Brjóttu skattaloforðin, Jens!

Í pólitíkinni jafnast fátt á við vítamínsprautuna sem það er að hitta norræn systkini okkar í UJ. Ekki síst núna, þegar hefur verið erfitt heima við, var gott að hitta fólk sem veit vel hvernig maður byggir upp sterkustu samfélögin.

Í pólitíkinni jafnast fátt á við vítamínsprautuna sem það er að hitta norræn systkini okkar í UJ. Ekki síst núna, þegar hefur verið erfitt heima við, var gott að hitta fólk sem veit vel hvernig maður byggir upp sterkustu samfélögin.

Það ríkti að sjálfsögðu tryllt stemmning á nýliðnu 51. landsþingi Arbeidernes Ungdomsfylkning (AUF), sem eru ungliðahreyfing norska verkamannaflokksins. Hreyfingin er yfir hundrað ára gömul og stærsta ungliðahreyfing landsins. Áhrifin á Verkamannaflokkinn eru mikil og pólitíkin er róttæk.

Á landsþingið, sem haldið er annað hvert ár, komast færri að en vilja og mörg hundruð fulltrúar sitja í salnum í fjóra daga. Það eru auðvitað fastir liðir eins og venjulega – þið vitið, þetta nauðsynlega/leiðinlega: Lagabreytingar og svoleiðis. Fyrst og fremst er samt bullandi pólitík, eldfjörugar umræður, gagnrýni, innblástur, hlátur og góður félagsskapur dag og nótt.

Málefnalega séð kemur ýmislegt frá þinginu, en grundvallarritið í ár er ný stefna AUF í umhverfismálum og sjálfbærni. Umhverfisstefnan er ekki komin inn á heimasíðuna ennþá – fylgist spennt með – en hér eru hinsvegar um 100 ályktanir þingsins í ýmsum málaflokkum.

Forsætisráðherrann og ungliðarnir fjörutíu

Mér fannst sjálfri einna skemmtilegast að fylgjast með á þinginu þegar forsætisráðherrann Jens Stoltenberg kom í heimsókn. Hann hélt náttúrulega ræðu, sem var skemmtileg og var jafn afslappaður og hann er yfirleitt. Meðal annars fór hann vel yfir loforð í menntamálum sem hann hafði gefið AUF fyrir rúmu ári og lýsti áhyggjum sínum af því að fólk drullist ekki til að gera neitt við loftslagsbreytingum áður en það verður of seint. Ókei, líklega orðaði hann þetta smekklegar en ég er ánægð með að að minnsta kosti þessi leiðtogi gerir sér grein fyrir alvöru málsins og vilji bregðast við.

Og hann ræddi auðvitað kreppuna og mikilvægi félagshyggjunnar í því samhengi. Jafnaðarstefnan býr til samfélög sem geta tekist á við svoleiðis.

En það sem mig langar að deila hérna er hið frábæra fyrirkomulag á heimsókn Stoltenbergs til AUF. Eftir að hann hafði talað tók við hátt í tveggja tíma umræða þar sem hver ungliðinn á fætur öðrum sté í pontu og ræddi það sem henni eða honum lá á hjarta við forsætisráðherra. Þetta voru hátt í fjörutíu manns alls. Ýmsir urðu til þess að gagnrýna hann og jafnvel á óvæginn hátt. Þannig ríkti mikil reiði yfir nýlegum breytingum á flóttamannapólitík norsku ríkisstjórnarinnar. “LITLI JENS!” hófst ein ræðan þar sem ræðumanninum Fredrik (sem var ásamt undirritaðri í Palestínu í ágúst) fannst þessi pólitík bera vott um lítilmennsku. “Kæri Jens” byrjuðu þó flest þeirra og komu fjölda punkta á framfæri við ráðherrann, sem sat þolinmóður neðan við sviðið og hlustaði.

Eins var gaman þegar utanríkisráðherran Jonas Gahr Støre mætti í rökræður við hægrisinnaða þingkonu um þróunarmál. Sjálf var ég örlítið utan við mig þegar það fór fram, því eftir rökræðurnar þurfti ég sjálf að halda ræðu. Þær voru samt mjög áhugaverðar og gaman að sjá hversu margar góðar spurningar þau fengu. Í ræðunni minni talaði ég síðan meðal annars um hvernig jafnaðarstefnan hefur núna tækifæri til að hefja sig af alvöru til flugs á Íslandi.

Kæru vinir frá Palestínu, Georgíu, Súdan,.. og Íslandi

Við frá Norðurlöndunum vorum ekki einu gestir Norðmannanna á þinginu þeirra hjá AUF í ár. Reyndar hafa aldrei verið fleiri alþjóðlegir gestir á þingi hjá þeim. Ég var í hópi með fólki frá Palestínu, Georgíu, Armeníu, Möltu, Vestur-Sahara, Súdan, Bhutan og fleiri löndum. Þetta kemur til af því alþjóðastarf AUF er alveg gríðarlega öflugt. Þau eru með þróunarverkefni á mörgum stöðum, þau stærstu í Palestínu, Súdan og Kákasus. Vinna með ungu félagshyggjufólki þar að því að styrkja samtökin þeirra og samfélög. Eitthvað sem ég vil sjá Unga jafnaðarmenn gera í framtíðinni. Norræna samvinnan okkar er orðin nokkuð þétt en það er auðvitað bara eðlilegt fyrsta skref og fleiri sem þurfa að koma þar á eftir.

6 ráðleggingar til forsætisráðherrans og ríkisstjórnarinnar

Martin Henriksen, hinn vinsæli leiðtogi AUF, var endurkjörinn formaður á þinginu og eins Eskil Pedersen sem varaformaður. Mörg okkar úr UJ ættu að muna eftir hans frábæru ræðu á landsþinginu okkar fyrr í mánuðinum. Eskil fylgdi umhverfisstefnunni úr hlaði, en hann hefur haft umsjón með skrifum á henni.

Martin, fyrir hönd AUF, gaf síðan forsætisráðherra ráðleggingar í sex liðum, sem fjallað var um í fréttaflutningi af þinginu. Samkvæmt hefðinni minnir AUF flokksfélaga sína á hvar ræturnar liggja – vinstra megin í pólitíkinni og vill sjá meira rautt. Ráðleggingarnar eru eftirfarandi:

  • Notaðu tækifærin sem efnahagskreppan hefur gefið vinstrimönnum
  • Brjóttu loforðin um skattalækkanir! (Stoltenberg hefur lofað að skattar verði ekki hækkaðir á kjörtímabilinu sem hefst 2009, frekar en því sem nú stendur yfir)
  • Byggðu íbúðir fyrir ungt fólk
  • Náðu skólapólitíkinni til baka. Láttu mæla gæði í skólastarfi út frá öðru en frammistöðu í stöðluðum alþjóðlegum könnunum o.sv.frv.
  • Vertu harðari í loftslagsbreytingabaráttunni. Ekki láta olíuiðnaðinn valta yfir þig.
  • Vertu rauður í gegn. Ekki daðra við miðjuna. Ef Verkamannaflokkurinn á að vinna kosningarnar 2009 þarf fyrst og fremst að virkja kjarnafylgið. Svo þarf hin rauðgræna ríkisstjórn að fá að halda áfram sínum góðu verkum.


Stöndum saman

Sjálfri finnst mér svo ofboðslega mikilvægt að þessi ríkisstjórn haldi áfram um stjórnartaumana í Noregi eftir kosningar 2009. Við jafnaðarmenn á Íslandi eins og hinum Norðurlöndunum eigum að sjálfsögðu að standa við bakið á þeim.

Það er óendanlega mikilvægt að við jafnaðarmenn á Norðurlöndum hjálpumst að við að varðveita og þróa norræna velferðarmódelið – pólitíkina sem hefur búið til heimsins sterkustu samfélög. FNSU, samband norrænna ungra jafnaðarmanna, er nú í markvissri uppbyggingu þar sem áherslan verður á næstunni lögð á norræna módelið. Að auki munum við áfram deila reynslu af pólitíkinni í hverju landi fyrir sig og ekki síst styðja hvert annað með ráðum og dáð þegar á þarf að halda. Við í UJ munum örugglega geta sótt þangað styrk í aðdraganda kosningasigurs Samfylkingarinnar í næstu kosningum á Íslandi.

Heimasíða Arbeidernes Ungdomsfylkning er hér: www.auf.no.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand