Arndís Anna Kristínar- og Gunnarsdóttir fullyrðir í grein dagsins að ef þorri þjóðarinnar hefði rétta og raunverulega mynd af því sem honum gefst kostur á að kjósa, velti fyrir sér hugmyndafræði þeirri sem liggur að baki kosningaloforðum og léti ekki blekkjast af taktík og tækni þeirri sem óhjákvæmilega virðist fylgja fulltrúalýðræðinu, þá væri ríkisstjórn sú sem nú situr við stjórnvölinn, fyrir löngu fallin.
Fólk sem ekki liggur á kafi í lífsspekibókmenntum allan daginn, og eyðir dýrmætum tíma sínum ekki í að kryfja orð allra stjórnmálamanna, nema kannski rétt í kosningabaráttunni, verður seint krafið um atkvæði á grundvelli hugsjóna eða réttsýni. Hinn almenni kjósandi kýs eftir kosningaloforðum.
En það er einmitt í kringum kosningabaráttu sem einna minnst er að marka málflutning stjórnmálamanna. Í aðdraganda kosninga fara allir meira og minna með sömu tugguna. Við viljum enda öll meira og minna það sama; heimsfrið og mat í alla maga, rétt eins og fegurðardrottningarnar. Í raun er alls ekki að undra, miðað við málflutning manna í kosningabaráttu, að stór hluti kjósenda velji reit á kjörseðlinum ekki fyrr en inn í kjörklefann sjálfan er komið.
Það sem hinn almenni kjósandi virðist oft eiga bágast með í aðdraganda kosninga, er að átta sig á muninum á stefnu stærri flokkanna tveggja, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks. Þeir sem fylgjast glöggt með umræðum allan ársins hring eiga væntanlega ekki í miklum vandræðum með að greina þarna á milli, en í kringum kosningar verður munurinn heldur óljósari. Báðir lofa flokkarnir lægri sköttum, meiri velferð, bættum samgöngum, meira frelsi, lægra matvælaverði, minni verðbólgu, betra réttarkerfi, grænni grösum, betri menntun, meiri menntun o.s.fr.v. o.s.fr.v.
En hver er munurinn?
Ég minnist þess dags glöggt, þegar ég áttaði mig á því hvers vegna það ætti betur við skoðanir mínar að styðja Samfylkinguna heldur en Sjálfstæðisflokkinn, þrátt fyrir að ég væri mjög frjálslynd og, eins og frjálshyggjumennirnir, almennt „spennt fyrir“ markaðsöflunum margumræddu. Lengi var ég hrædd um að skoðanir mínar er lutu að lögleiðingu fíkniefna til dæmis, og vændis, gerðu það að verkum að ég ætti ekki heima í jafnaðarmannaflokki eins og Samfylkingunni.
Þennan tiltekna dag var ég stödd á málþingi ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna, þar sem meðal annars var rætt um vændi. Fjórir af fimm ræðumönnum mæltu með sænsku leiðinni svokölluðu, en eitt stykki mælti henni í mót, og lagði til að vændi yrði gert refsilaust að öllu. Sá einstaki ræðumaður kom úr röðum ungra Sjálfstæðismanna.
Hefði ég einblínt á slagorðin og titla erindanna, hefði ég hiklaust merkt x við D í þeim málaflokki á þeim degi. Niðurstaða „ungsjallans“ var sem töluð úr mínu hjarta. En þrátt fyrir að vera sammála niðurstöðu þessarar ungu Sjálfstæðiskonu sem ræðuna flutti, gat ég engan veginn fallist á röksemdafærsluna. Rökin sem færð voru fyrir þessari annars ágætu niðurstöðu, þóttu mér þvert á móti stríða gegn flestu því sem ég áleit satt og rétt á þeim tíma.
Slagorðunum og titlum á þessu málþingi má líkja við ræður og röksemdir í kosningabaráttu. Þau hljóma vel, en í upplýsingaflóðinu og æsingnum sem kosningatíðinni fylgja getur verið torvelt að skilja, en auðvelt að misskilja hvað býr þeim að baki: Meira val fyrir eldri borgara. Lægri skattar og meira ráðstöfunarfé. Vinir einkabílsins. Frelsi og velferð.
Allt hljómar þetta óskaplega vel. En hvað þýðir það?
Í stað þess að gerast enn langorðari um blekkingarleik þann sem pólitíkin oft vill verða, vil ég að lokum gerast svo djörf að fullyrða, að ef þorri þjóðarinnar hefði rétta og raunverulega mynd af því sem honum gefst kostur á að kjósa, velti fyrir sér hugmyndafræði þeirri sem liggur að baki kosningaloforðum og léti ekki blekkjast af taktík og tækni þeirri sem óhjákvæmilega virðist fylgja fulltrúalýðræðinu, þá væri ríkisstjórn sú sem nú situr við stjórnvölinn, fyrir löngu fallin.