Litlir drengir í stríðsleik

Á undanförnum dögum hafa umræður um veru Bandaríkjahers hér á landi verið heldur áberandi og skoðanir skiptar. Herstöðvarandstæðingar kunna sér ekki læti yfir hugsanlegri brottför á meðan Suðurnesjamenn o.fl. telja sig vera í ,,vondum málum“. Á undanförnum dögum hafa umræður um veru Bandaríkjahers hér á landi verið heldur áberandi og skoðanir skiptar. Herstöðvarandstæðingar kunna sér ekki læti yfir hugsanlegri brottför á meðan Suðurnesjamenn o.fl. telja sig vera í ,,vondum málum“. Og vissulega getur það orðið okkur dýrkeypt að hafa byggt stóran hluta atvinnulífsins með þeirri bjargföstu trú að herinn skuli verða hér alla tíð. Tilhugsunin um að standa á eigin fótum þegar kemur að varnarmálum var okkur vissulega fjarlæg. Og hvað á nú að taka til bragðs?

Ísland úr Nató?
Íslendingar eiga að heita bandalagsþjóð Bandaríkjamanna. Utanríkisstefna Bandaríkjanna hefur þó einfaldast til muna síðan G.W.Bush tók við embætti. ,,Ef þú ert ekki með okkur, ertu á móti okkur“ segir hann, og eykur fjárveitingar til áframhaldandi stríðsreksturs í heiminum með því að skera niður í framlögum til mannréttindamála. Framganga íslenskra ráðamanna í utanríkismálum hefur oftar en einu sinni sýnt fram á að við séum Bandaríkjamönnum hliðholl í einu og öllu, sama hvað bjátar á. Okkar sérstaða innan NATO er mikil þar sem engan höfum við herinn. Og hann viljum við ekki.

…og í því sambandi má nefna Ísrael!
Á ónefndu vefriti úti í bæ komu fram heldur athyglisverðar hugmyndir um sjálfstæðar landvarnir Íslendinga. Snerust þær m.a. um hugsanlega aðstoð Bandaríkjamanna til Íslendinga í því skyni að stofna innlendan her. Þó verður að segjast að tillögur þessar voru frekar háfleygar, sérstaklega þegar greinarhöfundur nefndi samstarf Ísraela og Bandaríkjanna sem gott dæmi um samheldna aðstoð í uppbyggingu á eigin landvörnum Ísraela. Sennilega hefði greinarhöfundur ekki getað verið óheppnari með dæmi um ,,samheldna aðstoð í uppbyggingu eigin varna“. Það þarf ekki annað en að líta á þann vítahring sem nú er fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem Bandaríkjamenn bera einna mesta ábyrgð á því hvernig daglegt líf fólks er lamað vegna stríðsótta.

Herlaust Ísland með öllu!
Umræðan um brotthvarf hersins hefur hingað til endað á Suðurnesjum. Það eru jú þúsundir manna sem nú byggja sinn atvinnuveg á starfsemi hersins m.a. á Keflavíkurflugvelli. Að því leyti er skiljanlegt að starfsemin skuli ekki vera löngu horfinn á brott. Reyndar hefur herinn nauðugur haldið úti þessarri herstöð í rúmlega 40 ár af ,,pólitískum ástæðum“, eða allt frá tímum Bjarna Benediktssonar. Við værum alls ekki svo illa stödd ef herinn myndi yfirgefa landið. Skiptar skoðanir eru á meðal Jafnaðarmanna í þessum efnum, því vissulega eru til friðarsinnar meðal vor.

Íslenska þjóðin má ekki standa frammi fyrir því að grátbiðja Bandaríkjamenn um áframhaldandi veru hersins hér á landi, einu sinni sem oftar. Slíkt er ekki aðeins niðurlægjandi, heldur ótraustvekjandi fyrir sjálfstæða þjóð sem þráir viðurkenningu á alþjóðavettvangi. Ef Íslendingar eru jafn-sjálfstæðir og af er látið og í stakk búnir til eigin landvarna, væri töluvert viturlegra að eyða þeim fjármunum (sem annars yrði varið til landvarna) í atvinnuppbyggingu á Suðurnesjum eftir brotthvarf bandaríska hersins. E.t.v. þykir mörgum meira spennandi að hugsa til þess að hér risi hraustur og fjölmennur her, reiðubúinn til þjónustu þurfandi landa.

…sem þekkir hvorki sverð né blóð
Þeir sem lásu Skólaljóðin í grunnskóla ættu að muna eftir verðlaunakvæði Huldu: ,,Hver á sér fegra föðurland.“ Þetta ljóð lýsir sennilega best því stolti sem Íslendingar finna fyrir þegar þeir segjast koma frá herlausu landi. Ísland er vissulega að stækka og færast nær meginlöndunum, en viljum við færast enn vestar? Með því að eiga í slíku landvarnasamstarfi við Bandaríkjamenn erum við að skuldbinda okkur annarri þjóð mun meira en aðild að Evrópusambandinu hefði í för með sér, svo dæmi sé tekið. Hin eina og sanna ,,Sérstaða Íslands“ felst í því að vera án hers. Og við ættum að vera afspyrnu hreykin af þeirri staðreynd.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið