Möguleikar Davíðs

Þegar þetta er skrifað hefur höfundur ritskoðunarlaganna og núverandi forsætisráðherra ekkert tjáð sig um málið. Það er vafalítið afar meðvituð ákvörðun hjá Davíð að tjá sig ekki málið, enda hlýtur forsætisráðherra að vera allt annað en ánægður með ákvörðun forsetans. Það er e.t.v. góð ákvörðun hjá honum að bíða með að gefa upp afstöðu sína, en þannig getur hann róað sjálfan sig niður og skýrt frá afstöðu sinni eins yfirvegað og honum er fært. En hverjir eru möguleikar Davíðs í stöðunni? Það er ekki hægt að segja annað en að dagurinn í gær hafi verið sögulegur. Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins ákvað forsetinn að nota málskotsrétt sinn með því að skrifa ekki undir ritskoðunarlög Davíðs og setja lögin þannig í hendur þjóðarinnar.

Athyglisvert var að fylgjast með viðbrögðum manna í gær. Leiðtogar stjórnarandstæðunnar voru samstíga sem fyrr og sammála um kalla bæri þingið saman hið fyrsta og setja þar lög um þjóðaratkvæða- greiðslur. Halldór Ásgrímsson hélt blaðamannafund í utanríkis- ráðuneytinu í kjölfar fundar með ráðherrum flokksins og þar sagði hann m.a. að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram. Guðni karlinn Ágústsson sagði þetta einnig á leiðinni af fundinum með ráðherrum Framsóknarflokksins.

Þegar þetta er skrifað hefur höfundur ritskoðunarlaganna og núverandi forsætisráðherra ekkert tjáð sig um málið. Það er vafalítið afar meðvituð ákvörðun hjá Davíð að tjá sig ekki málið, enda hlýtur forsætisráðherra að vera allt annað en ánægður með ákvörðun forsetans. Það er e.t.v. góð ákvörðun hjá honum að bíða með að gefa upp afstöðu sína, en þannig getur hann róað sjálfan sig niður og skýrt frá afstöðu sinni eins yfirvegað og honum er fært. En hverjir eru möguleikar Davíðs í stöðunni?

Haldið áfram við sama heygarðshornið
Davíð Oddsson hefur farið mikið seinustu mánuði og þar ber hæst atlaga hans og skósveina hans gagnvart embætti og persónu forseta Íslands. Hann hefur hrópað vanhæfni oftar en einu sinni og jafnframt skrifað grein um meinta vanhæfni forsetans í dagblað allra landsmanna sjálft Morgunblaðið. Kerfisbundið hafa Davíð, Björn Bjarnason, Halldór Blöndal og hinir meintu fræðimenn Jón Steinar Gunnlaugsson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson og minni spámenn reynt að draga úr áhrifamætti og stöðu sitjandi forseta og um leið, sem er öllu verra, sjálfu embætti forseta lýðveldisins Íslands. Þetta hafa þessir herramenn gert markvisst í blaðagreinum, bloggi á heimasíðum sínum og í umræðuþáttum undanfarin ár.

Þess vegna verður einn möguleika Davíðs að teljast vera sá að halda áfram að pissa uppí vindinn, verða enn reiðari, verða enn orðljótari í garð forsetans, halda áfram að tala um Stöð 2, DV og Fréttablaðið sem Baugsmiðla og haldið áfram að dylgja um tengsl Samfylkingarinnar og Jóns Ásgeirs.

Davíð getur látið sem ekkert hafi gerst og sleppt því að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um ritskoðunarlögin. Þetta verður samt sem áður að teljast ólíklegt þar sem formaður og varaformaður samstarfs flokksins hafa báðir gefið það út að þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram.

Smellt sér í gervi landsföðursins
Annar möguleiki er að Davíð sætti sig einfaldlega við ákvörðun forsetans og virði hana, kalli saman þingið og boði til þjóðaratkvæðagreiðslu hið fyrsta. Þetta gæti Davíð gert landsföðurslega með almúgalegt bros í vanga. Með slíku háttalagi yrði Davíð maður með meiru og þannig myndi hann játa ákveðin mistök sem hann gerði þegar hann hjólaði í forsetan nýverið. Maður verður nú engu að síður að viðurkenna að þá hlið á Davíð Oddssyni höfum við ekki kynnst áður, þ.e.a.s. að hann sé það mikill maður til að viðurkenna mistök sín, en maður veit svo sem aldrei. Með þessu gæti Davíð jafnvel unnið hug þjóðarinnar að einhverjum hluta á ný – jafnvel þó að hann meini það ekki.

Boðað til þingkosninga
Nýliðinn vetur hefur verið ríkisstjórnarsamstarfinu erfiður og greinilegt er að talsverðrar ólgu gætir meðal almennra flokksfélaga ríkisstjórnarflokkanna, en þetta sést m.a. mjög greinilega í pirringi í pistla- og bloggskrifum einstaklinga í forystu ungliðahreyfinga flokkanna.

Einn möguleika Davíðs er að boða til Alþingiskosninga. Í þeim kosningum gætu Davíð og Sjálfstæðisflokkurinn reynt að endurheimta trú fólks og stuðning við flokkinn. Vafalítið myndu sjálfstæðismenn stilla málum þannig upp að kosið yrði á milli ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar, ,,okkar” og Baugsveldisins, stöðugleika og óstöðugleika. Verði þeim það að góðu – þeir myndu tapa.

Allt slæmir kostir
Eins og sést þá er ekkert offramboð af kostum í stöðunni fyrir Davíð Oddsson – hvað þá góðum. Kosningar hljóta að vera slakasti kosturinn fyrir Davíð og því tel ég ólíklegt að á þessari stundu að hann sé að hugsa um að boða til þeirra.

Hann getur ekki haldið áfram við sama heygarðshornið, vanvirt og farið með dylgjur og véfengt hvort að forseti Íslands hafi raunverulega þetta vald sem hann beitti í gær af því að forysta Framsóknarflokksins er ekki sammála því og þeir hafa sagt að þjóðaratkvæðagreiðslan muni fara fram. Aftur á móti hafa þeir herramenn svo sem áður verið flengdir af Davíð og því gætu þeir allt eins skipt um skoðun.

Líklegasti, og í rauninni eini gáfulegi, kosturinn er að Davíð komi fram og véfengi ekki lengur vald forsetans og kalli þingið saman. Hann sjái af sér. Það tel ég vera líklegustu niðurstöðuna. Við skulum nefnilega ekki gleyma því að Davíð hefur verið borgarstjóri og síðan forsætisráðherra í yfir 20 ár og við hljótum að gefa okkur það að einstaklingur sem hefur verið svo lengi við völd búi yfir einhverjum klókindum þegar kemur að hinni pólitísku refskák. Og rétti leikurinn gæti verið sá að játa sig ,,sigraðan” – a.m.k. í bili.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand