Loksins er þetta búið

Landsmenn eru væntanlega velflestir komnir með upp í kok af stjórnmálum eftir kosningabaráttu undanfarinna mánaða. Nú þegar kosningarnar eru afstaðnar er hins vegar gaman að líta aðeins til baka og spá í hvers vegna fór sem fór, hvað réði því hvaða flokkar stækkuðu og á kostnað hverra? Þá eru þessar blessuðu kosningar að baki og lífið fer vonandi að komast í einhverjar eðlilegar skorður á ný. Öfugt við það sem mörg okkar höfðum vonast eftir er ekki von á miklum breytingum, stjórnin heldur áfram, e.t.v. með einhverjum hrókeringum ráðuneyta og eflaust mannabreytingum líka. Eðli málsins samkæmt fór mánudagurinn, eftir frekar timbraðan sunnudag, í ýmsar bollaleggingar um niðurstöður kosninganna og hvað þær þýði fyrir hvern og einn stjórnmálaflokkanna. Eins og nærri má geta sýnist sitt hverjum um hvernig beri að skýra úrslitin og líkt og oft áður er engu líkara en allir hafi farið með sigur af hólmi.

Það er því ekki úr vegi að fara á handahlaupum yfir pólitíska sviðið og spá í niðurstöður kosninganna. Öfugt við flesta aðra sem verið hafa að spá og spekúlera ætla ég ekki að einbeita mér að því hver sé þýðing þessara úrslita, heldur ætla ég frekar að reyna að skoða hvers vegna niðurstaðan varð sú sem raun bar vitni. Þeir sem lesa áfram eru beðnir að gera svo með þeim formerkjum að þessi umfjöllun gæti orðið örlítið léttúðugri en margt af þeim hátimbruðu kenningum sem fæddust og voru fóstraðar í gær, mánudag. Athugið jafnframt að undirritaður eyðir aðeins púðri í þá sem náðu inn á þing og munu þannig koma að landsstjórninni með einhverjum hætti næstu fjögur árin.

B – Framsóknarflokkurinn
Að margra mati var Framsókn sigurvegari kosninganna, þó að flokkurinn tapi (óverulegu) fylgi frá kosningunum 1999. Þingmannafjöldinn stendur í stað, þannig að líklega stendur flokkurinn í stað líka. Tal um varnarsigur flokksins byggir á algerlega afleitri útreið hans í skoðanakönnunum allt fram á allra síðustu vikur kosningabaráttunnar, þar til að hann fór að rétta úr kútnum (eins og alltaf) í apríl. Það er þó jákvætt að endurnýjun í þingliði flokksins er nokkur (3 nýir af 12) og kannski tekst þessu nýja fólki að losa flokkinn við stimpil bitlingapólitíkur og lykt af grænum baunum.

Mögulegar ástæður:
Jákvæð og fyndin kosningabarátta rekin á léttum nótum, líklega mesta auglýsingapresens allra flokka, traustvekjandi nýtt fólk, árangur!!

Athyglisverður punktur:
Birkir Jón Jónsson er aðeins 23 ára gamall og enginn nema Gunnar Thoroddsen hefur verið yngri við upphaf þingferils.

D – Sjálfstæðisflokkurinn
Kosningabandalag frjálshyggjumanna, íhaldsmanna og LÍÚ er sigurvegari kosninganna – eða tapari, allt eftir því hvernig litið er á málið og hver túlkar. D er sigurvegari kosninganna út frá þeirri einföldu rökfræði að sigurvegarinn er ævinlega sá sem ber mest úr býtum en um leið tapar flokkurinn langmestu allra flokka eða 7%. Íhaldið fer úr 40,7% fylgi árið 1999 í 33,7% nú. Þetta þýðir að 17,2% þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn fyrir fjórum árum vildu ekki fá hann áfram.

Mögulegar ástæður:
Flokkurinn er smá saman að einangrast lengst til hægri í íslenskri pólitík, hrun kvenna í prófkjörum flokksins, einsleitir frambjóðendur (4 nýir þingmenn í Reykjavík og kraganum: 4 karlmenn á fertugsaldri, 3 lögfræðingar, 2 vinnufélagar á sömu lögfræðistofunni!!) eða bara myndin af BB á heimasíðu flokksins!

Athyglisverður punktur:
Á lögfræðistofunni Lex starfa 28 manns eða u.þ.b. 0,01% þjóðarinnar. Stofan kemur til með að hafa sterka viðveru á þingi með tvo fulltrúa í þingflokki sjálfstæðismanna. Konur 58 ára og eldri eru aftur á móti um 26.000 á Íslandi eða um 9% þjóðarinnar. Þær eiga engan fulltrúa í þingliði íhaldsins.

F – Frjálslyndi flokkurinn
Samkvæmt fulltrúum Frjálslynda flokksins hefur hann nú fest sig í sessi hægra megin við miðju íslenskra stjórnmála. Sé miðað við síðasta klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum og líftíma þess má vera að þetta sé rétt en ég vil nú leyfa þeim að fara í gegnum einar kosningar enn áður en ég slæ einhverju á fast um framtíð flokksins. Hann á t.a.m. alveg eftir að sýna fram á að hann sé ekki eins máls flokkur og mistókst það líklega í þessari kosningabaráttu. Það er líka svolítið sniðugt að þrátt fyrir að vera minnsti flokkurinn á þingi hefur Frjálslynda flokknum verið hampað nokkuð sem sigurvegara kosninganna. Það byggist á því að þeir stækkuðu flokka mest, fóru úr tveimur þingmönnum í fjóra.

Mögulegar ástæður:
Gríðarleg óánægja mikils meirihluta landsmanna með núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, Frambjóðendur komu til dyranna eins og þeir voru klæddir en ekki uppstrílaðir af einhverjum ímyndarfræðingum, Sverrir Hermannsson er hættur!!

Athyglisverður punktur:
Eftir því sem næst verður komist vantaði Frjáslynda flokkinn aðeins 13 atkvæði til þess að vinna jöfnunarmann af Framsókn. Það virðist hins vegar ekki ljóst hvort að sá lendir í Reykjavík N eða S. Svo töluðu menn um að gömlu kosningalögin hefðu verið flókin!

S – Samfylkingin
Samfylkingin bætir við sig 4 þingsætum og rúmlega 4%. Samfylkingin er því sá flokkur sem stækkaði mest og getur samkvæmt því gert tilkall til þess að teljast sigurvegari kosninganna. Á hinn bóginn er Sjálfstæðiflokkurinn með meiri þingstyrk þannig að Samfylkingin er ekki sigurvegari samkvæmt hinu einfalda viðmiði um fjölda þingmanna. Þá er líka ljóst að ef aðferð framsóknarmanna er notuð (að reikna sig upp í sigur út frá slöku gengi í skoðanakönnunum) þá hefur Samfylkingin tapað því að aðeins örfáum mánuðum fyrir kosningar var hún að mælast á bilinu 35-40% og flokka stærst. Kannanir eru hins vegar ekki kosningar og því held ég mig hér við það að Samfylkingin hafi unnið verulega á en þó ekki sigur. Eftir stendur að meginmarkmiðið um að fella ríkisstjórnina náðist ekki auk þess sem Ingibjörg Sólrún endaði nokkuð dramatískt utan þings.

Mögulegar ástæður: +
Glæsilegir frambjóðendur, góð stefnumál, valdaþreyta ríkisstjórnarinnar

Mögulegar ástæður: –
Of mikil áhersla á fólk á kostnað málefna, full neikvæð barátta á köflum, ekki tókst að höfða nægilega skýrt til „hins dæmigerða millistéttarfylgis“, ótrúlega óvægin, rætin og óheiðarleg umfjöllun um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur – umfjöllun sem oftast átti ekkert skilið við stjórnmál.

Athyglisverður punktur:
Af 20 þingmönnum Samfylkingarinnar eru 9 konur eða 45%. Af konum á þingi (alls 19) á Samfylkingin 47,4%. Ekki slæmt það!

U – Vinstri grænir
Hvað sem líður öllum hártogunum um tapara og sigurvegara í pólitík hlýtur VG að vera í síðasta sæti. Stjórnarandstöðuflokkur sem tapar fylgi og þingmanni er greinilega að gera eitthvað mjög vitlaust. Ekki vantaði málin en eitthvað klikkaði greinilega. Hvort að það var áhugaleysi kjósenda gagnvart umhverfismálum, „góðærið“ eða þung barátta með mjög neikvæðum undirtón skal ósagt látið. Steingrímur J. var hins vegar með svörin á hreinu (hann verður ekki oft orðlaus) þegar hann var spurður hvers vegna VG tapaði: „Það var Samfylkingunni að kenna“ sagði skörungurinn mikli! Mér varð hins vegar hugsað til rebbans í dæmisögum Esops sem sagði súr eru þau og hátt hanga þau um vínberin sem hann vissi að héngu vel utan seilingar.

Mögulegar ástæður:
Mjög neikvæður tónn (engar lausnir, bara vandamál), pólitísk einangrun í stóriðju- og atvinnumálum, öldungis furðulegt útspil í formi bæklings um kynferðislegt ofbeldi (20% karla eru nauðgarar!)

Athyglisverður punktur:
Þingflokkur VG er sá eini þar sem engin nýliðun varð – allir þingmenn flokksins á nýju kjörtímabili sátu einnig einnig á þingi fyrir kosningar.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand