Málum bæinn bleikan!

Fjölmörg félög sem berjast fyrir réttindum kvenna minnast þess að þennan dag árið 1915 fengu konur kosningarétt undir yfirskriftinni Málum bæinn bleikan. Heiðu Björg finnst ekki alveg nógu mikið hafa áunnist í jafnréttismálum núna 91 ári seinna


Fjölmörg félög sem berjast fyrir réttindum kvenna minnast þess að þennan dag árið 1915 fengu konur kosningarétt undir yfirskriftinni Málum bæinn bleikan . Þar eru allir hvattir til að styðja jafnrétti í verki með því að gera eitthvað bleikt í dag, til dæmis klæðast bleiku eða borið eitthvað bleikt, setja bleika útsillingu í gluggann, senda bleikan tölvupóst o.s.frv. Full ástæða er til þess að styðja við þetta frábæra framtak og fagna þeim árangri sem hefur náðst en jafnframt minna á að það vantar mikið upp á að staða kynjanna sé jöfn hér á landi. Íslenskar konur minntu á laka stöðu kvenna þann 24. október í fyrra þegar þær lögðu niður vinnu og fjölmenntu á mótmælafundi, minntu á að konur fá ekki enn sömu laun fyrir sambærilega vinnu og mikið vantar upp á að kynjahlutföll séu jöfn í atvinnulífinu og stjórnmálum.

Allir flokkar drógu upp sparistefnuna fyrir nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar og lögðu áherslu á jafnréttismál. En flestir stjórnmálaflokkar hér á landi minnast einungis á jafnréttismál á tyllidögum og fögur orð gleymd um leið og kosningarnar voru afstaðnar. Einungis þriðjungur sveitarstjórnarmanna konur eftir kosningarnar og mikið vantar upp á að hlutfall kynja í nefndum og ráðum sé jafnt.

Hægri bleikir voru ekki lengi að svipta af sér jafnréttishulunni eftir borgarstjórnarkosningarnar því það er ekki hægt að segja annað en að hlutskipti kvenna við kosningar meirihlutans í ráð, nefndir og stjórnir sé aumt. Eins og Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, benti á í grein sinni í Fréttablaðinu í gær, er staða Björns Inga Hrafnssonar, fylgihnattar hægri bleikra í borgarstjórn, betri en allra átta sjálfstæðiskvennanna í borgarstjórnarflokks íhaldsins. Í átta meginráð borgarinnar kaus meirihlutinn konur í minna en þriðjung sæta og staðan í hverfaráðum borgarinnar er enn verri því þar eru konur einungis í um 14% sæta sem meirihlutinn skipar í, eða í einu af hverjum sjö. Staða kvenna er þó verst hjá fyrirtækjum borgarinnar. Meirihlutinn skipaði enga konu í aðal- eða varasæti hjá Orkuveitu Reykjavíkur, Faxaflóahöfnum eða Sorpu en ein kona komst inn í stjórn Strætó fyrir náð og miskunn.

Eina málsvörn meirihlutans í þessum efnum er sú að konur séu fjölmennar í hópi varamanna nokkurra ráða. Þessi viðbrögð lýsa úreltu viðhorfi til jafnréttismála, viðhorfi þar sem konur eru settar skör lægra en karlar, þar sem konur eru fyrst og fremst skraut og settar í varasæti til þess að jafna kynjahlutföll á pappír en þeim eru ekki fengin nein völd. Sjálfstæðiskonur eru þægar nú sem endranær og gera sér að góðu að fá brauðmylsnuna af veisluborði karlanna. Það er því full ástæða til þess að hafa miklar áhyggjur af þróun jafnréttismála í borginni næstu fjögur ár.

Vinstri grænir voru einnig duglegir að benda á mikilvægi jafnréttis og þátttöku kvenna í kosningabaráttunni. Svo virðist sem þeir dragi jafnréttisfánann einungis að húni á tyllidögum. VG átti kost á sanna stefnu sýna í jafnréttismálum með því að kjósa Svandísi Svavarsdóttur, efstu manneskju á lista VG, í merkustu og voldugustu nefnd borgarinnar, borgarráð, en eðlilegast hefði verið að Svandís yrði kjörinn þar. Hún er hins vegar látin gefa sætið eftir til Árna Þórs Sigfússonar og þar með gefa mikil völd eftir í hendurnar á honum.

Líkt og á öðrum sviðum samfélagsins er gífurlega mikilvægt að konur taki virkan þátt í stjórnmálum. Lýðræði felur ekki eingöngu í sér að uppfylltar séu formlegar kröfur um lýðræði heldur skiptir ekki síður máli að þeir hópar sem eiga hagsmun að gæta komi að ákvarðatökunni og tekið sé mið af ólíkum hagsmunum, sér í lagi hagsmunum minnihlutahópa við ákvarðanatöku hjá stjórnvöldum. Skipulegt misrétti, t.d. kynjamisrétti sem birtist í því að vægi kvenna í stjórnkerfinu er óeðlilega lítið veldur því að sjónarmið og gildi kvenna eru vanmetin í ákvarðanaferli sem annars kann að uppfylla formlegar kröfur lýðræðislegrar ákvörðunar.

Það er skilyrði lýðræðislegra stjórnarhátta að sjónarmið þeirra sem málið varða komi fram og að ekið sé tillit til þeirra skoðana við ákvarðanatöku. Ef konur koma ekki að ákvarðanatöku varðandi atriði sem snertir íslenskt þjóðlíf er lýðræðishalli á samfélaginu. Til þess að ákvarðanir stjórnvalda séu lýðræðislegar er nauðsynlegt að hlutfall kynja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum þeirra sé jafnt og að tekið sé mið af þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem þær hafa fram að færa. Það sama á við hvað varðar fólk af erlendum uppruna, samkynhneigða og aðra minnihlutahópa í íslensku samfélagi.

Val Samfylkingarinnar á fólki í nefndir og ráð borgarinnar sýnir glögglega að hér er á ferðinni flokkur sem leyfir fólki að njóta sín án tillits til kyns. Samfylkingin kaus karl og konu í sín tvö sæti í öllum átta meginráðum nema einni þar sem sitja tvær konur fyrir hönd Samfylkingarinnar. Fyrirtækjasæti skiptast einnig jafnt á milli borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Með þessu hefur Samfylkingin sannað sig sem sá flokkur sem raunverulega berst fyrir réttindum kvenna.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand