Munnmælasögur um stöðugleikann

„Síðasta ríkisstjórn sem hrökklaðist frá vegna óstjórnar í efnahagsmálum var undir forystu Sjálfstæðisflokksins,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar og frambjóðandi í Reykjavíkurkjördæmi norður, í grein á Pólitík.is í dag. Vísbendingar sýna að ríkisstjórnin gæti misst þingmeirihluta sinn í kosningunum. Þessi staða hefur orðið sjálfstæðismönnum tilefni mikils hræðsluáróðurs. Forsætisráðherra hefur fullyrt að efnahagsmál muni fara úr böndunum og verðbólga verði áður en varir komin í tveggja stafa tölu ef mynduð verður ríkisstjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokksins. Morgunblaðið fylgdi í kjölfarið og síðan hefur þessi steinn verið klappaður. M.a. var fullyrt í leiðara blaðsins 14. apríl að ef ríkisstjórnin missi meirihlutann komi upp svipuð staða og 1971 þegar stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks féll og við tók sk. „vinstri stjórn“ þriggja flokka. Þessi málatilbúnaður er með hreinum ólíkindum.

Sjálfstæðisflokkurinn og óstöðugleikinn
Það væri kannski réttlætanlegt að vísa alla leið aftur til 1971 ef þá hefði verið mynduð síðasta þriggja flokka vinstri- eða miðjustjórnin á Íslandi. Því fer víðs fjarri. Hér sat t.d. við völd slík stjórn þriggja og síðan fjögurra flokka á árunum 1988-1991. Hún tók við eftir að stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafði hrökklast frá þar sem hún réð ekki við stjórn efnahagsmála. Nýrri stjórn tókst aftur á móti, í ábyrgri samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, að leggja grunn að lágri verðbólgu og þeim efnahagslega stöðugleika sem við búum enn að. Þetta dæmi hentar hins vegar ekki Sjálfstæðisflokknum og leiðarahöfundi Morgunblaðsins.
Árið 1974 var mynduð samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem ríkti yfir meiri verðbólgu og efnahagslegum óstöðugleika en stjórnin á undan. Ástæðan var ekki bara stefna stjórnarflokkanna, heldur ýmsar ytri aðstæður, skipulagsbrestir í hagkerfinu og skipulag fjármagnsmarkaðar og peningamála.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins viðurkennir að vísu að aðstæður séu nú aðrar en 1971, sem þær og eru. Allt skipulag fjármálakerfisins er nú annað og fjármagnshreyfingar á milli Íslands og umheimsins eru óheftar, en hvort tveggja fylgdi í kjölfar samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta stuðlar að aga í hagstjórn, eins og núverandi ríkisstjórn kynntist rækilega þegar hún stefndi stöðugleikanum í hættu á árinu 2000.

Verðbólgumarkmið Seðlabankans
Í gildi er afar mikilvæg löggjöf um sjálfstæðan Seðlabanka og samkomulag um 2,5% verðbólgumarkmið. Samfylkingin talaði fyrir þessari breytingu, en núverandi forsætisráðherra var ekkert allt of hrifinn til að byrja með, eins og vel kom fram í umræðum hans og Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi í desember 1999. En hann sneri sem betur fer við blaðinu og að lokum náðist víðtæk sátt um málið á vorþingi 2001. Í umræðum um málið á Alþingi lagði forsætisráðherra áherslu á að verðbólga væri þegar öllu er á botninn hvolft af peningalegum toga og því eðlilegt að setja stefnunni í peningamálum verðbólgumarkmið.

Hvernig í ósköpunum á verðbólga að geta farið úr böndunum, hvað þá farið í 50% eins og forsætisráðherra hefur haldið fram, án þess að verðbólgumarkmið og lög um sjálfstæðan Seðlabanka séu tekin úr sambandi?

Það er kannski ekki hægt að taka forsætisráðherrann alvarlega í þeim kosningaham sem hann hefur verið í að undanförnu, en eðlilegt er að gera þá kröfu til Morgunblaðsins að það svari þessari spurningu. Þeim til hægðarauka get ég lýst því yfir hér að það stendur ekki til af hálfu Samfylkingarinnar að standa að breytingu af þessu tagi.

Samfylkingin mun hafa forystu um að varðveita stöðugleika í efnahagsmálum í hvaða ríkisstjórn sem hún kann að taka þátt að afloknum kosningum. Flokkarnir sem stóðu að Samfylkingunni hafa á undanförnum áratugum lagt sum mikilvægustu lóðin á vogarskálar stöðugleikans, svo sem í stjórninni 1988-1991 sem skapaði forsendur fyrir þjóðarsáttarsamningunum 1990, en einnig að hluta til í ríkisstjórninni 1991-1995 sem kom EES-samningnum í höfn. Síðasta ríkisstjórn sem hrökklaðist frá vegna óstjórnar í efnahagsmálum var hins vegar undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Það er vert að muna þegar söguleg upprifjun fer fram.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. maí sl.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand