Hverjum gagnast landbúnaðarkerfið?

Margir í kringum mig falla í dá þegar minnst er á landbúnaðarmál. Sjálfum finnst mér þetta reyndar áhugaverður málaflokkur því svo margt er hægt að breyta og bæta. Nú þegar fjölmiðlafrumvarpið er í algleymingi er von mín að umfjöllun um landbúnaðarmál sé eins og ferskur vindur. Það má alltaf reyna. Margir í kringum mig falla í dá þegar minnst er á landbúnaðarmál. Sjálfum finnst mér þetta reyndar áhugaverður málaflokkur því svo margt er hægt að breyta og bæta. Nú þegar fjölmiðlafrumvarpið er í algleymingi er von mín að umfjöllun um landbúnaðarmál sé eins og ferskur vindur. Það má alltaf reyna.

Hagfræðin segir
Í hagfræðinni er boðskapurinn skýr. Á mannamáli er hann sá að það felst í því óhagræði að setja lágmarksverð á vöru, að setja kvóta á framleiðslu og að setja tolla á innflutning. Óhagræðið felst í því að aukinn gróði framleiðenda vegna aðgerðanna er minni en aukið tap þjóðfélagsins í heild. En þá spyr maður sig, af hverju er íslenska ríkið að grípa inn í frjálsa samkeppni með styrkjum og höftum? Ríkið styrkir til dæmis sauðfjárrækt, mjólkur- og grænmetisframleiðslu. Þá ákveður verðlagsnefnd heildsöluverð á t.d. mjólk, rjóma og smjöri. Síðast þegar ég athugaði var árið 2004 en nú er ég ekki jafn viss í minni sök.

Kostnaður þjóðfélagsins og opinber stuðningur
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2004 þá eiga um 7,3 milljarðar að fara í greiðslur vegna búvöruframleiðslu. Stærsti hlutinn, eða um 4,4 milljarðar, fer í greiðslur vegna mjólkurframleiðslu. Um 2,6 milljarðar fara svo í greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu og um 300 milljónir fara í greiðslur vegna grænmetisframleiðslu. Þá fá Bændasamtök Íslands, hagsmunasamtök bænda, um 420 milljónir úr ríkissjóði á þessu ári. Eitt af hlutverkum Bændasamtakanna og aðildarfélaga þeirra er að semja við landbúnaðarráðherra um magn á mjólkur- og sauðfjárafurðum sem ríkið ábyrgist að fullt verð verði greitt fyrir. Ríkið er sem sagt bæði að styrkja hagsmunasamtök bænda veglega og að semja við þau fyrir hönd neytenda í landinu. Og fleira skemmtilegt; samkvæmt OECD var opinber stuðningur við íslenska framleiðendur landbúnaðarvara 63% af verðmæti framleiðslunni árið 2000, en 38% í ESB, 22% í Bandaríkjunum og að meðaltali 34% innan OECD. Við sjáum að hér er um háar upphæðir að ræða og í alþjóðlegum samanburði er stuðningur okkar við landbúnaðinn hár. Möguleikarnir á hagræðingu eru því miklir.

Samkeppnisumhverfi landbúnaðarins
Í nýlegri álitsgerð um samkeppnisumhverfi í landbúnaði sem gerð var fyrir landbúnaðarráðuneytið eru settar fram hugmyndir sem ekki eru til þess gæddar að auka samkeppni og hagræðingu í landbúnaði. Í álitsgerðinni er sagt að rök mæli með því að haldið verði áfram að ákveða heildsöluverð á mjólkurafurðum ,,ekki síst í því skyni að halda verði á þessum vörum niðri í smásölu, neytendum til hagsbóta.” Í álitsgerðinni kemur einnig fram enn ein hugmyndin um inngrip ríkisins í virka samkeppni. Hún er sú að setja lágmarksverð á kjöt. Lágmarksverð, hvort sem það er á mjólk eða kjöti, er hvorki neytendum, bændum né þjóðfélaginu til hagsbóta þegar til lengri tíma er litið. Lágmarksverð stuðlar að offramleiðslu. Ég hefði frekar viljað sjá tillögur um að auka samkeppni í landbúnaði þar sem hún er ekki fyrir. Það mætti gera með því að lækka styrkveitingar, lækka innflutningstolla verulega, afnema lágmarksverð og afnema framleiðslukvóta. Með aukinni samkeppni yrði ekki bara stuðlað að hagræðingu og bættri nýtingu á framleiðsluþáttum innan landbúnaðarins heldur einnig lægra matvöruverði.

Nýr mjólkursamningur
Á nýliðnu vori undirrituðu landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra nýjan mjólkursamning við Bændasamtök Íslands. Í grófum dráttum þá skuldbindur samningurinn ríkið til þess að greiða um 27 milljarða frá árinu 2005 til ársins 2012 í beinan stuðning vegna mjólkurframleiðslu. Þetta eru um 4 milljarðar á ári. Mjólk er góð en er hún svona góð? Mér finnst það mikil hneisa að ríkisstjórnin hafi náð að lauma í gegn svo stóru hagsmunamáli í skjóli almenns æsings í kringum fjölmiðlalögin. Með samningnum er verið að ýta undir offramleiðslu og óhagræði í mjólkurframleiðslu næstu 8 árin.

Núverandi landbúnaðarkerfi gagnast örfáum
Ekki má gleyma að í kringum 4500 ársverk eru í landbúnaði og flest hver eru á landsbyggðinni eins og gefur að skilja. Landsbyggðin hefur átt undir högg að sækja á þessari öld og þeirri síðustu og því er spurning hvort hún megi við enn frekari grisjun. Á bak við hvert bóndabýli eru líka fjölskyldur sem hafa tengst búum sínum tilfinningaböndum. En þrátt fyrir okkar dýra landbúnaðarkerfi þá er staða bænda afar slök. Þetta á ekki síst við sauðfjárbændur og það þó þeir séu styrktir af ríkinu. Ég fæ því ekki séð að núverandi landbúnaðarkerfi gagnist neinum nema ef til vill litlum hluta bænda.

Með því að viðhalda núverandi landbúnaðarkerfi eru bændur því miður að grafa sína eigin gröf. Íslenskur landbúnaður á eftir að verða fyrir sívaxandi samkeppni erlendis frá vegna alþjóðlegra skuldbindinga um að minnka stuðning við landbúnað, opna landið fyrir frekari innflutningi og minnka tollavernd. Núverandi landbúnaðarkerfi kemur í veg fyrir hagræðingu sem er nauðsynleg ef íslenskur landbúnaður á að standast þessa samkeppni. Hve langt er í að ríkisstjórnin hafi þor til að takast á við vandann? Því lengur sem hún bíður því stærri verður vandinn. Klukkan tifar.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið