,,Það er hlutverk okkar jafnaðarmanna að rífa íslensk stjórnmál upp á hærra plan, það verður erfitt, en þó ekki útilokað. Ef við höldum okkar striki og setjum málefni okkar á dagskrá, þá mun okkur vegna vel“. Segir Sölmundur Karl Pálsson í ritstjórnarpistli sínum.
Markmið stjórnmála er einfalt. Markmiðið hlýtur að vera að gera samfélagið betra. Það eru þó ekki allir sammála um hvaða aðferðum eigi að beita við að bæta samfélagið. Markmiðið hlýtur þó að vera það sama hjá öllum, hvort sem þeir séu stuðningsmenn Samfylkingarinnar eða Sjálfstæðisflokks, Demókrati eða Repúblikani. Allt það fólk sem stendur að baki stjórnmálasamtökum, hefur það að markmiði að gera umhverfi sitt betra.
Hugmyndin um lýðræði er sú að valdið komi frá fólkinu, og stjórnmálamenn fá umboð frá kjósendum til þess að vinna ákveðna hluti fyrir kjósendur. Umboðinu sem nokkrir stjórnmálamenn fá frá kjósendum fylgir óhjákvæmilega mikil völd. Þessi völd eiga einungis að gera stjórnmálamönnum kleyft að bæta umhverfið ennþá meir, en ekki að vera notuð til eigin framdráttar. Það að gera völd að sérstöku markmiði í stjórnmálum skapar mörg vandamál. Það að stjórnmálaflokkur geri hvað sem er til að komast til valda, sýnir að stjórnmálin eru á rangri leið.
Ef við skoðum söguna, þá hafa stjórnmálamenn aldrei verið dæmdir eftir því hversu mikil völd þeir höfðu á stjórnmálatíma sínum, heldur eru þeir dæmdir eftir því hvernig þeir fóru með völdin.
Hugsjónir sem söluvara?
Einstaklingar með líkar skoðanir hópa sér saman í flokk og berjast fyrir sínum málefnum. Óhjákvæmilega eru ekki allir sammála um allar aðferðir, en þó hafa stjórnmálaflokkar ákveðin grunngildi sem allir geta sameinast um. Grunnhugmyndin er hugsjón flokksins og undir engum kringumstæðum mega stjórnmálamenn láta þessa grunnhugmynd frá sér fara. Ekki einu sinni þó að það gæti þýtt aukin völd. Grunnhugmyndir birtast í málefnum flokkanna. Ef stjórnmálaflokkur ýtir grunnhugmyndum sínum til hliðar og fer að vinna að hugmyndum annarra munu nötra undirstöður hans, og smám saman hrynur grunnurinn. Þetta gerist oft þegar flokkar fjarlægjast grunnhugmyndir sínar, hugmyndir einstaklinganna sem eru bakland flokksins.
Er til í allt – sama hvað það kostar
Hversu langt eru stjórnmálamenn tilbúnir að ganga fyrir aukin völd? Eru stjórnmálamenn tilbúnir til að vinna eftir málefnum annars flokks? Eða eru stjórnmálamenn tilbúnir til að leyfa flokki sem er með töluvert færri atkvæði á bak við sig að fá til að mynda borgarstjórastólinn? Eru menn tilbúnir til að fórna góðum meirihluta fyrir aukinn völd?
Atburðarás síðustu daga í höfuðborg okkar hefur verið lyginni líkust. Í raun hefur þessi atburðarás minnt frekar á Hollywoodmynd eða sápuóperu frekar en stjórnmál. Í raun sýnir þessi atburðarás hversu langt menn eru tilbúnir til að ganga fyrir aukinn völd. Erum við þá komin að kjarna málsins. Gæti það verið að nokkrir íslenskir stjórnmálamenn leiði íslensk stjórnmál á villigötu þar sem valdagræðgin ein skiptir máli? Gæti það einnig verið að undirstöður Sjálfstæðisflokksins séu orðnar það veikar að hann geri hvað sem er til þess að komast til valda, að hann kasti á glæ því sem mikilvægast er í stjórnmálum? Eða búa forystumenn Sjálfstæðisflokksins ekki yfir nægum pólitískum þroska?
Bland í poka
Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn hafi dregið íslensk stjórnmál niður á lægra plan. Undanfarna mánuði hefur flokkurinn átt í vandræðum, bæði innanbúðar og út á við. Hvort sem litið er inn á Alþingi eða á borgina. Þegar flokkurinn missti völdin í borginni var hann í molum, hann hafði lítið að segja og hafði hægt um sig. Flokkurinn gat ekki afborið að vera í minnihluta og sá að hann þyrfti að gera hvað sem er til að komast aftur til valda. Hann kastaði virðingu sinni út um gluggann, rispaði hnén í von um að komast aftur til valda. Honum tókst það sem hann ætlaði sér, að komast til valda, en það er neyðarlegt fyrir jafn stóran og virðulegan flokk að þurfa að beygja sig fyrir töluvert minni flokki til að halda völdum.
Getum við treyst núverandi meirihluta? Mér sýnist að núverandi formaður borgarráðs hafi ekki náð þeim pólitískum þroska að honum sé treystandi. Hvernig fór hið svokallaða REI mál hjá honum? Hann leyndi eða gleymdi mikilvægum upplýsingum um málið, og fékk bakland sitt upp á móti sér þannig að samstarfsmenn klöguðu hann til formanns flokksins. Hann sýnir nú lítinn pólitískan þroska með því að taka upp málefni annars flokks og leyfa minni flokki að leiða samstarfið. Mig minnir nú að Vilhjálmur Þ. hafi sagt að það væri eðlilegt að stærri flokkar ættu að leiða stjórnarsamstarf. En þegar völd eru í boði, þá geta menn greinilega skipt um skoðun.
Það er hlutverk okkar jafnaðarmanna að rífa íslensk stjórnmál upp á hærra plan, það verður erfitt, en þó ekki útilokað. Ef við höldum okkar striki og setjum málefni okkar á dagskrá, þá mun okkur vegna vel.