Hildur Edda talar um hvernig sumar konur boða ekkert nema aðgerðarleysi og hlýðni við karlaveldið, og kalla það jafnrétti.
Undanfarið hefur borið töluvert mikið á reiðipistlum á vefsíðum hægrimanna í garð femínista, eða að minnsta kosti í garð okkar vinstrisinnuðu femínistanna. Slíkir pistlar hafa að vísu verið töluvert vinsælir á þeim vefsíðum í gegnum tíðina og það er ekkert nýtt að róttækni okkar vinstrimanna skuli fara óstjórnlega í taugarnar á hægrimönnum, hvort sem er í jafnréttismálum eða öðrum málum. Hins vegar hefur það verið gegnumgangandi lenska hjá þeim að boða ekkert nema aðgerðarleysi og hlýðni við karlaveldið, og kalla það jafnrétti.
Það er heldur ekkert nýtt að töluvert stór hluti fólks skuli líta á það sem niðurstöðu eðlilegrar þróunar að karlar hafa langtum meiri völd en konur, fái hærri laun og séu „normið” í okkar samfélagi. Slíkt er ekki bundið nútímanum og heldur ekki Íslandi frekar en öðrum löndum. Það er sérstaklega áhugavert að lesa heimildir um þjóðfélagsumræðuna í kringum baráttu kvenna fyrir kosningarétti til jafns við karlmenn, sem fékkst fyrir rétt rúmum 90 árum. Þótti þá ýmsum nóg um frekju kvenna, það væri þrátt fyrir allt ástæða fyrir því að þær hefðu ekki fengið kosningarétti og hefðu ekki vit á pólitík, enda væri hlutverk þeirra af náttúrunnar hendi (eða gvuðs –eftir hentisemi), allt annað en karla. Slíkar fullyrðingar þættu væntanlega fáránlegar og fjarstæðukenndar núna, en þær voru það ekki þá. Þá voru líka bæði konur og karlar sem börðust gegn kosningarétti kvenna, og kröftugar baráttukonur máttu þola mikið mótlæti í sinni baráttu.
Sem betur fer hafa síðan þá alltaf verið til konur og karlar sem hafa látið sig jafnréttismál kynjanna varða og boðað róttækar þjóðfélagsbreytingar í átt að jafnrétti. Og því miður hafa þau ætíð mátt mæta mótlæti og sleggjudómum. Viðhorfið þess efnis að „nú sé komið nóg” er í raun gömul tugga sem hefur lifað í gegnum allar þær merku og mikilvægu þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa í átt að jafnrétti kynjanna. Samfélag okkar er enn að mörgu leyti byggt á karllægum gildum þótt margt hafi áunnist í leiðréttingu á því. Það er ekki þar með sagt að það sé neinum sérstökum að kenna –enda er markmið femínískrar baráttu ekki að búa til sökudólg. Það er hins vegar engu að síður staðreynd sem þarf að breyta.
Frjálshyggjumenn hafa gjarnan mært hreyfingu svokallaðra „einstaklings-femínista”, eða ifeminists, sem lesa má um meðal annars á vefsíðunni www.ifeminism.com. Þeir þykjast gjarnan hafa himin höndum tekið, eins og það sé einhver frétt að þeir eigi skoðanabræður og -systur í öðrum löndum. Í stuttu máli sagt boðar sú hreyfing aðgerðarleysi í jafnréttismálum, hlýðni við karlaveldið og frjálsa byssueign almennings. Hvernig slíkt leiðir til jafnréttis þarf maður sjálfsagt að vera frjálshyggjumaður til að skilja. Rétt eins og svör þeirra við áhyggjum okkar jafnaðarmanna af félagslegum jöfnuði –um að jöfnuður og velferð komi hreinlega af sjálfu sér með þeirra „lausnum”.
Það er vinsamleg ábending mín til hægrisinnaðra kynsystra minna, að næst þegar þær boða aðgerðarleysi í jafnréttismálum kynjanna, þá muni þær eftir að þakka öllum þeim róttæku kvenfrelsissinnum sem í gegnum tíðina hafa greitt götu okkar kvenna þrátt fyrir mótbyr hinna borgaralegu afla.