Málfrelsi fyrir alla, nema suma

Í dag er umræðan að vakna um lýðræði Íslands, eða skortinn þar á. Lengst af hefur fólk haft það á tilfinningunni að það sé meira eða minna óþarfi að rífa mikinn kjaft yfir stjórnvöldum, þar sem valdið liggi augljóslega á endanum hjá þjóðinni. Undanfarnir atburðir hafa hinsvegar sannað það fyrir hverjum sem hefur þorað að horfast í augu við það, að lýðræði á Íslandi er vissulega til staðar, en það er nokkuð frábrugðið því sem við höfum haldið. Í dag er umræðan að vakna um lýðræði Íslands, eða skortinn þar á. Lengst af hefur fólk haft það á tilfinningunni að það sé meira eða minna óþarfi að rífa mikinn kjaft yfir stjórnvöldum, þar sem valdið liggi augljóslega á endanum hjá þjóðinni. Undanfarnir atburðir hafa hinsvegar sannað það fyrir hverjum sem hefur þorað að horfast í augu við það, að lýðræði á Íslandi er vissulega til staðar, en það er nokkuð frábrugðið því sem við höfum haldið.

Ég get traðkað niður lýðræðisskipan Íslands, og að lokum þegar viðmælandi minn er kominn í rökþrot er spurt, ,,Hver er þá lausnin?”. Ég hef ekki hugmynd. Þá snýr viðmælandi minn sér aftur að sjónvarpinu og heldur áfram að láta eins og frjáls maður. Hann viðurkennir vandamálið í umræðunni, en mun ekki horfast í augu við það, vegna þess að hann getur ekki lifað í heimi þar sem vandinn er til staðar án sjáanlegrar lausnar. Þetta fyrirbæri heitir afneitun og er nákvæmlega sama hegðun og fíkill sýnir, þegar á vanda hans er bent. Hann vill ekkert hætta að dópa, veit að hann er að dópa of mikið og að eina lausnin sé að hætta að dópa, en þar sem hann getur ekki sætt sig við lausnina, getur hann ekki heldur horfst í augu við vandamálið sem krefst lausnar.

Við erum fíklar, og þörf okkar fyrir frelsi er slík, að við sýnum sömu einkenni vímuefnafíkils þegar á vanda hans er bent; afneitun. Við getum ekki trúað því að við séum ekki frjáls. Við erum einfaldlega ekki hönnuð til þess.

En jafnvel þó að við komumst að þeirri niðurstöðu að við höfum ekki betri leiðir til lýðræðis en þær sem við lifum við núna, verðum við samt að horfast í augu við það sem er í gangi. Við verðum að spyrja okkur hvort þessi öryggiskennd okkar, geti verið fölsk. Ef hún væri það, myndum við aldrei vita það án þess að pæla í því, svo mikið er víst.

Í dag eru raddir um lögleiðingu kannabisefna að verða háværari og háværari, ekki síst vegna þess að kannabisneytendur eru orðnir nógu margir til þess að það heyrist í þeim. Við skulum láta algerlega í friði málefnið sjálft, þar eð ég ætla að fjalla um málfrelsið, án þess að taka afstöðu til löglegrar stöðu kannabisneyslu.

Leyfið mér að segja ykkur stutta sanna sögu. Fyrir örfáum árum var settur á fót vefurinn Cannab.is. Sá vefur varð mjög óvinsæll og sömuleiðis forsvarsmenn hans (enda nokkuð illa að honum staðið). Vefurinn var hýstur hjá ónefndu vefhýsingarfyrirtæki í Reykjavík. Það sem gerðist í kjölfar af því, var að það kom stórt fyrirtæki sem var hjá sama hýsingarfyrirtæki, og hótaði því að hætta viðskiptum við það, ef Cannab.is yrði ekki lokað. Cannab.is hafði fullan löglegan rétt á því að segja nákvæmlega það sem þeim sýndist, en umræðan stoppar þegar tekið er mið af því, að stórfyrirtækið hafði að sjálfsögðu þann rétt að versla við hvaða hýsingarfyrirtæki sem því sýndist.

Auðvitað er ekkert hægt að skikka stórfyrirtækið til að halda áfram viðskiptum við hýsingaraðilann, þar eð sú lausn væri líklega verri en vandamálið sjálft. En það breytir því ekki að við verðum að horfast í augu við það sem er að gerast, jafnvel þó að við höfum engar mögulegar lausnir í sjónmáli. Það sem við þurfum að horfast í augu við, er að valdhafar, hverjir sem þeir eru, stjórna því hvað við segjum. Það er erfitt að trúa því, ég veit að það hljómar eins og samsæriskenning, en hin kenningin, að valdhafar hafi upp úr seinni heimsstyrjöld einfaldlega hætt að misnota vald sitt af engri sérstakri ástæðu, finnst mér enn torkennilegri.

Leyfið mér að kasta fram fullyrðingu. Hver svosem stjórnar þínu lífi, hefur þegar allt kemur til alls, fullkomið vald yfir því hvað þér er kleyft að segja. Nú vinn ég hjá stórfyrirtæki, og ef ég fer niður í bæ og dreifi blöðum sem hvetja til kynþáttahaturs, þá mun vinnuveitandi minn ekki standa kyrr og leyfa því að gerast. Það sem mun gerast, er að þjóðfélagið mun kalla vinnuveitanda minn til húsbóndaábyrgðar, og starfi mínu hjá fyrirtækinu verður tortímt. Það er vegna þess að fyrirtækinu er stjórnað af markaðinum og þjóðfélaginu, og þjóðfélagið virðir ekki skoðanir mínar, og þ.a.l. ekki rétt minn til þess að hafa þær.
Við tækifærið ætla ég að vitna í Voltaire (í minni eigin íslenskri þýðingu), ,,Ég er ekkert hlynntur því sem þú segir, en ég mun verja til dauðans rétt þinn til að segja það”. Þennan hugsunarhátt vantar algerlega á Íslandi.

Hættan á skorti málfrelsis er fyrir hendi, og það eitt og sér, gerir það að verkum að við getum aldrei sagt frá hjartans rótum, að við búum í lýðræðislegu og frjálsu þjóðfélagi, ef við erum ekki reiðubúin til þess að horfast í augu við það, þegar svo virðist ekki vera.

Ég hef margoft bent á nokkra verulega vankanta við íslenskt lýðræði. Ef ég kem á framfæri öllu því sem ég vil breyta, hljóma ég eins og róttæklingur (sem mætti alveg færa rök fyrir að ég sé). Ef ég er hinsvegar EKKI með allan pakkann fyrir framan viðmælanda minn, þá er litið sem svo á að þjóðfélagið okkar sé þegar eins gott og það geti orðið, og að þ.a.l. sé það tíma- og orkusóun að velta sér upp úr því hvernig lýðræði og mannréttindamál Íslands séu.

Og mér er spurn. Hvernig í ósköpunum þykjast menn ætla að tryggja lýðræði og málfrelsi á Íslandi, ef það er ekki varið stans- og þreytulaust? Ætlum við einfaldlega að treysta á það, að þeir sem hafa völdin til þess að berja niður hvaða sjónarmið sem þeim eru ekki að skapi, muni virða réttindi óvina sinna? Síðan hvenær hefur hegðunarmynstur valdhafa verið slíkt? Síðan hvenær hefur bara verið hent upp málfrelsi og lýðræði, og það svo bara fengið að ganga óáreitt af þeim sem hafa óhag af því?

Ef þjóðfélagið í heild sinni er ekki reiðubúið fyrir frjálst mál, þá skiptir engu máli hvort ríkisvaldið sé það eða ekki.

Málfrelsisskortur Íslands er ekki stjórnmálalegur, heldur félagslegur. Við verðum að geta hlustað og meðtekið ólík sjónarmið, en ekki bara sjónarmið innan þess ramma sem við erum sammála um að sé við hæfi. Slíkt málfrelsi er einskis virði, ef við erum ekki tibúin til að gefa óvini okkar sömu réttindi og við krefjumst sjálf. Með óvinum okkar á ég við raunverulega óvini, eins og hryðjuverkamenn, kynþáttahatara, karlrembur og þá sem vilja lögleiða kannabisefni. Okkar mestu óvinir verða að hafa þessi réttindi, því annars erum við að farga okkar eigin. Þetta er vandinn við þessi helvítis mannréttindi, það er nefnilega meira en að nefna það að viðhalda þeim.

Málfrelsið er ekki tryggt í stjórnarskrá til þess að vernda þá sem hafa þegar nógu mikil völd til þess að segja það sem þeim sýnist. Þeir hafa ekkert við réttinn að gera, þar sem þeir hafa getuna, óháð réttinum. Ennfremur höfum við ekkert við réttinn að gera, ef við höfum ekki getuna. Getan er ekki ákvörðuð af orðum stjórnarskrárinnar, hún fjallar bara um réttinn. Getan ákvarðast af viðhorfi almennings til málfrelsis, og viðhorfi þeirra sem hafa veraldlegt færi á að stjórna því sem sagt er.

Ég hætti á að hljóma eins og kommúnisti þegar ég segi; þessir aðilar eru einfaldlega þeir sem eiga mestu peningana. Ég er ekkert á móti rétti þeirra til að eiga peninga, en peningar eru völd. Við vildum óska þess að þeir væru það ekki, en þeir eru það, við verðum að horfast í augu við það. Með því að gefa hverjum sem er réttinn til þess að eignast hvaða magn af peningum sem er, verðum við að horfast í augu við það að með því, erum við að gefa hverjum sem er réttinn til þess að öðlast hvaða völd sem er. Það er þá sem forsjárhyggja ríkisins verður ekki einu sinni umræðunnar verð, með hliðsjón af þeim veraldlegu völdum sem stóreignamenn munu ávallt hafa.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand