Lög Ungra jafnaðarmanna á Suðurnesjum

I. Heiti, heimili og markmið

1. grein
Nafn félagsins er Ungir jafnaðarmenn á Suðurnesjum og er félagið aðildarfélag að Ungum jafnaðarmönnum sem er ungliðahreyfing Samfylkingarinnar. Félagið skal vera bundið lögum Ungra jafnaðarmanna. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjanesbæ.

2. grein
Félagið er opinn og lýðræðislegur vettvangur fyrir skapandi umræður og félagsstarf ungs jafnaðar- og félagshyggjufólks.
Félagið hefur það markmið að efla nýsköpun og frumkvæði ungs jafnaðar- og félagshyggjufólks með því að stofna til víðtækra skoðanaskipta, umræðna og málefnavinnu, einkum í málaflokkum sem varða líf ungs fólks, sem byggja á grunnhugmyndum jafnaðarstefnunnar um frelsi, jafnrétti, og bræðralag.
Félagið hefur það markmið að auka samskipti og samkennd ungs jafnaðar- og félagshyggjufólks með öflugu félagsstarfi og útgáfu.
Félagið aðhyllist lýðræðislegt þjóðskipulag byggt á virkri þátttöku almennings, valddreifingu, fyllstu mannréttindum og félagslegu réttlæti.

II. Aðild að Ungum jafnaðarmönnum á Suðurnesjum

3. grein
Aðild að félaginu geta átt allir einstaklingar á aldrinum 16 – 35 ára sem hafa lögheimili á félagssvæðinu og sem vilja vinna að framgangi félagshyggju og jafnaðarstefnu og gangast undir lög þessi.

4. grein
Félagið skal senda skýrslu um starfsemi sína, félagatölu og fjárhag að loknum hverjum aðalfundi. Framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna á landsvísu getur óskað eftir slíkri skýrslu á öðrum tímum ef þurfa þykir, svo sem þegar velja skal fulltrúa á landsþing.

III. Aðalfundur
5. grein
Aðalfundur skal halda árlega og skal að jafnaði halda eigi síðar en 1. nóvember.

6. grein
Aðalfund skal boða af stjórn félagsins skriflega og/eða með tölvupósti til aðildarfélaga og með fréttatilkynningu minnst 5 dögum áður en hann er haldinn. Í þeirri tilkynningu komi fram dagsetning og fundarstaður aðalfundar.
Aukaaðalfund skal halda ef meirihluti stjórnar eða fimmtungur félagsmanna telur ástæðu til.

7. grein
Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:
Setning.
Kosning starfsmanna fundarins, forseta, fundarritara og uppstillingarnefndar telji stjórn þörf á því.
Skýrsla stjórnar og umræður.
Skýrsla gjaldkera og umræður, samþykkt reikninga.
Ákvörðun um félagsgjald
Umræða og afgreiðsla ályktana.
Lagabreytingar.
Kosning í embætti.: Stjórn félagsins: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, og tveir meðstjórnendur, sbr. þó 8. gr. tveir endurskoðendur reikninga. auk þess skal kjósa þrjá varamenn í stjórn.
Önnur mál.
Þingslit.

8. grein
Aðalfundur getur ákveðið að ekki verið kosið í einstök embætti í stjórn heldur að nýkjörin stjórn skipti með sér verkum á fyrsta fundi sínum.

9. grein
Úrslitum mála á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða nema kveðið sé á um annað í lögum þessum.
Berist ekki mótframboð í embætti sbr. 7. gr. er sjálfkjörið í það embætti.
Við kosningar eru þeir réttkjörnir sem flest atkvæði fá. Verði atkvæði jöfn í framboðskosningum þá ræður hlutkesti. Þó skal formaður vera kosinn með meira en helming greiddra atkvæða. Hljóti enginn slíkan atkvæðafjölda við formannskosningu skal kosið á ný milli tveggja efstu frambjóðanda.
Allar kosningar á aðalfundi skulu vera skriflegar sé þess sérstaklega óskað.
Öll embætti félagsins eru kosin til eins árs í senn nema annað sé tekið fram.

IV. Stjórn og málefnanefndir

10. grein
Stjórn félagsins fer með æðsta vald félagsins milli aðalfunda.

11. grein
Stjórn félagsins sér um daglegan rekstur félagsins, framkvæmd ályktana aðalfundar, annast tengsl við aðildarfélög og vinnur að eflingu félagsstarfsins.

12. grein
Æskilegt er að stjórn félagsins starfræki málefnanefndir milli aðalfunda um helstu málaflokka. Málefnanefndir móta stefnu félagsins í hinum ýmsu málum. Málefnanefndir skulu vera skipaðar a.m.k. formanni og varaformanni sem stjórn félagsins skipar. Stjórnir málefnanefnda eru ábyrgar fyrir starfi þeirra en öllum félagsmönnum er heimilt að taka þátt í starfi þeirra. Fundir nefndanna skulu kynntir félagsmönnum með auglýsingum hvort sem er í fjölmiðlum eða á vefriti samtakanna.

13. grein
Stjórn félagsins skal meðal annars skera úr um deilumál, taka stefnumál til meðferðar og skipa í þau embætti sem kunna að losna á milli aðalfunda.

14. grein
Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Formaður boðar til þeirra og stýrir þeim nema annað sé ákveðið. Formaður fer með oddaatkvæði ef atkvæði verða jöfn. Stjórnarfundi skal að jafnaði boða með tveggja sólarhringa fyrirvara. Óski fjórðungur stjórnar eftir fundi ber að halda hann innan viku frá því formanni berst slík ósk skriflega.

15. grein
Stjórn félagsins getur sent frá sér ályktanir um málefni sem eru í anda samþykktrar stefnu félagsins.

16. grein
Enginn getur skuldbundið samtökin fjárhagslega án skriflegs samþykkis gjaldkera og formanns.

V. Lagabreytingar

17. grein
Lögum þessum er aðeins hægt að breyta á reglulegum aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn minnst 3 dögum fyrir upphaf aðalfundar og skulu þær liggja frammi til kynningar hjá stjórn síðustu 2 dagana fyrir aðalfund.
Tvo þriðju hluta atkvæða á aðalfundi þarf til að lagabreytingatillögur fái samþykki.

VI. Gildistaka

18. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand