Það hefur verið nöturlegt að fylgjast með farsanum í stjórnmálum landsins síðastliðnar vikur og umræðunum á Alþingi en greinilegt er að stjórnarflokkarnir með leiðtoga sína í fararbroddi ætla að koma fjölmiðlalögunum í gegn á nýjan leik sama hvað fremstu lagaspekingar þjóðarinnar segja. Það hefur verið nöturlegt að fylgjast með farsanum í stjórnmálum landsins síðastliðnar vikur og umræðunum á Alþingi en greinilegt er að stjórnarflokkarnir með leiðtoga sína í fararbroddi ætla að koma fjölmiðlalögunum í gegn á nýjan leik sama hvað fremstu lagaspekingar þjóðarinnar segja.
Farsi og hentistefna
Ekki trúði maður að þessi atburðarás myndi þróast svona, þegar forsetinn neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin og vísaði þeim til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu var hann að virkja þann rétt sem hefur ávallt verið við lýði í stjórnarskrá Íslands, óháð áliti sumra. Það sem átti að gerast næst hefði átt að vera tiltölulega einfalt, þjóðin tæki lokaákvörðun og ef hún samþykkti lögin myndu þau taka gildi en ella fella þau og þá féllu þau alfarið úr gildi. Sá leikur forsætisráðherra og utanríkisráðherra að draga lögin til baka jafnframt því, í sama frumvarpi, að koma fram með „ný“ og endurbætt fjölmiðlalög þar sem tveim málsgreinum er lítillega breytt er með ólíkindum og í fullkominni andstöðu við það sem stjórnarskráin segir en í 26. gr. stjórnarskrárinnar er svo mælt:
„Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.“
Ekki flókinn raunveruleiki
Maður hefði talið að orðalag stjórnarskrárinnar væri ekki svo flókið að skilja, frumvarpið á að fara fyrir dóm íslensku þjóðarinnar sem tekur hina endanlegu ákvörðun. Ríkisstjórnin hefur þá skyldu að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlafrumvarpið sem forsetinn hefur nú þegar synjað staðfestingar. Sá fáránleiki að draga frumvarpið og þannig þjóðaratkvæðagreiðsluna til baka er ótrúleg afbökun á stjórnarskránni og til vansa fyrir Alþingi að koma þessu áfram, en margt er gjört svo forsætisráðherrastóllinn verði öruggur í september. Það verður erfitt að feta í fótspor Sólkonungsins en ég er viss um að erfðaprinsinn muni standa fyrir áframhaldandi og tryggu samstarfi sem byggt er á hlýðni fótgönguliðanna ofar öllu.