Vöggustofur að danskri fyrirmynd

Lilja Þorsteinsdóttir telur að vöggustofur séu raunhæf lausn á dagvistun ungra barna.


Ungir jafnaðarmenn vilja skoða kosti þess að stofna vöggustofur fyrir börn frá 6-18 mánaða aldurs. Þegar foreldrar klára fæðingarorlof sitt liggur yfirleitt beinast við að setja barnið til dagforeldra. Þá er barnið yfirleitt á milli 6 og 12 mánaða og því þurfa börnin að dvelja um það bil 6 mánuði til ár hjá dagforeldrinu. Um þetta hafa foreldrar yfirleitt ekkert val og eins og staðan hefur verið undanfarið, hafa þeir heldur ekki neitt val á milli dagforeldra vegna skorts í stéttinni. Vegna þessa hafa foreldrar á tíðum þurft að sætta sig við dagforeldri sem býr mjög langt í burtu frá þeirra heimili eða vinnustað, eða bara hreinlega dagforeldri sem þeim líkar ekki fullkomlega við. Þetta verða þó foreldrar að sætta sig við til að missa ekki vinnu sína eða neyðast til að hætta í námi, því engin önnur vistunarúrræði eru í boði. Vöggustofum væri ætlað að leysa þennan vanda og taka á móti þeim börnum sem komast ekki til dagforeldris, eða bjóða foreldrum þennan kost sem vildu það frekar en dagforeldrakerfið.

Dagforeldrar bjóða flestir upp á frekar ósveigjanlegan og stuttan vinnutíma sem hentar alls ekki foreldrum sem þurfa að vinna t.d. 9 tíma vinnudag. Einnig er mjög óhentugt þegar sú staða kemur upp að dagforeldrið eða börn þess veikjast, en þá þurfa foreldrar að vera heima með börnin og taka sér launalaust leyfi úr vinnu. Þetta kemur sér auðvitað mjög illa fyrir foreldra og er misvel tekið af þeirra vinnuveitendum. Þetta vandamál væri ekki til staðar á vöggustofum þar sem opnunartímar gætu verið svipaðir og eru núna á venjulegum leikskólum.

Dagforeldri er í flestum tilvikið eitt með 4-5 börn í sinni umsjá. Erfitt er fyrir það að skreppa frá og getur það einnig orðið til þess að foreldrar þurfi að taka sér frí í vinnu heilu og hálfu dagana svo dagforeldrið komist frá. Þó svo að eitthvað eftirlit sé með dagforeldrunum geta foreldrar barna aldrei verið vissir um að allt sé með felldu. Þetta vandamál væri væntanlega heldur ekki til staðar í vöggustofum þar sem fleiri en einn starfskraftur væri á hverri deild.

Dagforeldrakerfið er auðvitað ekki alslæmt. Dagforeldar eru langflestir mjög barnelskt fólk sem leggur sig fram við að hugsa vel um börnin og skapa þeim notalegt umhverfi. Þetta kerfi hefur verið lengi við lýði hér á landi en undanfarin ár hefur óánægjan með það aukist, sérstaklega undanfarin misseri þar sem nánast hefur ekki verið hægt að fá pláss fyrir börnin og foreldrar jafnvel þurft að segja upp starfi sínu vegna þess. Auðvitað eru hugmyndir um vöggustofu ennþá á byrjunarstigi og enginn hefur reynt að útfæra þær nánar. Augljóst er þó að núverandi dagforeldrakerfi er ekki nógu gott og vert er að skoða vöggustofur sem góða lausn til að leysa það af eða vinna samhliða því.

-Lilja Þorsteinsdóttir

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand