Mörg tíðindi og merkileg urðu í kosningunum á laugardaginn. 1. Samfylkingin fékk 31% atkvæða. Það hefur ekki gerst síðan 1931 að annar flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn rjúfi 30% múrinn. Samfylkingin er komin upp að hliðinni á Sjálfstæðisflokknum hvað varðar fylgi og þingstyrk.2. Samfylkingin varð stærst í tveimur kjördæmum, Suðurkjördæmi og Reykjavík norður. Það hefur aðeins einu sinni gerst síðan hlutfallskosningar í stórum kjördæmum voru teknar upp 1959, að annar flokkur en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafi verið stærsti flokkur í kjördæmi.3. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 7%… Mörg tíðindi og merkileg urðu í kosningunum á laugardaginn.
1. Samfylkingin fékk 31% atkvæða. Það hefur ekki gerst síðan 1931 að annar flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn rjúfi 30% múrinn. Samfylkingin er komin upp að hliðinni á Sjálfstæðisflokknum hvað varðar fylgi og þingstyrk.
2. Samfylkingin varð stærst í tveimur kjördæmum, Suðurkjördæmi og Reykjavík norður. Það hefur aðeins einu sinni gerst síðan hlutfallskosningar í stórum kjördæmum voru teknar upp 1959, að annar flokkur en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafi verið stærsti flokkur í kjördæmi.
3. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 7% atkvæða og missti fjóra þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aðeins tvisvar fengið lakari kosningu.
4. Framsóknarflokkurinn fékk 17,7% atkvæða. Hann hefur aðeins tvisvar fengið verri kosningu – samt í raun aðeins einu sinni af því að atkvæðatala flokksins kom ekki að öllu leyti fram 1956 vegna samkrulls með Alþýðuflokknum.
5. Hægt er að mynda tveggja flokka stjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokksins. Það hefur ekki gerst síðan 1942 að því er best verður séð.
Skilaboð kjósenda eru skýr
Stjórnarflokkarnir töpuðu samanlagt 7,7% atkvæða, fóru úr 59,1% í 51,4%. Fjórir þingmenn fyrir borð. Í kosningunum 1999 töpuðu þeir tveimur þingmönnum og hafa því sex þingmönnum færra nú en 1995-1999. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa aðeins tvisvar haft minna samanlagt fylgi. Kjósendur vilja því greinilega breytingar og hafa búið til þann möguleika að hægt er að mynda samstjórn Samfylkingar og Framsóknarflokks. Þótt sú stjórn myndi ekki hafa rúman meirihluta, þá er meirihluti samt meirihluti. Samfylkingin myndi ganga samhent og einbeitt til slíkrar ríkisstjórnarþátttöku.
Sjálfstæðismenn fengu rauða spjaldið
Samfylkingu og Framsóknarflokki ber skylda til að reyna af fullri alvöru að mynda meirihlutastjórn sem innleitt getur ný vinnubrögð og nýjar áherslur í íslenska pólitík. Annað væri hreinasta óvirðing við kjósendur sem gáfu Sjálfstæðisflokknum rauða spjaldið í þessum kosningum.