Menntun er úti í kuldanum hjá ríkisstjórninni

Virðingarleysi fyrir menntun er almennt ríkjandi viðhorf á Íslandi. Það lýsir sér einna best í ráðstöfun símasilfursins sem hefur valdið töluverðum deilum eins og kunnugt er. Aðeins einum milljarði af heildarupphæð hefur verið varið til menntamála. Hús íslenskra fræða á að rísa við hlið Þjóðarbókhlöðunnar í tilefni 100 ára afmæli Háskólans og 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar. Það má gera ráð fyrir því að í þessar framkvæmdir hefði verið ráðist þó Síminn hefði ekki verið seldur. Menntaskólar, háskólar, verkmenntun og grunnskólar eru ósýnilegir í augum ríkisstjórnarinnar. Virðingarleysi fyrir menntun er almennt ríkjandi viðhorf á Íslandi. Það lýsir sér einna best í ráðstöfun símasilfursins sem hefur valdið töluverðum deilum eins og kunnugt er. Aðeins einum milljarði af heildarupphæð hefur verið varið til menntamála. Hús íslenskra fræða á að rísa við hlið Þjóðarbókhlöðunnar í tilefni 100 ára afmæli Háskólans og 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar. Það má gera ráð fyrir því að í þessar framkvæmdir hefði verið ráðist þó Síminn hefði ekki verið seldur. Menntaskólar, háskólar, verkmenntun og grunnskólar eru ósýnilegir í augum ríkisstjórnarinnar.

Milljarður í málamiðlun
Almenningur skeytir ekki um þennan litla kökubita sem fer í menntamál; fulltrúar menntastétta þegja biðja ekki um meira. Í raun eru þau bara sátt. Þegar á heildina er litið er ansi líklegt að þessi milljarður hafi verið ein stór málamiðlun. Og jafnvel óþörf, því getum við verið viss um að nokkuð hefði heyrst í málsvörum íslenskra menntamála ef alls engu hefði verið varið í þann málaflokk af söluandvirði símans?

Algert skeytingarleysi hjá stjórnvöldum
Þessi þögn íslenskra málsvara er í raun ógnandi. Baráttufólk fyrir auknum menntunarfjárframlögum veit vel að skeytingarleysi ríkisstjórnarinnar er algert er varðar menntun.Við sjáum hinsvegar gríðarlega grósku vegaframkvæmdum, heilbrigðismálum og stóriðnaði svo eitthvað sé nefnt. Forgangsröðun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr á valdastóli er ansi skýr. Menntun er þar engan veginn á forgangslista. En hvað finnst íslensku þjóðinni?

Jafnt aðgengi að menntun er grundvallarforsenda góðæris
Það er eins og fólk viti ekki að grundvallarforsenda velferðarþjóðfélagsins liggur í menntuðum lýð. Hún liggur ekki í álverum eða jarðgöngum. Margir telja hátt menntastig sé fyrir hendi nú þegar, þ.e. að Íslendingar standi vel að vígi þegar kemur að samanburði við nágrannaþjóðir í almennri menntun. Það er hættulegur misskilningur. Við höfum í áraraðir verið hálfdrættingar nágrannaþjóða þessum málaflokki. Um 40% þjóðarinnar lýkur ekki framhaldsmenntun, þ.e.lýkur aðeins grunnskólaprófi. Hér er verkmenntun vitaskuld talin til framhaldsnáms, en hættulega fáir stunda verknám um þessar mundir, þó aðsóknin sé mikil. Færri komast að en vilja, og lágum framlögum er alfarið um að kenna. Þetta leiðir til þess að fleiri ljúka aðeins grunnskólaprófi án nokkurrar framhaldsmenntunar.

Háskólinn fær að svelta
Á síðustu árum hefur Háskóli Íslands þurft að herða sultarólina með hverju árinu. Árið 2001 kostaði um 25.000 krónur að innrita sig í HÍ. Ári síðar var innritunargjaldið svokallaða hækkað um 40% og hækkaði þá 32.000 krónur. Í ár var það hækkað enn frekar og er komið upp í heilar 45.000 krónur á örfáum árum! Hver er afsökun stjórnvalda? Í hnotskurn er hún algjörlega óásættanleg, alls ekki haldbær og varla til. Geir H. Haarde fráfarandi fjármálaráðherra sagði m.a. í fjölmiðlum í vetur að svo langt væri síðan síðasta hækkun átti sér stað, að álagning ársins væri réttlætanleg. Verið er að seilast í vasa stúdenta til að mæta aukinni ásókn í háskólanám – þ.e.a.s. stúdentum er refsað allsvakalega fyrir að sækja í hærra menntastig. Halda stjórnvöld virkilega að þau séu að stuðla að bættu velferðarþjóðfélagi?

Norðurlöndin til fyrirmyndar – Íslendingar til skammar
Þetta er hvort tveggja sorglegt fyrir komandi kynslóðir og aðhlátursefni fyrir grannþjóðir. Í Svíþjóð kostar um 3000 ISK að innrita sig í háskóla. Minna í Danmörku. Þar fá stúdentar mánaðarlegan styrk greiddan fyrir að stunda nám. Námsbækur eru að sama skapi niðurgreiddar. Gætum við nokkurn tíma séð slíkt eiga sér stað hér á landi? Varla, því virðing almennings fyrir námi er jafnvel minni en ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin samanstendur af menntuðu fólki sem veit að menntun er ekki einskis virði. En menntun selur ekki. Hún er ósýnileg fjárfesting sem sannfærir ekki kjósendur.

Ömurlegt ástand
Og við getum haldið áfram. Grunnskólar með sín margra vikna verkföll. Þjóðin skellir skuldinni á vandlæti kennara. Framlög til verknáms er minnst hér á landi á Norðurlöndum. Þjóðin leggur sem fyrr áherslu á dugnað á vinnumarkaði og menntun er í huga okkar þreytandi viðkomustaður í átt að takmarkinu – mánaðarlegum lúsarlaunaseðli án persónuafsláttar. Háskólanám er í sókn, en með áframhaldandi togstreitu milli stúdenta og stjórnvalda er viðkemur skólagjöldum er jafnvel von á minnkandi aðsókn í Háskóla Íslands! Fagnaðarefni fyrir stjórnvöld?

Forríki námsmaðurinn?
Í augum almennings er námsmanninum ekki vorkunn. Bílastæði nemenda eru troðfull. Námsmenn kaupa íbúðir og fara til útlanda. Þeir eru fullir um helgar og panta pítsur. Þeir eiga peninga. Allar fullyrðingar eru réttar nema sú síðasta. Námsmenn eiga ekki neitt nema skuldir. Fæstir eiga ríka pabba. Sumir eru skynsamari en aðrir og reyna að spara í bland við námslánin; í raun eru stúdentar ekkert nema þverskurður af sjálfri þjóðinni, og það sama verður að segjast um menntaskóla- og verknámsnema. Þeim er ekki vorkunn; þvert á móti verður að bera mikla virðingu fyrir þessum þjóðfélagshópi. Það gera þó Íslendingar ekki. Fyrir þeim er óskiljanlegt að menntun teljist til fjárfestingar.

„Finnska leiðin“
Fyrir tæplega tveimur áratugum stóðu Finnar frammi fyrir miklum fjárhagsvanda. Afleiðingar falls Berlínarmúrsins og ryskinga í efnahagslífinu gerðu þeim erfitt fyrir, með þeim afleiðingum að þeir stóðu næstum frammi fyrir gjaldþroti. Stjórnvöld sáu fram á að aðeins eitt væri hægt að gera í stöðunni. Menntun á öllum sviðum skyldi höfð í hávegum. Grunnskólastig, menntaskólastig, verknám sem og háskólastig. Í dag hafa Finnar náð umtalsverðum árangri og ávöxtur þessarar gáfulegu fjárfestingar hefur sannarlega náð að vekja heimsathygli. Finnsk hönnun hefur aldrei staðið jafn vel, hátæknifyrirtæki á borð við Nokia ofl. eru öllum kunn og skólabörn þar í landi skara fram úr í alþjóðakennslukönnunum. Og maður vill meina að það sé alls engin tilviljun.

Hver á að vinna á hátæknisjúkrahúsi ef menntun á sviði heilbrigðissviðs þarf að líða stanslausan fjárskort? Erlendar skuldir safnast aftur upp á augabragði ef við höldum ekki rétt á spilunum. Þessi milljarður sem úthlutað er til menntamála nægir ekki til að stuðla að betra menntasamfélagi. Til þess þarf ýmislegt meira en aðeins fjármagn. Það þarf hugarfarsbreytingu, hjá þjóðinni sem og stjórnmálafólki. Það liggur hinsvegar á herðum stjórnvalda að sjá til þess að beina sjónum að þessu vandamáli, og núverandi ríkisstjórn er því miður ekki treystandi til þeirra verka.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand