PISTILL Þann 25. apríl verður kosið til Alþingis. Þetta verða einhverjar mikilvægustu kosningar sem farið hafa fram hér á landi í kjölfar bankahrunsins í október. Í þessum kosningum verður kosið um hvernig samfélag við viljum búa í næstu fjögur ár og þá framtíð sem við viljum búa börnum okkar og ungu fólki.
PISTILL Þann 25. apríl verður kosið til Alþingis. Þetta verða einhverjar mikilvægustu kosningar sem farið hafa fram hér á landi í kjölfar bankahrunsins í október. Í þessum kosningum verður kosið um hvernig samfélag við viljum búa í næstu fjögur ár og þá framtíð sem við viljum búa börnum okkar og ungu fólki. Er það vilji okkar að byggja upp réttlátt samfélag í anda klassískrar jafnaðarstefnu þar sem jöfnuður, réttlæti og bræðralag er haft að leiðarljósi eða viljum við enn og aftur ganga í gegnum einstaklingshyggju og nýfrjálshyggju Sjálfstæðisflokksins sem skildi við þjóðarbúið í rúst eftir 18 ára stjórnarsetu.
Unga fólkið sem erfa á þetta land þarf að horfa til þess hvernig þjóðfélagið verður uppbyggt næstu árin því þeim verður að vera gert kleift að búa sér heimili fyrir sig og börn sín. Skuldaklafinn sem er nú á herðum allra Íslendinga og atvinnuleysið gerir það ekki freistandi fyrir ungt og vel menntað fólk að setjast að í sínum byggðarlögum heldur leita sér lífsafkomu á erlendri grund.
Ungt fólk verður að sjá að stjórnmálamenn eru meðvitaðir um hlutverk sitt og það sé þeirra starf að bera uppi hagkerfið á næstu árum. Samfylkingin þarf að sýna fram á lausnir og getu sína til að takast á við vandann. Sumir flokkar hafa nú þegar sýnt fram á að þeir hafa brugðist við þessar aðstæður.
Hið efnahagslega hrun sem land og þjóð hefur ekki farið varhluta af hefur gjörbreytt gildismati okkar og áherslum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú gengið í gegnum hugmyndafræðilegt gjaldþrot með nýfrjálshyggju sinni og kominn er tími til að gildi jafnaðarstefnunar um samkennd, réttlæti, samábyrgð og félagshyggju fari að heyrast skýrar en áður. Samfylkingin þarf að enduróma kröfur samfélagsins um endurnýjun, ábyrgð og auðmýkt.
Samfylkingin hefur sýnt í gegnum frábært starf Ungra jafnaðarmanna að hún er flokkur unga fólksins. Ungir jafnaðarmenn hafa barist fyrir málefnum ungs fólks og haft mikil áhrif á málefni þeirra í gegnum lýðræðislega umræðu í flokknum. En til að svo verði áfram er nauðsynlegt að ungt fólk í Samfylkingunni, sem og annað ungt fólk, láti í sér heyra og verði þrýstiafl á að Samfylkingin haldi áfram að vera vettvangur fyrir ungt fólk til að láta ljós sitt skína.
Samfylkingin og Ungir jafnaðarmenn þurfa á stuðningi ungs fólks að halda til að koma sínum góðu málefnum á framfæri. Þinn stuðningur er okkur mikils virði. Vertu með okkur á þessum mikilvægu tímum. Okkar tími er kominn.
Höfundur er frambjóðandi til 5.- 6. sætis á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi.