Í grískum fornsögum segir af sveininum Narkissosi. Á hann var lagt að hann skyldi verða ástfanginn af eigin spegilmynd. Og ekki var að sökum að spyrja: Þegar Narkissosi varð litið ofan í lind eina varð hann svo bergnuminn af þeirri sýn að þaðan átti hann ekki afturkvæmt heldur veslaðist upp og varð að lokum að blómi. Örlög Narkissosar
Í grískum fornsögum segir af sveininum Narkissosi. Á hann var lagt að hann skyldi verða ástfanginn af eigin spegilmynd. Og ekki var að sökum að spyrja: Þegar Narkissosi varð litið ofan í lind eina varð hann svo bergnuminn af þeirri sýn að þaðan átti hann ekki afturkvæmt heldur veslaðist upp og varð að lokum að blómi.
Sérgæskan
Það er deginum ljósara að æðstu embættismenn ríkisins þurfa ekki að kvíða kröppum kjörum á efri árum eins og sauðsvartur almúginn. Við fimmtíu og fimm ára aldur geta þeir dándismenn – oftar en ekki þörfustu þjónar Flokksins – farið að þiggja höfðingleg eftirlaun og þó átt vís önnur feit embætti og bitlinga hjá hinu opinbera. Um 650 milljónir króna – það eru eftirköstin anno 2004 eftir eftirlaunalögin alræmdu, samþykkt að endingu af þrjátíu þingmönnum: tuttugu og níu stjórnarliðum og einum stjórnarandstæðingi, nú sendiherra í Svíaríki. Að óbreyttu má vera lýðum ljóst að klafinn sá á eftir að verða samfélaginu enn þyngri þegar fram líða stundir.
Samhygðin
Ætlar meirihluti Alþingis virkilega að ríghalda í eftirlaunalögin frá því í desember 2003? Eða er kannski svona bágt að finna önnur og brýnni not fyrir almannafé? Til dæmis að draga úr kynbundnum launamun hjá hinu opinbera? Að hækka lægstu laun? Að stilla sig um að skerða vaxtabætur húsnæðislána um 450 milljónir króna? Að kaupa bóluefni gegn yfirvofandi fuglaflensufaraldri handa landsmönnum öllum en ekki bara útvöldum? Eða að styrkja pör, ófrjósöm eða samkynhneigð, til að ættleiða munaðarlaus börn frá ríkjum eins og Indlandi, Kólumbíu, Taílandi og Kína?
Af nógu er að taka.
Og sjá!
En má kannski lesa dulinn boðskap úr eftirlaunalögum Alþingis? Þó ekki að fyrst og síðast skuli hver skara eld að sinni köku, ota sínum tota? Og þeim mun heldur sem aðstaðan er betri, eða hvað? Er það hið frelsandi fagnaðarerindi? Að hver skuli einblína á eigin spegilmynd?