Hugleiðing um varnarmál

Við búum á óvissutímum. Landanum er haldið utan við viðræður ríkisstjórnar Íslands við ríkisstjórn Bandaríkjanna og við fáum lítið að vita hvort Varnarliðið verði áfram eða hvort það sé á förum? Erum við í öruggum heimi eða stafar að okkur hætta frá einhverjum? Er varnarstöðin í Keflavík það sem hefur tryggt öryggi okkar í gegnum tíðina eða hefur hún verið ógnun við tilveru okkar? Eru hinar hefðbundnu landvarnir ófullnægjandi þegar kemur að staðföstum hryðjuverkamönnum sem láta ekkert stöðva sig? Er það öryggi sem íslensk stjórnvöld telja sig búa við með Keflavíkurstöðinni aðeins tálsýn? Við búum á óvissutímum. Landanum er haldið utan við viðræður ríkisstjórnar Íslands við ríkisstjórn Bandaríkjanna og við fáum lítið að vita hvort Varnarliðið verði áfram eða hvort það sé á förum? Erum við í öruggum heimi eða stafar að okkur hætta frá einhverjum? Er varnarstöðin í Keflavík það sem hefur tryggt öryggi okkar í gegnum tíðina eða hefur hún verið ógnun við tilveru okkar? Eru hinar hefðbundnu landvarnir ófullnægjandi þegar kemur að staðföstum hryðjuverkamönnum sem láta ekkert stöðva sig? Er það öryggi sem íslensk stjórnvöld telja sig búa við með Keflavíkurstöðinni aðeins tálsýn?

Hvaða ætlar Davíð að draga út úr Bush?
Ég tel fyrir víst að niðurstaða viðræðanna sé nú þegar ákveðin af hálfu Bandaríkjanna, þ.e. frekari niðurskurður. Við komum til með að sjá á eftir F-15 þotunum og þar með þyrlubjörgunarsveitinni líka í mjög náinni framtíð. En mér er fyrirmunað að sjá fyrir hvaða hlutverki Keflavíkurflugvöllur komi til með að gegna fyrir Bandaríkin í framtíðinni, hvort þeir vilja viðhalda honum sem liðsflutninga- og birgðastöð eða hvort herstöðinni verði lokað og hún jafnvel rifin.

Eigum við óvini?
Nú þegar rúmur áratugur er liðinn frá lokum Kaldastríðsins og flest öll Varsjár-bandalagsríkin eru á leið eða kominn inn í Nató þá er mér ómögulegt að sjá nokkra þá þjóð eða öfgahóp í heiminum sem er uppsigað við íslensku þjóðina. Eða öllu heldur áður en stjórnvöld skipuðu okkur í sveit með árásaraðilum í Íraksdeilunni, en þá var ekkert slíkt í augnsýn.

Eru Íslendingar á réttri leið?
Vegna þess að við búum ekki yfir þeim hermætti eða fjármagni að við getum með einhliða ákvörðunum raskað tilveru annarra þjóða á þann hátt sem við höfum séð gert með innrásum, valdaránum, launmorðum og skyndiárásum á síðustu 50 árum þá höfum staðið utan þeirrar ógnarþróunar sem Bandaríkin virðast vera rækilega flækt í, þ.e. þar til nú að stjórnvöld tóku án samráðs við Alþingi gerræðislega ákvörðum um gjörbreytta utanríkisstefnu.

Keflavík var skotmark
Hægri menn á Íslandi og miðjumenn höfðu síðustu hálfa öld litið á viðveru bandarísks herliðs hér á landi sem tryggingu gegn Rússagrýlunni sem hefur verið þar til nýlega það skápaskrímsli sem stjórnmálamenn notuðu til að hræða kjósendur til hinnar eða annarar stjórnmálastefnunnar. Ég lít þannig á málið að við höfum skapað okkur falskt öryggi með þessari skoðun, því Keflavíkurstöðin var eina ástæðan fyrir því að Sovétríkin sáu ástæðu til þess að beina að okkur kjarnavopnum. Um leið getið þið verið í engum vafa um það að ef þeim hugnaðist að senda fjórar bombur á Keflavík þá munaði þeim ekki um nokkrar til viðbótar til þess að tryggja að Reykjavíkurvöllur yrði ónothæfur líka.

Erum við skotmark?
Miklar vangaveltur eru uppi hér á landi um öryggi okkar. Stjórnvöld telja að við getum ekki verið án loftvarna, en ég er á annarri skoðun. Við þurfum ekki að hafa þotur hér að staðaldri, rétt eins og við höfum lítið með litla og léttvopnaða hersveit að gera. Vissulega má benda á það að það þurfi ekki stóran hóp vopnaðra manna til að hertaka skerið, en þá segji ég á móti við höfum ekkert hér sem gæti orðið hryðjuverkamönnum of freistandi skotmark. Ég sé það t.a.m. ekki fyrir mér að nokkur maður myndi vilja fórna lífi sínu til að fljúga farþegavél á Hús Verslunarinnar.

Erum við þjófsnautar?
Dómsmálaráðherra sagði í sjónvarpi á dögunum að það væru til einstaklingar í samfélaginu sem stunduðu innbrot og að hann hafi gert ráðstafanir til að tryggja öryggi á sínu heimili með öryggiskerfi frá sérhæfðu fyrirtæki hér í borg. Þrátt fyrir það býst hann ekki sérstaklega við innbroti á sitt heimili. Hann var að líkja öryggismálum þjóðarinnar við heimili sitt, hann vildi meina að það væri sambærilegt að hafa herinn hér og að hafa samning við Securitas um gæslu á heimilinu. En þá spyr ég eins og sá sem ekkert veit – myndir þú lesandi góður vilja hafa öryggisgæslufyrirtæki inni á heimilinu sem borgaði með sér, myndir þú treysta þeim, og þá sérstaklega eftir að fyrirtækið hefur staðið fyrir innbroti inn í annað heimili, og er þar að hamast við að bera fjölskyldusilfrið út?

Maður uppsker aðeins það sem sáð er til
Ég velti því líka fyrir mér hvaða ríki það eru sem eru í kringum okkur sem valda þessari hræðslu hjá yfirvöldum, ég geri það vegna þess að ég ætlast til þess af yfirvöldum að þau viti jafnvel og við hin að það er ekki hægt að berjast við hryðjuverkamenn með hervaldi, Bandaríkin gátu ekkert gert í New York nema sópað saman ruslinu eftir 11. september. Ekkert ríki í heiminum hefur hermátt til að sigra Bandaríkin í Bandaríkjunum, en samt tókst 20 einstaklingum að fremja þetta voðaverk. En Ameríkanar hefðu aldrei þurft að sópa neinu saman ef þeir hefðu haft aðra utanríkisstefnu síðustu 50 árin. Utanríkisstefnu sem skapar ekki jarðveg fyrir öfgahópa sem eru tilbúnir til að leggja allt í sölurnar til að fá að veita “heimsvaldaskrímslinu” eina stungu í mjúkan kviðin.

Terror 102
Tilgangur hryðjuverka er að valda ótta með eyðileggingu, og við sjáum það að ef öfgahópur myndi ráðast á varnarlausa þjóð með dauða og eyðileggingu til þess eins að valda hræðslu í heimsbyggðinni þá væri það tímasóun. Af því að það hefði ekki þau áhrif sem árás á skotmörk sem almenningur heldur að séu vel varin, t.d. ísraelskar rútur og biðraðir, rússneski herinn, New York borg eða Pentagon. Það yrði heldur engum hryðjuverkamanni til heiðursauka að ráðast á land án varna. 11. september 2001 benti okkur hins vegar einungis á það ef svo ómögulega vildi til að við yrðum skotmark hryðjuverkamanna þá væri árásin yfirstaðin áður en bandarískt varnarlið gæti sagt simsalabimm, og þá skiptir engu máli hvort það væri staðsett í Hljómskálagarðinum, Keflavík, Skotlandi eða á austurströnd Bandaríkjanna.

Ábyrgð og forgangsröðun
Vissulega er það hverrar fullvalda þjóðar að axla ábyrgð á eigin öryggi, en við höfum aldrei gert það síðan fullveldi var náð. Við höfum ætíð verið öðrum háð til þess að halda uppi þeim landvörnum sem hér hafa verið á stríðs og friðartímum. Þess vegna er kominn tími til að við komum okkur saman um þá stefnu sem við teljum geta tryggt okkar öryggi í þeirri framtíð sem í vændum er. Ég er ekki sammála þeim stjórnmálamönnum sem telja að við þurfum að stofna okkar eigin her eða varnarsveitir, slíkar sveitir myndu á annað borð aðeins þjóna sama tilgangi og endur í skotbakka í tívolí. Ef við erum á annað borð aflögufær til varnarmála, eins og þessir stjórnmálamenn gefa í skin að við séum, þá vil ég frekar sjá þessa peninga í eflingu Landhelgisgæslunnar. Þá bæði í útgerð varðskipa og þyrla, en það nær ekki nokkurri átt að við séum að gæta 800.000 ferkílómetra efnahagslögsögu með að meðaltali einu varðskipi á sjó. Né heldur að við þurfum að treysta á erlendan her til að bjarga sjómönnum okkar þegar þannig stendur á að björgunarþyrlan okkar er í viðhaldsskoðun eða hefði farist við skyldustörf eins gerðist með TF RÁN.

Önnur heimilislíking…
Þegar ég hef talað við fólk í kringum mig um varnarmál hefur mér nokkrum sinnum fundist eins og fólk líti á Ísland eins og konu sem er að skilja við eiginmanninn, hver á að gæta hennar, líta eftir henni og passa að enginn gangi á hennar hlut. Ef þetta væri ástandið í alvöru þá hefur eiginmaðurinn hvort eð er staðið sig slælega, og líka unnið gegn henni, haldið aftur af henni þegar kemur að nýtingu hennar á eigin kostum og skilið eftir sár á líkama hennar. Hún er betur sett án karlsins.

Á ríkið að minka umsvif á þenslutímum?
Því var stungið að mér fyrir skemmstu að brotthvarf hersins gæti ekki komið á betri tíma, hagstjórnarlega séð, því að það á víst að vera gott fyrir þjóðarskútuna að létta á fjármagnsþenslu í landinu þegar stórar framkvæmdir standa fyrir dyrum. Talan sem hér gæti verið á sveimi samsvarar u.þ.b. 2% af landsframleiðslu. Það er samt ekkert í boði af hálfu hins opinbera sem gerir meira en að plástra það sár sem verður skilið eftir á vinnumarkaðinum á Suðurnesjum. Ríkið hefur ekki komið með áætlun um hvernig skuli bæta upp atvinnumissinn sem blasir við þeim 1700 Íslendingum sem þjónusta herinn. Þess í stað reynir forsætisráðherra að ríghalda í herinn, til þess að þurfa ekki að horfast í augu við þá staðreynd hann hefur enga áætlun um atvinnu á svæðinu og að ríkið hefur leitt hjá sér alla svona umræðu, þá með þeim rökum að Suðurnesjamenn “hafi herinn”.

Ábyrg utanríkisstefna
Ef við ógnum engum, ef við ögrum engum, ef við sýnum friðarvilja í verki og við leggjum okkar að mörkum í að gera þennan heim friðvænlegri þá getum við skapað okkur virðingarsess meðal þjóða, þann sess að það myndi skapa andúð á (ó)hugsanlegum árásaraðila um allan heim. Þannig værum við að styrkja öryggi okkar um leið og við miðluðum málum milli annarra ríkja, það væri ábyrg utanríkisstefna.

Náum tökum á óttanum
Ég vil að við sættum okkur við að það þjónar ekki lengur hagsmunum Bandaríkjanna að halda hér úti herstöð. Það þjónar heldur ekki okkar hagsmunum að hafa hér herstöð. Ég tel að ef komi til alheimsófriðar þá væri verðandi vera okkar í ESB sú vörn sem þurfum varðandi ógn frá óvinveittum ríkjum og enn fremur að við séum betur varin gegn hryðjuverkum með ábyrgu hlutleysi. Vera hers heimsveldis, sem sumir telja hið illa, er ekki merki um hlutleysi. Við eigum að sætta okkur við það og reyndar fagna því innilega að við séum í dag í stödd í friðsælasta hluta heimsins, því hér norður í útnára þurfum ekkert að óttast nema óttan sjálfan. Ekki láta hann ná tökum á ykkur.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand