Er félagsleg aðstoð baggi?

Samfélagið þarf að búa yfir öryggisneti til að grípa fólk sem verður fyrir áföllum eins og Hildur Edda Einarsdóttir útskýrir


Flestir, ef ekki allir, sem hafa skoðanir á stjórnmálum, hafa einhverjar hugmyndir um réttláta skattheimtu og eðlileg afskipti ríkisins af efnahagsmálum. Sýnist sitt hverjum og sjálfssagt verður aldrei komist að niðurstöðu sem allir geta unað við, þannig að alltaf má búast við deilum á þessu sviði. Í pólitískum umræðum um efnahagsmál takast gjarnan á sjónarmið um hagkvæmni og félagslegt réttlæti, þó svo að reyndar sé ekki sjálfgefið að um andstæða póla sé að ræða. Hagkvæmnirökin fyrir lágri skattheimtu snúast um að lágir skattar skapi frelsi og svigrúm til auðsöfnunar fyrir fyrirtæki og einstaklinga og félagslegu rökin fyrir hárri skattheimtu snúast um það sjónarmið að það sé hlutverk ríkisins að rétta lítilmagnanum hjálparhönd og veita öllum einstaklingum aðgang að grunnþáttum samfélagsins, á borð við heilbrigðisþjónustu, menntun og fleira. Við jafnaðarmenn viljum meina að það sé hagkvæmt að tryggja getu ríkisins til þess að veita slíka þjónustu á meðan hægrimenn hafa aðrar hugmyndir um hagkvæmni. Svo er algengt að fjallað sé um samkeppni, markaðsbresti og réttlætingu ríkisafskipta, deilt um hvort auðsöfnun hinna efnameiri skili sér til þeirra efnaminni og svo framvegis og svo framvegis.

Ætlun mín er ekki að skera úr um hvað sé rétt og hvað ekki þótt ég hafi að sjálfssögðu skoðun á því. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að mótmæla þeirri tilhneigingu sumra pólitískt þenkjandi einstaklinga, að líkja manneskjum við fyrirtæki á markaði og ætla að reikna út hvernig mannlegt eðli tekur mið af þjóðfélagsgerðinni.

Það er nefnilega alveg ótrúlega algengt að sjá og heyra rök gegn félagslegri aðstoð þess efnis að hún letji fólk eða ræni það ábyrgð á eigin gjörðum. Einstaklingum, sem að af einhverjum ástæðum hafa orðið undir í lífinu, er líkt við fyrirtæki á frjálsum markaði sem hafa tekið óskynsamlegar ákvarðanir og farið á hausinn, og því er haldið fram að fólk taki frekar ábyrgð á sínu lífi ef öryggisnet samfélagsins er nógu veikt eða hreinlega ekki til staðar. Það sé með öðrum orðum æskilegt að draga úr stuðningi hins opinbera við fólk sem glímir við erfiðleika á borð við offitu, ofdrykkju, eiturlyfjafíkn, spilafíkn og svo framvegis til þess að hindra að menn missi tök á eigin neyslu eða aðstæðum í kringum sig. Félagsleg aðstoð sé nokkurs konar “gulrót” sem geri menn kærulausa varðandi eigið líf á meðan skortur á henni sé “vöndur” sem enginn vilji verða fyrir barðinu á og leiði til þess að fólk lendi síður í hremmingum.

Önnur eins firra held ég að sé varla til í heiminum. Fólk hefur alltaf hag af því að ástunda heilbrigt líferni og það gerir það enginn að gamni sínu að verða undir í lífinu og þurfa að leita ásjár hins opinbera til þess að ná tökum á því aftur. Einstaklingar eru einfaldlega ekki eins og stjórnendur fyrirtækja sem reikna fyrirfram út kostnað og nyt gjörða sinna og taka síðan skynsamlegar ákvarðanir út frá því. Eitt af því sem gerir okkur mannleg er að við gerum öll mistök, misstór og misalvarleg, en þrátt fyrir þau viljum við ávallt hafa tækifæri til þess að rísa upp aftur. Það er ekki æskilegt að fólk missi aleiguna vegna einhvers konar fíknar, börn alist upp hjá ábyrgðarlausum foreldrum eða að til séu einstaklingar sem sjái sér ekki annað fært en að leita sér hjálpar vegna erfiðra aðstæðna. En það er engu að síður staðreynd að það gerist og á sama hátt og ekki er hægt að losna við vandamál með að banna þau, þá er heldur ekki hægt að losna við þau með því að beita „þeim var nær” aðferðinni og firra ríkinu og skattborgurunum allri ábyrgð á úrlausnum þeirra. Mannlegt eðli er einfaldlega ekki hægt að reikna út með fyrirfram gefinni formúlu. Því eiga allir að fá tækifæri í lífinu –og skulda engum neitt fyrir slíkt.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand