Lofsvert framtak innflytjenda!

Fyrr í vikunni litu dagsins ljós hugmyndir að nýjum stjórnmálaflokk innflytjenda á Íslandi. Hildur Edda svarar gagnrýni sem beint hefur verið að honum.


Eins og flestum er kunnugt eru uppi hugmyndir um að stofna hér á landi sérstakan stjórnmálaflokk sem berst fyrir málefnum innflytjenda. Sýnist sitt hverjum um það framtak, en mín skoðun á því er í anda frjálslyndrar jafnaðarstefnu, og því fagna ég því. Það er rétt sem talsmaður flokksins bendir á, að enginn núverandi flokka hefði lagt neina sérstaka áherslu á málefni innflytjenda í sveitarstjórnarkosningunum í maí og það er eitthvað sem við eigum að sjálfssögðu að hafa áhyggjur af. Innflytjendur taka þátt í að byggja upp okkar samfélag og auðga menninguna og því er sjálfssagt að tillit sé tekið til þess og þeir hafi einhver áhrif á stjórnmálin. Ætlun mín með þessari grein er að svara þeirri gagnrýni sem heyrst hefur á þessu framtaki innflytjenda.

#1. Að stofna sér stjórnmálaflokk er merki um að innflytjendur vilji ekki aðlagast

Svar: Það að þeir skulu láta til sín taka í stjórnmálum þýðir einmitt að þeir hafa vilja til þess að aðlagast. Ef þeir vildu vera einangraðir, þá hefðu þeir varla áhuga á að láta í sér heyra á opinberum vettvangi.

#2. Innflytjendur eru eins misjafnir og þeir eru margir og hafa mismunandi stjórnmálaskoðanir. Því er ekki líklegt að flokkur þeirra geti verið málsvari þeirra allra.

Svar: Það er rétt að þeir eru eins misjafnir og þeir eru margir. Og það er ekki víst að þeir munu allir taka undir stefnumál flokksins, en það er nú einu sinni þannig með lýðræðið að fólk ræður því hvað það kýs. Einhverjir innflytjendur kunna að vilja frekar kjósa Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu, Vinstri Græna, Framsóknarflokk eða Frjálslynda, en það stendur alveg jafn mikið til boða þótt valkostunum sé fjölgað. Það má líka vel vera að fjöldi Íslendinga vilji kjósa flokk innflytjenda, þannig að val allra eykst, ekki bara innflytjenda.

#3. Innflytjendur verða að aðlagast Íslandi en ekki öfugt.

Svar: Innflytjendur taka þátt í að byggja upp okkar samfélag og þeir hafa margir hverjir talsvert ólíkan bakgrunn en flestir Íslendingar. Aðlögun þýðir ekki að þeir þurfi að skipta um trú, klæðaburð eða lífsviðhorf. Við getum þó að sjálfsögðu gert þá kröfu til þeirra að þeir fari að íslenskum lögum eins og við hin verðum að gera. Ég hef reyndar ekki heyrt neina innflytjendur halda því fram að þeir séu yfir íslensk lög hafnir þannig að varla er það í umræðunni. Hins vegar reynast tungumálaörðugleikar mörgum innflytjendunum erfiðir, og það hlýtur að vera okkar hagur og þeirra að greiða götu þeirra í íslenskunámi.

#4. Moskur eiga ekki heima á Íslandi.

Svar: Samkvæmt stjórnarskránni á að ríkja trúfrelsi á Íslandi og því ættu múslimar að vera jafnréttháir og kristnir, þótt þeir séu í minnihluta. Hvað það er sem gerir moskur hættulegri en kirkjur eða aðrar trúarbyggingar, það á ég reyndar erfitt með að sjá.

#5. Einstaklingshyggjurökin: Innflytjendur eiga að berjast fyrir sínum eigin réttindum sjálfir en ekki hópa sig saman í sinni baráttu. Hver er sinnar gæfu smiður.

Svar: Með þessum rökum er í raun skrítið að það séu til stjórnmálaflokkar yfir höfuð, hvað þá stjórnmálaflokkar sem hafa einstaklingshyggju á stefnuskrá sinni. Af hverju sýna einstaklingshyggnir ekki fordæmi og berjast gegn samfélagshyggju hver í sínu horni, fyrst það virkar svona vel?

Hvað sem þessum rökum líður þá tel ég baráttu innflytjenda eiga fullkomlega rétt á sér. Í raun er leitt að núverandi stjórnmálaflokkar skuli ekki hafa sýnt þeirra málefnum meiri skilning, en vonandi verður brátt breyting á. Sjálf mun ég halda áfram að kjósa Samfylkinguna eins og ég hef gert hingað til, en græt það hins vegar ekki þótt aukin samkeppni muni hugsanlega bitna á mínum flokki eins og hinum. Einhverjir myndu eflaust að halda að Samfylkingarfólk, sem hefur að undanförnu horft upp á töluvert á fylgishrun við flokkinn, hefði sérstakar áhyggjur af því að innflytjendur sem hingað til hafa stutt flokkinn, muni nú frekar leita til öflugri málsvara sinna réttinda. En vonandi mun flokkur innflytjenda verða vel heppnaður flokkur að hætti Kvennalistans sáluga -og á endanum verði enginn “flokkur með flokkum” nema hann gefi málefnum innflytjenda verðugan sess í sinni stefnu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand