Lýðræðið í borginni

,,Lýðræðið er nefnilega flóknara en að gera hlutina af því maður getur það. Í þessu tilfelli var engin málefnaleg ástæða til að skapa frekari óreiðu í stjórn borgarinnar en sjálfstæðismenn höfðu þegar gert fyrir þremur mánuðum“. Segir Anna Pála Sverrisdóttir formaður Ungra jafnaðarmanna

Á fimmtudaginn streymdu mörg hundruð manns að Ráðhúsi Reykjavíkur til að taka virkan þátt í lýðræðinu. Mikill meirihluti gestanna var mættur til að mótmæla myndun nýs meirihluta. Krafan var að hætt yrði við þar sem nýi meirihlutinn væri óstarfhæfur og myndaður á kolröngum forsendum.


Það sem skiptir mestu máli varðandi atburðina í Ráðhúsinu hinn 24. janúar 2008 er ekki það sem gerðist á áhorfendapöllunum, heldur niðri í fundarsalnum. Það er óumdeilt að þar mynduðu átta kjörnir fulltrúar nýjan meirihluta og að það stríðir ekki gegn lögum. Hins vegar er það vanvirðing við lýðræðið og misbeiting á því valdi sem borgarfulltrúarnir fara með í umboði almennings. Lýðræðið er nefnilega flóknara en að gera hlutina af því maður getur það. Í þessu tilfelli var engin málefnaleg ástæða til að skapa frekari óreiðu í stjórn borgarinnar en sjálfstæðismenn höfðu þegar gert fyrir þremur mánuðum. Þá gerði ósamstaða þeirra að verkum að ekki var hægt að taka ákvarðanir við stjórnina, nema þá um að gefa frá sér eignir borgarbúa og það án þess að bera það undir samstarfsaðilann. Í dag er það ábyrgðarhluti sjálfstæðismanna að hafa myndað „meirihluta“ sem varamenn samstarfsmannsins eru á móti.

Borgarbúum er misboðið og 75% þeirra eru á móti nýja meirihlutanum. Þess vegna mættu svo margir og mótmæltu. Fulltrúar almennings fóru sögulega illa með valdið sem umbjóðendurnir fólu þeim. Þá er ekki nóg að skrifa í Velvakanda. Mótmælin fóru vel fram en athyglisvert er að í stað þess að fagna nýjum meirihluta kjósa stuðningsmenn þeirra sem standa að honum að einbeita sér að mótmælunum. Í stöðunni núna er ekki annað að gera en halda áfram uppi kröftugri andstöðu þess sem hefur betri málstað að verja. Þetta gildir jafnt fyrir okkur sem tilheyrum formlega hinum nýja minnihluta og þann fjölda fólks sem ekki starfar með flokkum en var í Ráðhúsinu eða með í anda á fimmtudaginn. Við erum ekki hætt.

Greinin birtist í fréttablaðinu í gær, 28. janúar 2008

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið