Múrinn

Frá ómunatíð hafa valdsmenn reist ýmiss konar múra sér og sínum til varnar. Með Múrnum má ekki aðeins aftra ágangi og ásælni utanaðkomandi aðila heldur getur Múrinn líka ýtt undir fáfræði og fákunnáttu, fákeppni og fátækt, stöðnun og afturhald, klíkuskap og smákóngahneigð, spillingu og sérhagsmunapot. Sagan segir að fæstir ráðamenn hafi sett nokkuð af þessu fyrir sig – sumir jafnvel talið það helst til kosta að með múrverkinu mætti halda frá framúrstefnulegum hugmyndum um frelsi, jafnrétti og bræðralag og fresta ýmiss konar samfélagsbreytingum, flestum mjög svo framfarasinnuðum. Í (skálka)skjóli Múrsins
Frá ómunatíð hafa valdsmenn reist ýmiss konar múra sér og sínum til varnar. Með Múrnum má ekki aðeins aftra ágangi og ásælni utanaðkomandi aðila heldur getur Múrinn líka ýtt undir fáfræði og fákunnáttu, fákeppni og fátækt, stöðnun og afturhald, klíkuskap og smákóngahneigð, spillingu og sérhagsmunapot. Sagan segir að fæstir ráðamenn hafi gert sér rellu út af þessu – sumir jafnvel talið það helst til kosta að með múrverkinu mætti halda frá framúrstefnulegum hugmyndum um frelsi, jafnrétti og bræðralag og fresta ýmiss konar samfélagsbreytingum, flestum mjög svo framfarasinnuðum.

Að rjúfa Múrinn
Ný rannsókn, gerð á vegum Dansk Industri (danskrar hliðstæðu við Samtök iðnaðarins), er ávitull um að á Íslandi og í Bandaríkjunum séu best skilyrði til að nýta yfirstandandi hnattvæðingu. En þó má efast um að nóg sé að gert hér á landi, til dæmis þyrfti að ná fram stöðugra gengi og gera menntakerfið fjölbreyttara og öflugra, sér í lagi framhaldsnámið. Getur ekki hugsast að til framtíðar sé evran hentugri gjaldmiðill en krónan? Og hagkvæmara fyrir ríkið að leggja fé í menntir og vísindi en margt annað? Skynsamlegra en til dæmis að gera rándýr jarðgöng út um hvippinn og hvappinn, halda uppi þurftarfrekum sendiherrum og stásslegum sendiráðum á öðrum hverjum útnára, standa straum af gegndarlausum ferða- og risnukostnaði og greiða góðum og gegnum flokksjálkum fádæma rausnarleg eftirlaun – löngu áður en þeir láta af feitum embættum hjá hinu opinbera?

Með því að skjóta styrkari stoðum undir þekkingariðnað á Íslandi mætti laða að erlent fjármagn og skapa fjölmörg vel launuð störf, auka skatttekjur og bæta þjóðarhag. Fjölbreyttara atvinnulíf er jú verðugt markmið í sjálfu sér enda talið varhugavert – víðast hvar – að leggja öll sín egg í sömu körfu.

Í skugga Múrsins
Þröngsýni og nýjungafælni geta reynst landstjórnarmönnum ókleifur múr. Þó er það þeirra að reyna að klöngrast upp á slíka múra og hvessa augun út að ystu sjónarrönd, fyrir austan sól og sunnan mána, handan dansandi norðurljósa. Þá fyrst gætu þeir kannski komið auga á Eldóradó, hið gullroðna goðsagnaland, og leitað þar fyrirmynda. En sem stendur er því ekki að heilsa um stjórnarherra Íslands: Umluktir himingnæfum múr rýna þeir upp í hvolfið með dreymandi blik í augum og mæna hugfangnir á dökkan skugga sem færist nær og nær, sogandi í sig hvaðeina sem á veginum verður. Og hvaða myrkranna verk skyldi þetta nú vera? Jú, það sem þar fer gapandi með himinskautum er svarthol, botnlaust og óseðjandi. Þar ríkir eitt afl og aðeins eitt afl – þar ríkir stóriðjan ein.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand