Með menntamálin í ólestri

Síðustu vikur hefur fjölmiðlafrumvarpið hlotið gríðarlega mikla umfjöllun íslenskra pistlahöfunda og fréttaritara og fátt annað borið á góma meðal Íslendinga. Þetta mál hefur allt saman verið með slíkum ólíkindum að gárungarnir eru farnir að velta því fyrir sér hvort þarna sé um einhvers konar herbragð að ræða; að gera Íslendinga það upptekna að einu máli að fram hjá þeim fari öll önnur vandamál samfélagsins á meðan. Ætli eitthvað sé til í þessu? Spyr sá sem ekki veit. Síðustu vikur hefur fjölmiðlafrumvarpið hlotið gríðarlega mikla umfjöllun íslenskra pistlahöfunda og fréttaritara og fátt annað borið á góma meðal Íslendinga. Þetta mál hefur allt saman verið með slíkum ólíkindum að gárungarnir eru farnir að velta því fyrir sér hvort þarna sé um einhvers konar herbragð að ræða; að gera Íslendinga það upptekna að einu máli að fram hjá þeim fari öll önnur vandamál samfélagsins á meðan. Ætli eitthvað sé til í þessu? Spyr sá sem ekki veit.

Hvað sem því líður þá er eitt af þeim fjölmörgu málum sem miður fer í þjóðfélaginu þessa dagana menntamálin. Staða menntamála á Íslandi fer hrakandi og ef heldur áfram sem horfir verða Íslendingar ekki lengur samkeppnisfærir við nágrannaþjóðir okkar. Lítum á nokkur dæmi og leyfum verkum síðustu þriggja menntamálaráðherra að tala.

Björn
Vissulega var það skref í rétta átt þegar grunnskólinn var færður frá ríkinu til sveitarfélaganna í valdatíð Björns Bjarnasonar. Við það efldist grunnskólinn og aukið sjálfstæði fékkst. Það er þó eins og Björn hafi verið hræddur við að gefa grunnskólunum lausan tauminn því á sama tíma gaf hann út nýja námsskrá fyrir grunnskólana sem er mjög miðstýrandi. Samræmdum prófum var einnig fjölgað og þannig var ýtt undir einsleitni í skólastarfinu.

Tómas
Tómas Ingi Olrich stoppaði stutt við í menntamálaráðuneytinu. Stundaði eins konar afleysingar. Þó tókst honum að koma á samræmdum prófum til stúdentsprófs sem hætta er á að drepi niður fjölbreytni í framhaldsskólanámi. Nú skulu framhaldsskólar ekki lengur miða að því að þroska hvern og einn einstakling og undirbúa hann undir frekara nám eða atvinnulífið. Þess í stað eiga allir að læra sömu algebrudæmin og lesa sömu bækurnar í fjögur ár áður en hægt er að taka sama prófið. Þannig er verið að reyna að steypa íslenska æsku í sama mótið og draga úr öllum frumleika og sköpunargáfu hennar.

Þorgerður
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur reynt eins og hún getur að toppa fyrirrennara sína með annars ágætum árangri. Á vordögum kom upp sú staða að það var bara ekkert pláss fyrir um 600 af hinum nýju nemendum sem langaði til að komast í framhaldsskóla í haust. Þau eru greinilega ekki hröð vinnubrögðin í menntamálaráðuneytinu því það eru 16 ár síðan þessi ungmenni fæddust og nægur hefur tíminn verið til að fyrirbyggja að fjöldi þeirra verði að vandamáli. Einföld lausn hefði verið að byggja eins og einn framhaldsskóla. Þetta eitt virtist þó ekki nægja Þorgerði og hefur hún ráðist í umfangsmiklar aðgerðir gegn háskólastiginu og þá sérstaklega Háskóla Íslands. Ríkisstjórnin skuldar Háskólanum hundruðir milljóna fyrir stúdenta sem þreytt hafa nám við skólann og fjársveltið er orðið það óbærilegt að yfirvöld þessarar ágætu stofnunar eru farin að velta því fyrir sér að taka upp skólagjöld og meiriháttar fjöldatakmarkanir. Nýjasta útspilið í málefnum háskólans er opnunartími Þjóðarbókhlöðunnar, en til stendur að skerða hann verulega þannig að einungis einn dag í viku verði safnið opið til klukkan tíu á kvöldin, en annars einungis til klukkan sjö og enn styttra um helgar. Það er sjálfsögð þjónusta við nemendur að hafa aðgengi að háskólabókasafni góða og sveigjanlega og veikir skerðing á aðgengi samkeppnisstöðu skólans verulega. Þessar aðgerðir koma einungis til vegna skertra framlaga ríkisins til Háskóla Íslands.

Sparnaður efst á lista og menntunin sjálf mun neðar
Við verðum að standa vörð um lýðræðið í landinu og því er umræðan um fjölmiðlafrumvarpið nauðsynleg. Við megum þó ekki gleyma okkur í hita leiksins og líta fram hjá þeim vandamálum sem menntamál á Íslandi standa frammi fyrir, sama á hvaða stigi skólastigsins um er að ræða. Það verður að sporna við hinni annarlegu forgangsröðun sem á sér stað í menntamálaráðuneytinu þar sem sparnaður virðist vera efst á lista og menntunin sjálf mun neðar. Það má ekki gleymast að mennt er máttur og fjárfesting í menntun skilar sér margfalt aftur til þjóðfélagsins, jafnt í auknum hagvexti sem og mannauði.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand