Í ár hlutu Barna- og unglingageðdeild Landspítalans og Rannveig Traustadóttir félagshyggjuverðlaunin en Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hlaut heiðursviðurkenningu UJ.
Félagshyggjuverðlaun Ungra jafnaðarmanna voru veitt í gær 1. maí á Hótel Borg. Í ár hlutu Barna- og unglingageðdeild Landspítalans og Rannveig Traustadóttir félagshyggjuverðlaunin en Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hlaut heiðursviðurkenningu UJ.
Starfsmenn Barna- og unglingageðdeild Landspítalans hafa unnið stórkostlegt starf með börnum og unglingum með geðraskanir. Í ár hefur barna og unglingageðdeildin náð að saxa á biðlistanna, en í vetur byrjaði deildin á laugardagskliník og hefur deildin náð að fækka þeim sem eru á biðlista úr 160 niður í 107. Það starf sem starfsmenn Barna- og unglingageðdeild Landspítalans vinna á hverjum degi er ómetanlegt og því eiga starfsmenn Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans skilið að hljóta félagshyggjuverðlaun UJ.
Einnig fékk Rannveig Traustadóttir félagshyggjuverðlaun UJ 2008. Með rannsóknum sínum og störfum í þágu minnihlutahópa hefur Rannveig átt víðtæka aðkomu að því að bæta samfélagið okkar. Innflytendur, fatlaðir, samkynhneigðir og fatlaðir hafa notið góðs af störfum hennar sem hefur átt mikinn þátt í að stuðla að jafnaðara samfélagi á ólíkum forsendum hvers og eins. Rannveig Traustadóttir á því einnig skilið að hljóta félagshyggjuverðlaun UJ.
Loks fékk Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra heiðursviðurkenningu UJ. Í þrjátíu ár á Alþingi hefur Jóhanna aldrei vikið frá jafnaðarhugsjóninni í sínum störfum. Frá því að Jóhanna tók við ráðherraembættinu vorið 2007 hefur hún af skörungsskap hrint ótal mikilvægum verkefnum í framkvæmd sem stuðla munu að betra samfélagi.
Politik.is óskar verðlaunahöfum Rannveigu Traustadóttir, Starfsmönnum Barna- og unglingadeild Landspítalans og Jóhönnu Sigurðardóttur hamingjuóskir með verðlaunin og hvetur þau eindregið að halda áfram því góða starfi sem þau hafa verið að vinna undanfarin ár.