,,Það er nefnilega svo að það tekur sinn tíma að byggja upp réttlátt þjóðfélag og eftir þá gengdarlausu einstaklingshyggju sem að á undan gekk er það heilmikið átak.“ segir Lárus Heiðar Ásgeirsson í grein dagsins….Það er óhætt að segja að pirringur hafi einkennt íslenskt þjóðfélag undanfarið. Fólk beið rólegt á þeim uppgangstíma sem einkenndi undanfarin ár, en nú þegar kreppir að er þolinmæðin á þrotum. Þær fréttir sem birtust 1. Maí að aðeins 26% styðji Samfylkinguna sýnir okkur það öðru fremur að tími til aðgerða sé núna. Sá tími var aldrei að eðlilegt geti talist að almenningur væri með brotabrot af launum hálaunaaðalsins og eitt er alveg víst að sá tími er liðinn að landsmenn sitji undir því hljóðalaust. Í ríkisstjórn Íslands er jafnaðarflokkur og hans rödd verður að heyrast og fulltrúar Samfylkingarinnar verða að sýna að þau eru félagshyggjufólk. Samfylkingunni verður refsað fyrir einkaþotuferðir, fyrir sein viðbröð við umróti á fjármálamörkuðum, fyrir hækkun verðlags, fyrir að hafa ekki enn breytt eftirlaunalögunum og fyrir að þora ekki að ýta á Íhaldið varðandi umsókn að Evrópusambandinu. Ekki vegna þess að hún ein ber ein ábyrgð á þessum málum, heldur eru verandi og verðandi kjósendur hennar fólk sem að er ekki sama. Umhyggja fyrir náunganum og samfélaginu í heild eru lykilhugtök í stjórnmálum félagshyggju fólks, en á meðan að málefni þeim tengd eru ekki á dagskrá ríkisstjórnar Samfylkingarinnar er ekki nema von að kjósendur refsi flokknum, þó það sé ekki nema í skoðanakönnun.
Það tekur sinn tíma að taka til
Auðvitað tekur það sinn tíma að taka til eftir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og það þýðir lítið, vitandi að herbergið er grútskítugt, að bíða með að hefjast handa og hvað þá ætla að venjast skítnum. Það er nefnilega svo að það tekur sinn tíma að byggja upp réttlátt þjóðfélag og eftir þá gengdarlausu einstaklingshyggju sem að á undan gekk er það heilmikið átak.
Það fólk sem að tekur þátt í stjórnmálum á okkar litla landi eru nákvæmlega eins manneskjur og við, neikvæð umræða og niðurrifsgagnrýni hjálpa venjulegu fólki ekkert að takast á við vandamál og það sama á við um stjórnmálamennina okkar. Þeir þurfa aðhald, jákvæða gagnrýni og okkar stuðning. Verkefni Samfylkingarinnar hefur aldrei verið mikilvægara, það uppbyggingarverk sem henni var falið eftir síðustu kosningar bíður enn og niðurrif hefur aldrei hentað vel til uppbyggingar, nema á handónýtum hjöllum og það er Ísland sem betur fer ekki.
Verkefni næstu mánaða er auðvitað að koma á stöðugleika og öryggi í fjármálum landsins og gera efnahagsumhverfið okkar sambærilegt því sem þekkist í kringum okkur – evrópuvæða það. Umfram allt er það þó verkefni þingmanna og ráðherra Samfylkingarinnar að koma í veg fyrir að fátækt aukist og sjá til þess að fólkið í landinu þurfi ekki að taka á sig þann brotsjó sem kann að ríða yfir.
Veturinn var stríður en Maísólin er okkar…