Þakið ætlaði að rifna af Hressó í gær á stofnfundi Landnemans, félags Samfylkingarfólks og óháðra um fjölmenningu og málefni innflytjenda.
Þakið ætlaði að rifna af Hressó í gær á stofnfundi Landnemans, félags Samfylkingarfólks og óháðra um fjölmenningu og málefni innflytjenda. Mætingin var svo góð að stemmningin líktist meira rokktónleikum en venjulegum fundi. Litríkara samfélagi fagnað af krafti. Bjartur Logi Ye Shen – innflytjandi og bankamaður, Hrannar B. Arnarsson – íslenskur ættarlaukur og formaður innflytjendaráðs og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir síbúi og formaður Samfylkingarinnar fluttu ávörp til innblásturs.
Til að stikla á einhverju lagði Bjartur áherslu á að í staðinn fyrir að skipa fólki fyrir um hvernig það eigi að læra íslensku og gera annað sé mikilvægt að búa til hvetjandi umhverfi. Hrannar kom með skemmtilega sagnfræðipælingu um hvernig Vestur-Íslendingar lögðu alla áherslu á að lifa áfram í sínum íslenska menningarheimi þrátt fyrir flutningana til nýs lands og Ingibjörg lýsti því hversu stolt hún væri að stýra flokki þar sem frumkvæði eins og stofnun Landnemans sé tekið.
Hljómsveit Leone Tinganelli lék að lokum fyrir andlegum dansi og þeir sem höfðu heilsu til eftir útskriftarveislur laugardagskvöldsins skáluðu í léttum veigum – hinir í kaffi.
Fulltrúi Ungra jafnaðarmanna í stjórn Landnemans er hún Sema Erla, 21 árs stjórnmálafræðinemi. Allir áhugasamir eru hvattir til að skrá sig í félagið – í bili er hægt að gera það með því að senda okkur í uj póst í uj@samfylking.is og við komum skráningunni áleiðis.