Tími ríkisstjórnarinnar er á enda!

Sveinn Arnarsson segir þrjú hugtök hafa horfið úr stjórnarráðinu eftir 1995. Réttlæti, jafnrétti og mannréttindi hefur verið fleygt út í hafsauga eða stungið undir stól.

Frá því núverandi stjórnarflokkar urðu einn flokkur, ráðstjórnarflokkurinn, hefur margt farið úrskeiðis. Útgjöld til menntamála hafa verið skilgreind sem kostnaðarliður en ekki arðbær fjárfesting. Samkvæmt OECD er staða menntaskólans langt fyrir neðan þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Háskólinn á Akureyri hefur barist í bökkum fyrir tilvist sinni, og ekki reyna stjórnvöld að draga hann að landi. Starf innan leik- og grunnskóla hefur síðan tekið stakkaskiptum frá því að þær stofnanir á landinu voru færð undir verndarvæng sveitarfélaganna.

Saga öryrkja og ellilífeyrisþega í tíð núverandi ríkisstjórnar er ein samfelld sorgarsaga. Íslensk stjórnvöld geta ekki hlaupið frá því að þessir þjóðfélagshópar hafa borið skarðan hlut frá borði í þeirri velmegun og uppsveiflu sem hér hefur verið síðustu ár. Ríkisstjórn íslenska lýðveldisins hefur á seinustu árum búið til annars flokks þegna. Þegna sem hafa orðið útundan í því sýndargóðæri á fyrstu árum 21. aldarinnar. Nú er svo komið að hluti þessara þjóðfélagshópa eru að greiða sama hlutfall af teknum sínum í skatt og þeir langríkustu í íslensku þjóðfélagi. Er þetta það réttlæti sem við viljum sjá næstu fjögur ár? Viljum við haga tekjuskiptingunni svona?

Við megum heldur ekki gleyma því að ráðherrar á núverandi kjörtímabili hafa ekki farið að lögum þegar ráðið er í stöður. Árni Magnússon fyrrv. félagsmálaráðherra fékk á sig dóm áður en hann hvarf úr hinu sökkvandi skipi framsóknar. Björn Bjarnason fór heldur ekki að lögum og braut jafnréttislög. Hann lét þau orð falla að lögin væru gömul og úr sér gengin og því ætti hann ekki að fara eftir þeim. Hann semsagt taldi sig vera yfir lögin hafinn! Er þetta réttlætið sem við viljum? Er þetta jafnréttið sem við viljum?

Talandi um jafnréttismál, þá hefur kynbundinn launamunur ekkert breyst síðastliðin fjögur ár. Það er engin tölfræðilegur munur á kynbundnum launamun nú og fyrir fjórum árum þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnarflokkanna um síðustu kosningar. Við, jafnaðarmenn, sem erum femínískt þenkjandi segjum þessum launamun stríð á hendur. Konur eru að fá lægri laun heldur en karlar fyrir nákvæmlega sömu vinnunna. Það er aðeins spurning um grundvallar mannréttindi að þessi launamunur verði aflagður.

Það er deginum ljósara að þrjú hugtök hafa horfið úr stjórnarráðinu eftir 1995. Réttlæti, jafnrétti og mannréttindi hefur verið fleygt út í hafsauga eða stungið undir stól. Skerðing tekna þeirra sem minnst hafa milli handanna, niðurrif velferðarkerfisins, undirlægjuháttur stjórnvalda í utanríkismálum, á lista hina staðföstu og vígfúsu þjóða til innrásar í Írak, mannréttindabrot á Falun Gong meðlimum, ráðherrar fara ekki að lögum og svo mætti lengi telja eru dæmi um fádæma heimskulega ákvarðanatöku stjórnarliða seinustu ára.

Það er vegna þessara upplýsinga sem ég býð mig fram til þjónustu fyrir íbúana í landinu og sækist þar af leiðandi eftir 3. sæti á lista Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand