Mogginn og unga fólkið

,,Það skiptir máli að stjórnmálaflokkar treysti ungu fólki og það hefur Samfylkingin gert. Þetta hefur t.d. haft þau áhrif að flokkurinn hefur verið öflugur málsvari menntamála og jafnréttis á þinginu, hefur talað máli ungs fjölskyldufólks og hefur t.d. beitt sér mjög til þess að lækka megi kostnað fjölskyldna í landinu. Það er því enginn skortur á ungu og hæfileikaríku fólki í forystusveit Samfylkingarinnar. En hversu ungur og efnilegur skyldi höfundur Staksteina vera?“ Segir Magnús Már Guðmundsson formaður Ungra jafnaðarmanna.

Staksteinar hafa sérstakan áhuga á Samfylkingunni sem eykst enn þegar líður að kosningum. Nú er sá tími runninn upp að Morgunblaðið er hætt að reyna sýnast hlutlaust og sýnir sitt rétt andlit sem málgagn Valhallar. Síðast fullyrtu Staksteinar á páskadag að það væri skortur á ungu öflugu fólki í Samfylkingunni. Staðan var hins vegar sögð allt önnur og betri í Sjálfstæðisflokknum, sem kom kannski ekki sérstaklega á óvart þegar haft er í huga að hvaða dálkur þetta er.


Það er hins vegar fjarri því að þessi fullyrðing standist skoðun og því er mér ljúft og skylt sem formanni Ungra jafnaðarmanna að nefna nokkra af þeim fjölmörgu ungu frambjóðendum sem bjóða sig fram fyrir flokkinn í komandi kosningum.


Yngsti varaformaður landsins

Fyrstan má nefna varaformann Samfylkingannar, Ágúst Ólaf Ágústsson, sem er yngsti varaformaður landsins og er sömuleiðis einn yngsti varaformaður stjórnmálaflokks sem hefur verið kosinn hér á landi. Ágúst Ólafur er þrítugur en verk hans á Alþingi hafa vakið mikla athygli. Hann er að mínu viti öflugur málsvari ungs fólks.


Samfylkingin hefur einnig einn yngsta oddvita landsins í sínum röðum, Björgvin G. Sigurðsson í Suðurkjördæmi sem er þungavigtarmaður innan flokksins og hefur sýnt það í störfum sínum. Glæsilegur sigur Katrínar Júlíusdóttir í prófkjöri flokksins í Suðvesturkjördæmi sýnir vel sterka stöðu hennar innan flokksins og hvers hún er megnug.


Þá má nefna fleira ungt fólk í landsmálapólitík Samfylkingarinnar. Kristrúnu Heimisdóttur lögfræðing og Reyni Harðarson stofnanda CCP í Reykjavík, Árna Pál Árnason lögfræðing, Guðmund Steingrímsson í Suðvesturkjördæmi, Róbert Marshall og Guðnýju Hrund Karlsdóttur viðskiptafræðing í Suðurkjördæmi, Margréti Kristínu Helgadóttur háskólanema í Norðausturkjördæmi og Helgu Völu Helgadóttur blaðamann í Norðvesturkjördæmi.


Allt er þetta ungt og mjög öflugt fólk sem er í framboði fyrir Samfylkinguna fyrir þessar kosningar og hefur beitt sér af miklum krafti. Fullyrðing Staksteina heldur því illa vatni, enda þjóna Staksteinar auðvitað ekki þeim tilgangi að fara með staðreyndir.


Samfylkingin er vettvangur fyrir ungt fólk

Í sveitastjórnarpólitíkinni er svipaða sögu að segja. Oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík er Dagur B. Eggertsson sem er ungur og kraftmikill málsvari flokksins. Oddviti Sjálfstæðisflokksins er hins vegar maður sem hefur verið um hálfa öld í stjórnmálum. Í næststærsta bæjarfélagi landsins, Kópavogi, stendur svo valið á milli ungs oddvita Samfylkingarinnar, Guðríðar Arnardóttur annars vegar og hins vegar oddvita Sjálfstæðisflokksins, Gunnars I. Birgissonar. Í Hafnarfirði kemur yngsti bæjarfulltrúinn úr röðum Samfylkingarinnar, Margrét Gauja Magnúsdóttir.


Fjöldi ungs frambærilegs fólk í Samfylkingunni er því gríðarlegur og flokksfélagar Samfylkingarinnar hafa margoft sýnt í verki að ungt fólk fær stuðning til góðra verka. Meðalaldur í þingflokki Samfylkingarinnar er lægri en meðalaldur þingflokks Sjálfstæðisflokksins og er meðalaldur frambjóðenda flokksins t.d. í Reykjavík með því lægsta sem gerist hjá nokkrum flokki.


Skemmst er að minnast þátt ungs fólks í Grósku í stofnun Samfylkingarinnar. Þá hefur Röskva, sem nýverið vann hreinan meirihluta í Háskóla Íslands, lengi verið vettvangur ungs jafnaðarfólks. Að ógleymdri ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar, Ungra jafnaðarmanna, sem er ein sú öflugasta í landinu. Úr ungliðahreyfingunni hafa margir að núverandi forystumönnum flokksins komið og má í því sambandi nefna þau Ágúst Ólaf og Katrínu Júlíusdóttur sem bæði áttu stóran þátt í því að byggja upp þá sterku hreyfingu sem nú er orðin að veruleika.


Það skiptir máli að stjórnmálaflokkar treysti ungu fólki og það hefur Samfylkingin gert. Þetta hefur t.d. haft þau áhrif að flokkurinn hefur verið öflugur málsvari menntamála og jafnréttis á þinginu, hefur talað máli ungs fjölskyldufólks og hefur t.d. beitt sér mjög til þess að lækka megi kostnað fjölskyldna í landinu. Það er því enginn skortur á ungu og hæfileikaríku fólki í forystusveit Samfylkingarinnar.


En hversu ungur og efnilegur skyldi höfundur Staksteina vera?

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 13. apríl.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand