Lýðræði og almenningsálit

„Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn“ segir í 1. gr. stjórnarskrárinnar okkar kæru. Hvergi er þó farið orðum um það, hvorki í stjórnarskránni né öðrum skráðum lögum að hér skuli ríkja lýðræði. Því held ég samt að fáir myndu neita aðspurðir hvort hér ríkti lýðræði. – Segir Arndís Anna Greinin birtist áður sem aðsend grein
„Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn“ segir í 1. gr. stjórnarskrárinnar okkar kæru. Hvergi er þó farið orðum um það, hvorki í stjórnarskránni né öðrum skráðum lögum að hér skuli ríkja lýðræði. Því held ég samt að fáir myndu neita aðspurðir hvort hér ríkti lýðræði. – Segir Arndís Anna

Ríkir lýðræði á Íslandi?
Fyrir nokkrum árum síðan dvaldi ég á Ítalíu í eitt ár sem skiptinemi. Þetta var á þeim tíma sem áhugi minn á stjórnmálum var að kvikna. Á Ítalíu er mikið um að ungt fólk sé virkt í stjórnmálum og þykir það bæði aðdáunarvert og spennandi. Skilgreining þeirra á að vera virkur í stjórnmálum er hinsvegar eilítið frábrugðin okkar Íslendinga. Þeim Ítölum sem ég komst þarna í kynni við þótti þátttaka í stjórnmálum ekki geta talist mjög virk eins og hún er stunduð hér á Íslandi, þ.e. algerlega án ofbeldis. Bréfaskriftir í blöð og til ráðamanna trúðu þeir engan veginn að gætu borið árangur og skoðanakannanir og annað slíkt töldu þeir ekki líklegt að hefði áhrif á ákvarðanir stjórnmálamanna. Til þess að koma skoðunum sínum á framfæri þyrfti ofbeldi, fjöldamótmæli og óeirðir á almannafæri. Aðeins með þess háttar aðgerðum yrði tekið eftir mönnum og málefnum þeirra.

Mér, friðsömu víkingastelpunni, fannst þetta náttúrulega út í hött og hefur mig síðan langað til að bjóða þeim að koma til Íslands og sjá með eigin augum hversu vel þessi friðsamlega stjórnmálaþátttaka okkar almennu borgaranna virkar. Hér ríkir sko lýðræði. Eða hvað?

Upp á síðkastið, þ.e. undanfarin ár, hefur mikið dregið úr þessari trú minni á að á Íslandi ríki mjög þróað lýðræði. Sífellt fleiri mál hafa komið upp þar sem rödd almennings hefur verið látin sem vind um eyru þjóta af stjórnvöldum. Æ fleiri dæmi verða til um það að stjórnvöld hagi málum eftir eigin geðþótta, án tillits til og jafnvel þvert á vilja þjóðarinnar.

Háttvirtur forsætisráðherra lét þá endemi út úr sér við pallborðsumræður um áramótin síðustu, aðspurður um ákvarðanir ríkisstjórnarinnar varðandi Kárahnjúkavirkjun, að um málið hefði náðst sátt. Hvernig það, þegar þjóðin skiptist tiltölulega jafnt í tvær andstæðar fylkingar, getur mögulega kallast sátt er mér hulið.

Á síðasta ári tóku örfáir umboðsmenn þjóðarinnar það í hendur sér, að þjóðinni fornspurðri, að styðja innrás Bandaríkjamanna í Írak fyrir hönd okkar. Ég leyfi mér að ætla að þeir menn sem hér um ræðir deili hugmyndum sínum um sátt með forsætisráðherra og telji að um það mál hafi einnig náðst sátt.

Unga sjálfstæðiskonu heyrði ég tala um það um daginn að henni þætti sem vinstri menn teldu jafnrétti til náms vera á meðal sjálfgefinna mannréttinda og fannst henni þetta hin mesta frekja. Það vottar einmitt fyrir þessu viðhorfi, þykir mér, í málflutningi margra svokallaðra hægrimanna hérlendis, að barátta fólks fyrir bættum lífskjörum í landinu sé „bara frekja“.

Það er einmitt fyrir þessa „frekju“ fólks að hér á landi ríkir lýðræði. Það sem þessi stúlka og margir skoðanabræður hennar líta á sem „frekju“ er ekki annað en vilji þjóðarinnar eða að minnsta kosti hluta hennar þegar að því kemur að skipuleggja í kringum sameiginlega hagsmuni okkar.

Almenningsálitið
Oftar en einu sinni hef ég heyrt svo til orða tekið að Samfylkingin sé „stefnulaus flokkur sem eltir bara almenningsálitið“. Það vildi svo skemmtilega til að þó svo að þessari lýsingu á Samfylkingunni hafi verið ætlað að vera niðrandi þá fannst mér umsögnin að hluta mjög jákvæð. Að mínu mati er nefnilega nokkuð til í þeirri fullyrðingu að Samfylkingin „elti almenningsálitið“. Það er tilhneiging hjá sumum stjórnmálamönnum í dag að líta á kjósendur sem „heimskan almúgann“, að hann viti í raun ekkert um það hvað honum sjálfum sé fyrir bestu. Í Samfylkingunni er hlustað á raddir fólksins og áhersla lögð á þetta mikilvæga fyrirbæri sem mörgum íslenskum hægrimönnum virðist oft líka heldur illa, lýðræðið.

Það er ekki undir náttúröflunum komið hvers konar stjórnarhættir eru viðhafðir í þessu landi. Það er undir okkur sjálfum komið og við höfum valið lýðræði. Styðjum nú við bakið á lýðræðinu. Það þarf á okkur að halda.

Arndís Anna Gunnarsdóttir, lögfræðinemi við Háskóla Íslands.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand