Nær helmingur atvinnulausra er ungt fólk á aldrinum 18 til 35 ára samkvæmt nýjustu gögnum Vinnumálastofnunar. Á þetta benda Ungir jafnaðarmenn í umsögn um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2021. Þetta er sláandi staðreynd sem hefur að mati UJ hvorki farið nægilega hátt í almennri umræðu um atvinnumál né endurspeglast í efnahagsaðgerðum stjórnvalda.
Þá fær fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar falleinkunn í loftslagsmálum og ljóst er að ríkisstjórnin rekur áfram skattastefnu sem ýtir undir ójöfnuð. Loks lýsa Ungir jafnaðarmenn undrun sinni á því að greiðsluþátttaka ríkisins vegna sálfræðiþjónustu sé ekki kostnaðarmetin og skýrt fjármögnuð í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.
Nánar má lesa um helstu athugasemdir Ungra jafnaðarmanna um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar hér fyrir neðan.
1. Engin áætlun um að ná niður atvinnuleysi og lítið sem ekkert gert til að létta undir með atvinnuleitendum og fjölskyldum þeirra.
Nær helmingur atvinnulausra er ungt fólk á aldrinum 18 til 35 ára.
Nú ríður yfir alvarlegasta atvinnukreppa á Íslandi frá upphafi mælinga. Tæplega 10 prósent þeirra Íslendinga sem vilja vinna fá ekki vinnu og samkvæmt spá Vinnumálastofnunar fer hlutfallið hækkandi.
Þrátt fyrir þetta hefur ríkisstjórnin ekki sett fram neina áætlun um hvernig megi ná niður atvinnuleysi í landinu og fjölga störfum. Í fjárlagafrumvarpinu er aðeins gert ráð fyrir að atvinnuleysi minnki um 1 prósentustig á árinu 2021 en hafa verður í huga að aðgerðir stjórnvalda geta ráðið miklu um þessa þróun.
Bótum atvinnuleysistrygginga verður áfram haldið í lágmarki, jafnvel þó flestum sé nú orðið ljóst að neikvæðar afleiðingar veirukreppunnar á líf fólks skiptast afar ójafnt og bitna langsamlega verst á atvinnulausum og fjölskyldum þeirra. Til að bæta gráu ofan á svart er stúdentum sem hafa unnið með námi áfram neitað um rétt sinn til atvinnuleysistrygginga, þrátt fyrir að tryggingagjald sé innheimt af launum stúdenta eins og allra annarra, en um 70 prósent stúdenta vinna með námi og nær 90 prósent vinna fullt starf á sumrin.
Í þessu samhengi er vert að benda á að samkvæmt nýjustu tölum Vinnumálastofnunar er nær helmingur atvinnulausra á Íslandi ungt fólk á aldrinum 18 til 35 ára. Þetta er sláandi staðreynd sem Ungir jafnaðarmenn hafa áður vakið athygli á en hefur hvorki farið hátt í almennri umræðu um atvinnumál né endurspeglast í efnahagsaðgerðum stjórnvalda. Reyndar má telja næsta víst að hlutfall ungs fólks meðal atvinnulausra sé vanáætlað í gögnum Vinnumálastofnunar þar sem þau byggja á umsóknum um atvinnuleysistryggingar, sem standa ekki til boða fyrir stúdenta eins og áður segir.
Því er ljóst að aðgerðaleysi þegar kemur að því að fjölga störfum og stefna ríkisstjórnarinnar um að halda bótum atvinnuleysistrygginga áfram í lágmarki koma sérstaklega niður á ungu fólki. Það sama á auðvitað við um það óréttlæti að stúdentum sé einum hópa neitað um rétt sinn til atvinnuleysistrygginga. Þá benda rannsóknir til þess að atvinnuleysi ungs fólks geti haft langvinn neikvæð áhrif á atvinnumöguleika og tekjur síðar meir.
Fjöldaatvinnuleysi er sóun og hætt er við því að langtímaatvinnuleysi meðal ungs fólks reynist íslensku samfélagi dýrkeypt þegar upp er staðið. Þess vegna þurfa stjórnvöld að setja fram skýra áætlun um fjölgun starfa – en það þarf líka að hækka bætur atvinnuleysistrygginga til að létta undir með atvinnuleitendum og fjölskyldum þeirra í fordæmalausri atvinnukreppu auk þess að standa skil á áunnum og sjálfsögðum réttindum stúdenta.
2. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fær falleinkunn í loftslagsmálum.
Aukning fjárframlaga til loftslagsmála innan við 0,02 prósent af vergri landsframleiðslu á árinu 2021.
Enginn skortur hefur verið á stórum yfirlýsingum og fögrum fyrirheitum í málflutningi forystufólks ríkisstjórnarinnar um loftslagsmál. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar vantar hins vegar verulega upp á að nauðsynlegt fjármagn fylgi svo unnt sé að ráðast í raunverulega stórtækar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hraða orkuskiptum.
Hvað sem líður orðræðu ráðherra um „græna byltingu“ þá liggur fyrir að Ísland styðst við mun veikari loftslagsmarkmið en t.d. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og önnur Norðurlönd. Heildarframlög hins opinbera til loftslagsmála eru enn alltof lág og nema langt innan við 1 prósenti af vergri landsframleiðslu (VLF). Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verður aukning framlaga til málaflokksins undir 0,02 prósentum af VLF á árinu 2021. Hvorugt ber vitni um græna byltingu.
Metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er ámælisvert. Í fyrsta lagi blasir við að róttækra aðgerða er þörf í þessum efnum og þar skiptir hvert ár máli. Með áframhaldandi slugsaskap stjórnvalda verður ómögulegt að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Í öðru lagi fara metnaðarfyllri markmið og stórtækari aðgerðir vel saman við nauðsynlega fjölgun starfa og örvandi ríkisfjármálastefnu. Nú er gullið tækifæri til að leggja grunn að nýjum grænum stoðum undir íslenskt hagkerfi og verðmætasköpun framtíðar.
Brýnt er að hið opinbera hafi forystu um græna uppbyggingu um land allt. Í því samhengi vilja Ungir jafnaðarmenn taka undir þær hugmyndir sem þingflokkur Samfylkingarinnar setti fram á dögunum í efnahagsáætlun sinni, Ábyrgu leiðinni, svo sem um stofnun græns fjárfestingasjóðs að norrænni fyrirmynd sem hefði nægilegt fjárhagslegt bolmagn til að leiða umhverfisvæna umbyltingu atvinnulífs á Íslandi.
3. Skattastefna sem ýtir undir ójöfnuð.
Atvinnuskapandi skattalækkanir eru aðkallandi – ekki lækkun skatta af fjármagnstekjum og erfðafé.
Áfram rekur ríkisstjórnin skattastefnu sem ýtir undir ójöfnuð. Sú stefna er jafnvel verri en áður í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í samfélaginu, þegar faraldur geisar og fjöldaatvinnuleysi sem bitnar með afar ójöfnum hætti á fólki og fjölskyldum. Nú væri nær að láta af ójafnaðarstefnunni og setja atvinnuskapandi skattalækkanir í forgang í stað þess að leggja ofuráherslu á lækkun skatta af fjármagnstekjum og erfðafé.
Enn einu sinni boðar ríkisstjórnin sérstakar aðgerðir til að verja fjármagnseigendur fyrir verðbólgu. Það er óréttlát og óskynsamleg aðgerð sem skilar engum ávinningi nema þeim allra tekjuhæstu í landinu, sem taka til sín langstærstan hluta fjármagnstekna. Að sama skapi er erfitt að sjá að lækkun erfðafjárskatts sé aðkallandi. Í alvarlegustu atvinnukreppu á Íslandi frá upphafi mælinga hljóta áherslur af þessum toga að teljast afar ómarkvissar, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Veiðigjöld hafa lækkað umtalsvert á kjörtímabilinu og nema aðeins brotabroti af því sem eigendur stærstu útgerðarfyrirtækja hirða af auðlindarentunni á ári hverju. Veiðigjöld eru nú á pari við útvarpsgjaldið. Þetta er bein afleiðing af stefnu núverandi stjórnvalda um að verja sérhagsmuni með kjafti og klóm. Til minnis má rifja upp í þessu samhengi að fyrstu skattaaðgerðir ríkisstjórnarinnar eftir að kórónuveiran skall á af fullum þunga voru lækkun bankaskatts og lækkun skatts á fyrirtæki sem kaupa stór skip.
Þegar allt þetta kemur saman teiknast upp býsna skýr mynd af skattastefnu ríkisstjórnarinnar, sem ýtir illu heilli undir ójöfnuð í samfélaginu. Til að kóróna ranga stefnu hafa stjórnvöld, þegar þessi orð eru skrifuð, styrkt stórfyrirtæki um meira en 10 milljarða á árinu fyrir að segja upp fólki – og fer upphæðin hækkandi. Þessir uppsagnarstyrkir eru því miður dæmigerðir fyrir hægristefnu ríkisstjórnarinnar. Fyrir sömu upphæð hefði bæði mátt ráðast af krafti í skynsamlegar skattalækkanir til að örva atvinnu og standa undir nauðsynlegri hækkun atvinnuleysistrygginga.
4. Greiðsluþátttaka ríkisins vegna sálfræðiþjónustu ekki fjármögnuð.
Lög um greiðsluþátttöku eru lítils virði ef engu fjármagni er veitt til að fylgja lögunum.
Síðast en ekki síst lýsa Ungir jafnaðarmenn undrun sinni á því að greiðsluþátttaka ríkisins vegna sálfræðiþjónustu sé ekki kostnaðarmetin og skýrt fjármögnuð í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Lög um að sálfræðiþjónusta verði felld undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga voru samþykkt síðastliðið vor með 54 atkvæðum og enginn þingmaður greiddi atkvæði á móti. Ungir jafnaðarmenn skora á Alþingi að tryggja að lögunum fylgi fjármagn svo þau geti gengið eftir.
Ungir jafnaðarmenn skora á þingheim allan að taka höndum saman og gera gagngerar breytingar á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2021 með hliðsjón af þeim ábendingum sem hér eru settar fram.
Umsögn Ungra jafnaðarmanna má lesa á vef nefndasviðs Alþingis hér.