt formlega að Reykjavíkurlistinn myndi bjóða fram með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í áttunda sætinu, baráttusætinu sem meirihlutinn í borgarstjórn valt á. Ingibjörg Sólrún sem þá hafði setið á Alþingi fyrir Kvennalistann frá 1991 naut mikils traust á meðal flokkanna fjögurra og vakti hún athygli fyrir röggsemi og vandaðan málflutning. Reykjavíkurlistinn sigraði svo eftirminnilega þessar kosningar og tók Ingibjörg Sólrún við embætti borgarstjóra þann 13. júní 1994. Var það mál manna að sigurinn mætti þakka hversu fljótt Reykjavíkurlistinn bauð fram traustvekjandi borgarstjórnarefni. Sjálfstæðismenn báru þá því við að þar sem samstarfið væri lítið annað en grautur ólíkra flokka, yrði sundrung og glundroði óhjákvæmilegur fljótlega eftir kosningar. Allar slíkar forspár reyndust rangar og sannaðist það í kosningnunum árið 1998 og svo aftur 2002 þegar Ingibjörg Sólrún fékk umboð Reykvíkinga til þess að gegna starfi borgarstjóra áfram. Enginn velkist í vafa um það að á þessum tíma hefur Reykjavíkurborg orðið að fjölskylduvænni menningarborg.

Staðan í dag
29. desember árið 2002 markar þáttaskil í sögu listans. Þann dag sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir af sér embætti borgarstjóra eftir mikinn þrýsting frá samstarfsmönnum sínum innan Reykjavíkurlistans, þegar hún ákvað að taka 6. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Tilnefndi hún Þórólf Árnason, sem hafði getið af sér gott orðspor í viðskiptalífinu, sem eftirmann sinn. Frá þeirri stundu má segja að leiðin hafi legið niður á við fyrir Reykjavíkurlistann. Forysta flokksins virtist ekki vera nógu sannfærandi og menn innan listans gjammandi í hverju horni. Ekki var það á bætandi þegar Þórólfur þurfti að segja af sér embætti vegna ,,olíumálsins“ svokallaða og Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók við sem þriðji borgarstjóri listans á jafnmörgum árum.

Nú þegar viðræður flokkanna um áframhaldandi samstarf Reykjavíkurlistans standa yfir, heyrum við nánast á hverjum degi menn innan samstarfsflokkunna þriggja munnhöggvast í fjölmiðlum. Menn saka hver annan um ósanngirni og einstrengingshátt. Allt ber þetta vott um sundrung og virðist sem forspá Sjálfstæðismanna eftir kosningarnar 1994 sé að rætast þótt seint sé. Þetta gæti reynst listanum erfitt þegar til kosninga kemur.

Samfylkingin, kjarni málsins
En þá komum við að kjarna málsins. Hvað er best fyrir Samfylkinguna? Mín skoðun er sú að Samfylkingin eigi að bjóða sig fram undir sínum eigin merkjum í borginni. Öllum er það ljóst að Samfylkingin ber höfuð og herðar yfir samstarfsflokka sína í Reykjavíkurlistanum og hefur því alla burði til þess að sigra borgina í eigin nafni. Allar hugmyndir um að bjóða Samfylkinguna fram eina og sér en undir merkjum Reykjavíkurlistans þykja mér ansi undarlegar svo ekki sé meira sagt. Einhver sagði að með því hefðu menn ekki trú á sínu eigin vörumerki og verð ég að taka undir slíka gagnrýni. Bjóðum því fram undir eigin merki í komandi borgarstjórnarkosningum, því þannig eigum við sætan sigur í vændum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið